02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (1296)

63. mál, áveitur

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég hefi færzt undan að fylgja því, að málinu yrði vísað til landbn., einungis af því, að landbn. hefir athugað málið, en sízt af því, að ég teldi óþarft, að hún fjallaði um það. Ef landbn. heldur, að hún geti gert þetta betur með því að fá málið aftur til meðferðar, þá get ég fallizt á það. En nú hefir nefndarform. lýst yfir því, að hann telji þessa ekki frekar þörf. Þarf ég ekki að eyða fleiri orðum að þessu.

Það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, var í alla staði hófsamlegt, en hann leggur, eins og fleiri, óþarflega mikið upp úr því, að till. leggi bönd á Alþingi. Hún bindur Alþingi ekki að öðru leyti en í því felst, að Alþingi feli ríkjsstj. að athuga málið og leggja fyrir næsta Alþ. frv. skv. sinni niðurstöðu. Hafa oft verið stigin óvarlegri spor um fjárútlátin heldur en það, er þingið gerði með samþykkt till.

Hv. 2. þm. Eyf. varpaði fram þeirri spurningu, hverjir ættu að bera kostnaðinn. Ef hann á við kostnað þeirra mannvirkja, sem seinna kunna að verða gerð, get ég svarað því, að ég veit það ekki. Á með þessari till. að fela ríkisstj. að athuga, hvernig því verði bezt fyrir komið. Málið er vandasamt, en mikils um vert, og þarf að flyta því sem mest, að áveitumálunum sé sinnt svo sem vera ber, og skal því treyst, að niðurstaða stj. yrði sú, að sá kostnaður, er af því hlytist, að þessum yfirgripsmiklu landbúnaðarmálum yrði nógur gaumur gefinn, kæmi sem réttlátast niður.

Hv. þm. lét það líka í ljós, að landbúnaðinum myndi ekki bjargað með l. og reglugerðum. Það er satt. Veruleikinn sjálfur, verkin rétt framkvæmd, er bjargvættur landbúnaðarins, en um landbúnaðinn er það sem annað, að bezt er að hafa sem fullkomnastar reglur og l. að fara eftir. Og eitt af því, sem nauðsynlegt er að hafa sem beztar reglur um, eru hin kostnaðarsömu mannvirki hér á landi. Er nauðsyn á samfelldri löggjöf, ekki aðeins um þær áveitur, sem þegar eru til, heldur líka um þær, sem seinna koma.

Hv. þm. spurði, hvort ekki hefði verið neitt eftirlit með áveitunum. Jú, það hefir verið, en í molum, og hefir þessu eftirliti verið allmjög ábótavant. Það hefir ekki verið eftirlitsmönnunum að kenna, því það hafa verið samvizkusamir og góðir menn, heldur einmitt hinu, að rétta lagasetningu og reglur hefir vantað til að fara eftir.