17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (1242)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er máske ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þessa till., þar sem hún á væntanlega eftir að fara til n., svo að þá verður tækifæri til þess að athuga hana nánar.

Þetta mál, um hafnargerð á Skagaströnd, hefir óneitanlega vakizt upp fyrir hv. þm. við umr. um síldarbræðslustöð á Norðurlandi. Og það er ekki undarlegt, því að aðstaða Skagastrandar yrði með því ólíkt betri til þess að fá síldarbræðslustöðina, og ástæðurnar styrkjast til þess að hafa hana þar, ef byrjað væri á hafnargerðinni.

Í sambandi við síldarbræðslustöð á Norðurlandi voru tilnefndir allmargir staðir, og ef byggja ætti síldarbræðslustöð alstaðar þar, sem goðar hafnir eru fyrir hendi, há yrði talsvert óheppileg dreifing á þeim, ef þær yrðu allar reistar, hver á sínum stað.

Í sambandi við hafnargerð á Skagaströnd vil ég geta þess, að fleiri staðir gætu komið til mála þarna norður frá. Vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. stj. um mælingar þær, sem gerðar hafa verið á Hindisvík. Eftir því, sem mér hefir verið skýrt frá, eru þar mjög góð skilyrði fyrir hafnargerð. Ef svo reynist, þá er þar fundinn staður mitt á milli þeirra staða, sem um hefir verið deilt. Þaðan er nokkurnveginn jafnlöng sigling á alla firði í Húnaflóa, og væri því mjög góður staður. Einnig liggur hann vel við síldarsókn. Þar er seinni part sumars oft síld, þó að hennar verði ekki vart annarsstaðar. Í haust, þegar síld var horfin alstaðar annarsstaðar fyrir Norðurlandi, þá voru á þessum slóðum 20–30 skip fram um miðjan nóvember. — Nú finnst hv. þdm. ef til vill komið nokkuð mikið síldarbragð að þessum umr. um hafnargerð á Skagaströnd, en mér fannst hv. flm. gefa tilefni til þess að minnast á hina væntanlegu síldarbræðslustöð í sambandi við þetta mál.

Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. stj., að hún skýri okkur frá því, hvort nokkurra upplýsinga er að vænta frá mælingum á Hindisvík, svo að fyrir þinginu liggi nákvæmar upplýsingar í þessu efni. Þær munu, eftir því sem ég hefi heyrt, mæla með sér sjálfar, og þarf ég því ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni.