16.11.1933
Neðri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. fyrri hl. (Eysteinn Jónsson):

Eins og nál. á þskj. 31 ber með sér, hefir orðið samkomulag um það í stjskrn., að við þessa umr. verði aðeins fluttar af hálfu n. og einstakra nm. þær brtt., sem öll n. væri sammála um að leggja til, að nái samþykki. Er það með tilliti til þess, að greiðlegar gangi og betur fari úr hendi afgreiðsla frv. heldur en sýnt var að verða mundi, ef ágreiningsatriði eru tekin samhliða til umr. Einstakir nm. hafa að vísu sérstöðu um nokkur atriði í frv., sem þeir munu koma með till. um við 3. umr.

Við, sem kjörnir erum framsögumenn, höfum skipt þannig með okkur verkum, að ég tek fyrri hluta brtt., en hann þann síðari. Skal ég reyna að vera eins stuttorður og ég get um minn hluta, enda eru flestar brtt. smáar. Sé ég heldur ekki ástæðu til að ræða atriði frv. að öðru leyti, enda mun öllum vera þetta mál orðið allkunnugt nú þegar.

Fyrsta brtt. á við 6. gr., að yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi skuli meta, hvenær teljast megi svo illt til yfirferðar í einhverjum hreppshluta, að verða skuli við kröfu 20 hreppsbúa um að stofna nýja kjördeild. Þetta vill n. setja til þess, að líklegra sé, að hlutlaus dómur fáist. Verður að telja yfirkjörstjórnir líklegri til að sjá yfir þann ríg, sem kann að vera innan hrepps um þessa hluti, heldur en hreppsnefndina.

2. brtt., við 9. gr., er orðabreyt., og ætla ég ekki að fara út í hana.

Þá er 3. brtt., við 13. gr., um það, að þar sem sýslumaður og hreppstjóri eru búsettir í sömu kjördeild, þar skuli kosningar utan kjörfunda fara fram hjá sýslumanni, en ekki hreppstjóra. Þetta er til þess, að kosningin fari fram á einum stað, og þykir þá hentugra, að sýslumaður sjái um hana, þar sem hann annars er í kjördeildinni.

4. brtt. er við 15. gr. N. er sammála um að taka hana aftur til nýrrar athugunar til 3. umr.

Þá er 5. brtt. um það, að í stað „ráðherra“ í 17. gr. frv. komi: sýslumaður eða bæjarfógeti. — Í frv. segir, að ráðh. skuli gera ráðstafanir til þess, að kjörskrá sé samin, ef vanræksla hefir átt sér stað í því efni. En n. virðist betra, að hlutaðeigandi sýslumaður eða bæjarfógeti sjái um þetta starf, og þykir líklegt, að eftirlitið verði einfaldara með þessu móti, enda yrði framkvæmdin oftast sú, að ráðh. fæli hlutaðeigandi sýslumanni að bæta úr slíkri vanrækslu, ef hún ætti sér stað.

Ég vil taka það fram, að n. hefir láðst að breyta 23. gr. frv. í samræmi við þessa breyt., en mun taka það til athugunar við 3. umr.

6. brtt. er við 18. gr. Miðar hún að því að tryggja, að eftirrit það, sem menn eiga aðgang að hjá oddvita til þess að rannsaka, hvort þeir séu á kjörskrá, sé staðfest, þannig að menn geti verið vissir um, að það sé gilt eintak.

7. brtt. er við 19. gr„ að síðasta málsgr. þeirrar gr. falli burt. En þessi grein var um það, að hreppsnefndir og bæjarstj., sem semja kjörskrár, væru skyldar að tilkynna skriflega með pósti á hvert heimili, hverjir eru á kjörskrá á því heimili, og eins ef enginn væri. N. sýndist við nánari athugun þessa atriðis, að það sé í raun og veru enginn fengur fyrir fólkið, vegna þess að því er ekki svo háttað í sveit, að bréfin séu borin á bæina, heldur eru látin á póst- eða bréfhirðingastað, og mundi því í mörgum tilfellum ekki auðveldara að ná í þessar upplýsingar þar heldur en í kjörskrá hjá hlutaðeigandi yfirvaldi. Þess vegna féllst n. á að taka þetta burt. Ég skal geta þess til að fyrirbyggja misskilning, að n., sem undirbjó frv., sá, að framkvæmd þessa ákvæðis mundi verða vandkvæðum bundin, og setti hún það því inn í frv. með hálfum huga.

Þá er 8. brtt. við niðurlag 20. gr. Það er einungis orðabreyt. Þykir ákvæðinu betur fyrir komið eins og það er í brtt. heldur en eins og það er í frv., og fer ég ekki frekar út í það.

Þá kemur 9. brtt., við 23. gr., um að orðin „eða á þeim tíma árs“ falli burt. Þetta er aðeins leiðrétting á frv. Þessi orð höfðu slæðzt inn í frv. vegna þess, að n., sem starfaði fyrir þingið að samningu frv., var einu sinni að hugsa um að binda gildi kjörskránna við 1. jan., en frá því var fallið, og því eiga þessi orð ekki lengur við.

Þá er 10. brtt., við 24. gr. Það er aðeins orðabreyt., og þarf ekki að eyða orðum að henni. 11. brtt., við 25. gr., er einnig orðabreyt.; þykir efninu betur fyrir komið á þann hátt, sem brtt. gerir ráð fyrir.

Þá er 12. brtt, við 27. gr. Hún er í tveimur liðum, a og b, og miðar að því, að það komi greinilega fram, að ætlazt er til, að frambjóðandi sendi ætíð sjálfur framboð sitt, en eigi að það sé sent af öðrum aðilum fyrir hann. Það kom fram aths. um það í n., að með orðalagi 26. og 27. gr. frv. væri gefið í skyn, að frambjóðandi þyrfti ekki endilega að senda framboð sitt sjálfur, heldur gæti einhver annar tilkynnt kjörstjórninni framboðið. Brtt. 12.a miðar að því að fyrirbyggja þennan skilning á lögunum. Brtt. 12.b er aftur um að fjölga nokkuð meðmælendum þeim, sem gert er ráð fyrir, að fylgi framboðslistum í Rvík. Það var enginn ágreiningur um það í n. að leyfa aðeins vissa hámarkstölu meðmælenda, en hinsvegar fannst mönnum gert ráð fyrir of fáum meðmælendum í Rvík, vegna þess hvað kjósendur eru þar margir, og leggur n. til, að þeir skuli eigi vera fleiri en 200 og eigi færri en 100.

13. brtt., við 30. gr., er um það, að ef frambjóðendur einhvers flokks eru fleiri en 38, þá skuli sá flokkur einnig mega hafa fleiri en 38 menn á landslista sínum. Frv. gerir ráð fyrir, að flokkar geti haft alla frambjóðendur sína í kjördæmum á landslista, en flokkur, sem býður fram lista í Rvík, getur haft allt að 44 frambjóðendur alls í kjördæmum landsins, enda þó hann hafi í engu kjördæmi fleiri menn í kjöri en kjósa á. Auk þess getur komið fyrir, að flokkar bjóði fram fleiri en einn mann í einmenningskjördæmi, þó slíkt sé mjög fátítt. Þótti því ráðlegt að gera þessa breyt., svo allir frambjóðendur hvers flokks gætu verið á landslista hans og ákvæði frv. rekist eigi á hvað þetta snertir.

B-liður 13. brtt. inniheldur merkustu breyt., sem fellur í minn hlut að mæla fyrir. Í frv. er gert ráð fyrir, að frambjóðendur þeirra flokka, sem engan landslista hafa í kjöri eða hafa alla frambjóðendur sína á landslista, skuli koma inn í uppbótarsætin eftir þeim atkvæðafjölda, sem þeir hljóta í sínu kjördæmi. Um þetta atriði var töluvert talað í n. Flestum eða öllum nm. fannst, að önnur regla gæti einnig komið til greina með fast að því eins miklum rétti. Sú regla er þannig, að þeir frambjóðendur, sem hlutfallslega flest atkv. hljóta í kjördæmi án þess þó að komast að, komi inn í uppbótarsætin í þeirri röð, sem hlutföllin segja til. Það má segja, að þessi regla hafi við mörg rök að styðjast, m. a. þau, að það þarf ekki að vera, að frambjóðanda í litlu kjördæmi, sem fær hlutfallslega mörg atkv., sé sýnt minna traust en frambjóðanda í stóru kjördæmi, sem fær hærri atkvæðatölu, en þó hlutfallslega fá. Við skulum hugsa okkur, að flokkur hafi á að skipa tveimur mönnum í miklu áliti, vilji senda þá í vandunnin kjördæmi og jafnmikið traust sé borið til þeirra beggja. Nú getur svo farið, að í hluta annars falli lítið kjördæmi, en stórt kjördæmi í hluta hins. Eftir þeirri reglu, sem nú er í frv., væri sá, sem færi í litla kjördæmið, útilokaður frá að koma til greina við úthlutun uppbótarsætanna, þó hann fengi tiltölulega mikið atkvæðamagn, en hinn, sem í stóra kjördæmið fór, hefði alla möguleikana sín megin. Ég þarf ekki að eyða um þetta fleiri orðum; menn munu sjá, að það hefir talsvert mikið til síns máls, að báðar reglurnar komi til greina við úthlutun uppbótarsætanna. Það er vitanlega sameiginlegur vilji allra þeirra, sem keppt hafa að því, að flokkar gætu haft alla frambjóðendur sína á landslista, og eins þeirra, sem staðið hafa fyrir því, að hægt væri að úthluta uppbótarsætum þó landslisti sé ekki hafður í kjöri, að frambjóðendurnir komi inn í uppbótarsætin eftir því trausti, sem þeim er sýnt við kosningarnar. Og sá vilji fannst n. bezt framkvæmdur með því að hafa báða möguleikana fyrir hendi og láta þá ganga á víxl, þó þannig, að fyrst komi sá, sem flest atkv. hefir hlotið, næst sá, sem hlutfallslega hefir fengið flest atkv., og svo koll af kolli. Hvorug reglan hafði einhuga fylgi í n., og var því hallazt að því að fella þessi tvö sjónarmið saman.

14. og 15. brtt. get ég tekið í einu, því þær eru aðeins um að flytja síðari málsgr. 34. gr. í niðurlag 33. gr. Þar þykir hún eftir efni sínu eiga betur heima.

Þá er 16. brtt. Hún er við 42. gr. og er um það, að auk þess, sem auglýsa skal framboðslistana í útvarpinu og Lögbirtingablaðinu, skuli einnig auglýsa þá í dagblöðunum í Rvík. Er það gert til þess að tryggja, að listarnir verði mönnum sem kunnastir áður en til kosninga kemur.

17. brtt. er um að stækka opið á kjörkassanum, vegna þess að búast má við, að kjörseðlarnir verði nokkru stærri heldur en eftir núgildandi löggjöf um þetta efni.

Þá er 18. brtt., við 65. gr. Hún er um að bæta inn í frv., að atkvgr. utan kjörstaðar geti farið fram í skrifstofu hreppstjóra, þó hún sé eigi á heimili hans. Þetta er sjálfsögð breyt., sem miðar aðeins að því að gera ákvæðið fyllra. Ekki svo að skilja, að n. hafi litið svo á, að hart mundi verða að því gengið, að hreppstjóri léti kosningar utan kjörstaðar aðeins fara fram á heimili sínu, þó frv. væri ekki breytt. En þar sem komið getur fyrir, að hreppstjóri hafi skrifstofu utan heimilis, fannst n. rétt að gera ráð fyrir því í lögunum. Það getur komið fyrir, að þó hreppstjóri hafi ekki að jafnaði skrifstofu utan heimilis, þá fái hann sér herbergi einhversstaðar og setji upp skrifstofu fyrir kosningar, ef hann vill vera laus við átroðning á heimili sínu.

19. brtt. er aðeins orðabreyt.

Þá kemur 20. brtt., við 76. gr., og er hún um það, hvenær kjörfundir skuli byrja. Fer hún fram á, að frv. verði breytt í það horf, að kjörfundir skuli byrja kl. 12 á hádegi, nema í kaupstöðum; þar skuli þeir settir kl. 10 fyrir hádegi. í frv. eins og það er nú er gert ráð fyrir, að kjörfundir byrji hvergi fyrr en kl. tólf og ekki seinna en kl. eitt e. h. Þykir öruggara að fastákveða, hvenær kjörfundirnir eigi að byrja, svo kjósendur geti betur áttað sig á, hvenær þeir standa yfir.

B-liður 20. brtt. er við niðurlag þessarar sömu gr. og er um það, að ef kjörstjórnarmaður, sem er fjarverandi þegar kjörfundur byrjar, kemur síðar á fundinn, skuli hann taka sæti í kjörstjórn. Það er nú svo, að hinum kjörna manni er falið það starf sem trúnaðarmanni af þeim aðilum, sem um það eiga að fjalla, og þykir n. því eðlilegra, að hann taki sæti sitt þegar hann kemur, þó hann e. t. v. einhverra forfalla vegna hafi ekki verið kominn á þeirri mínútu, sem kjörfundurinn á að byrja.

21. og 22. brtt. eru eingöngu orðabreyt., og sé ég ekki ástæðu til að ræða þær.

23. brtt. er um það, að ritblý þau, sem notuð eru við kosningar, skuli vera venjuleg dökk ritblý. Þetta þótti n. rétt að taka fram, til þess að menn fari ekki að finna upp á því að nota mislit ritblý í einstökum kjördeildum til þess að geta síðar fylgzt með, hvernig kosning hefir fallið þar.

Þá hefi ég farið nokkrum orðum um allar þær brtt„ sem ég átti að mæla fyrir.