21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

2. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi nú ekki haft nenningu til að fara í lúsaleit um þetta frv. Hefði það þó orðið nóg verkefni, því mér sýnist ekki ætla að duga sú tvöfalda kláðaböðun, sem það fær hér í d„ en hv. Ed. tekur það nú vafalaust til frekari athugunar og lækninga.

Það eru aðallega þrjú atriði, sem ég og hv. meðflm. mínir tökum til athugunar á þskj. 86. Fyrst það, sem hv. 2. þm. N.-M. hefir nú flutt svipaða brtt. um, að takmarka nokkuð það vald, sem miðstjórnum flokkanna er veitt samkv. frv. um framboð í kjördæmum úti um land. Það hefir verið talsverð togstreita milli flokka og einstakra manna um fyrirkomulagið á þessum hlutum. Sósíalistar berjast fyrir því, að sem mest vald sé lagt í hendur flokksstjórnanna í þessu efni. Þeir vilja koma á landskjöri og hlutfallskosningu um allt land, en það er vitanlegt, að með því fyrirkomulagi yrði ákvörðunarvald flokksstjórna um framboð svo róttækt, að áhrifa utan af landi mundi ekki gæta. Nú tókst ekki að koma þessu fyrirkomulagi á með stjskrbreyt., og hefir þá þótt sjálfsagt að reyna að koma valdinu yfir framboðum sem mest í hendur flokksstjórnunum með ákvæðum kosningalaganna. Þessu erum við flm. brtt. á þskj. 86 algerlega mótfallnir. Er það eðlileg afleiðing af því, að frá mínu sjónarmiði er það sjálfsögð skylda Alþingis að taka ekki af sveitunum það kvörðunarvald um fulltrúaval, sem þær ávallt hafa haft. Í stað þess, að frambjóðandi þurfi að leggja fram viðurkenningu miðstjórna um fylgi þess flokks, sem hann telur sig til, viljum við láta nægja yfirlýsingu meðmælenda hvers frambjóðanda um, að þeir mæli með honum sem frambjóðanda þess flokks, sem hann býður sig fram fyrir. Ég þykist ekki þurfa að fjölyrða um þetta; hv. 2. þm. N-M. hefir skýrt það frá sínu sjónarmiði, og skoðanir okkar falla nokkuð saman um þetta efni.

Annað atriðið í till. okkar er um skipun landslistanna. Þar gætir einnig í frv. áhrifa þeirra manna, sem flytja vilja sem mest ákvörðunarvald á þessu sviði í hendur miðstjórna flokkanna. Eftir till. okkar á eingöngu að taka þá menn í uppbótarsæti, sem hafa verið í kjöri í kjördæmi og fengið annaðhvort hlutfallslega mikið fylgi eða mikið atkvæðamagn, án tillits til hlutfallsins við þann, sem náð hefir kosningu. Að vísu er komið inn í frv. ákvæði um það, að þegar flokkur hefir alla frambjóðendur sína í kjördæmum á landslista eða hefir engan lista, þá skuli fyrst koma í röðinni við úthlutun uppbótarsæta sá frambjóðandi, sem flest atkv. fær án þess að ná kosningu, og við 2. umr. var svo bætt við, að næst skyldi koma sá, er flest atkv. fær hlutfallslega, og svo koll af kolli. Nú sé ég, að einhverjir úr stjskrn. vilja hlaupa frá þessu aftur og flytja brtt. þess efnis. En aðalatriðið í okkar till. er það, að frambjóðendur flokka í kjördæmum skuli vera á landslistum flokkanna og einir koma til greina við úthlutun uppbótarsætanna. Við höfum þó sett hér þann varnagla, að frambjóðendur geti afsalað sér þeim rétti að eiga sæti á landslista flokks síns, ef hann tilkynnir það jafnframt framboði sínu. Það getur komið fyrir, að einhver frambjóðandi kæri sig ekki um að vera á landslista, og er þá rétt, að hann geti sjálfur tekið ákvörðun um það.

Ég þykist ekki þurfa að halda langa ræðu um þetta efni. Það var talsvert ágreiningsefni í fyrra, þegar stjskr. var afgr., og þá svo mikið rætt, að ég tel ekki þurfa meiri umr. um það að svo stöddu frá minni hálfu.

Þá er þriðja atriðið í frv., sem við viljum gera nokkra leiðréttingu á. Er þar raunar um allstórvægilega breyt. að ræða, sem snertir ákvæði 117. gr. Nú hefir hv. stjskrn. fengið vitneskju um, að við ætluðum að flytja brtt. um þetta efni, og þotið í að taka svipaða till. upp í brtt. sínar á þskj. 87. Ég verð að segja, að ég varð dálítið hissa, að þessi ákvæði skyldu nokkurn tíma komast inn í frv., ekki sízt fyrir það, að hv. 1. þm. S.-M. átti sæti í n., sem samdi það. Ég hafði fengið þá hugmynd um hv. 1. þm. S.-M., að hann væri mjög andvígur hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Um það atriði var mikið deilt á síðasta þingi, og hlaut ég m. a. ámæli úr ýmsum áttum fyrir það, að ég taldi ekki frágangssök að fara þá leið, ef með því fengist sú breyt., að uppbótarsætin yrðu til muna færri. Aftur er ég algerlega mótfallinn því, að ofan á þau 11 uppbótarsæti, sem nú hafa verið ákveðin, sé bætt hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum. Og ákvæði 117. gr. eins og þau eru nú í frv. geta verkað alveg á sama hátt og hlutfallskosning í tvímenningskjördæmunum. Miðað við atkvæðatölur síðustu kosninga hefði eftir þeim reglum verið leikur einn fyrir framsóknarmenn í Skagafirði að fá annan sinn frambjóðanda kosinn sem 1. þm. Skagf., og eins hefði verið hægðarleikur fyrir Sjálfstfl. að koma öðrum sínum frambjóðanda að í Eyjafjarðarsýslu. Sömuleiðis hefði frambjóðandi Sjálfstfl. í Suður-Múlasýslu með glans komizt að sem 1. þm. S.-M. og frambjóðandi Frams.-fl. í Rangárvallasýslu sem 1. þm. Rang. Svona er nú frágangurinn á frv. Ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. S.-M. og meðnm. hans hafa haft í hyggju, þegar þeir lögðu þetta fyrir þingið. Er hv. þm. að svíkjast aftan að kjósendunum með þessu? Þorir hann ekki að kannast opinberlega við það, að hann hafi skipt um skoðun í þessu efni, og ætlar svo að lauma þessum reglum inn í frv. án þess opinberlega komi fram, að þær eigi upp að taka? Það, sem mest er áberandi og bendir á, að hv. nm. finni til sakar, er það, að þegar n. verður vör við, að bera á fram brtt. og eyðileggja þetta fyrir henni, þá rýkur hún til og flytur sjálf brtt., til þess að þvo hendur sínar og geta sagt: um leið og við sáum, hvað af þessu getur leitt, þótti okkur sjálfsagt að laga það. Ég get varla hugsað mér, þó ýmislegt bendi til, að ekki hafi verið lagzt mjög djúpt við samningu frv., að hér sé um óviljaverk að ræða; það bæri vott um svo mikið flaustursverk, að ég veit ekki, hvað ætti að halda um þá menn, sem að því hafa starfað. Hitt get ég sagt, að mér finnst þetta sniðug undanbrögð til þess að koma vilja sínum fram, ef það hefir verið gert af ásettu ráði, sem ég verð að álíta. En það er aukaatriði, úr því hv. nm. hafa ekki séð sér fært að koma þessu í gegn og berjast opinberlega fyrir því, heldur hlaupa frá öllu saman með því að flytja brtt. sjálfir í sömu átt og við. Ég get lýst því yfir, að ég er ekki svo kappsfullur, að ég vilji endilega, að okkar till. verði samþ. Ég get alveg eins fellt mig við brtt. n. og tek því okkar brtt. aftur og greiði atkv. með till. n.

Þetta eru þá þau atriði, sem felast í brtt. okkar á þskj. 86. Ég hirði ekki um að fara út í hverja einstaka af brtt., sem eru sjö talsins og miða allar að því að koma á þeim leiðréttingum, sem ég hefi hér nefnt. Ég skal aðeins geta um smávægilega breyt. við 142. gr., þar sem stjórnmálafélögum, er gera ályktanir um framboð, er leyft að koma þeim á framfæri. Við viljum, að þetta sé miðað við áskoranir til framboðs aðeins í því kjördæmi, sem félagið starfar í. Þetta er í samræmi við þá skoðun okkar, að hvert hérað eigi að ráða sjálft sínum frambjóðendum og ekki að vera að vasast í þeim hlutum fyrir önnur héruð.

Ég vil svo ekki tefja tímann meira og læt þetta nægja sem meðmæli með brtt. okkar. Ég vona, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. þær, því þær miða allar að því að tryggja rétt hinna einstöku héraða úti um landið, og að því hafa flestir talið sig vilja styðja, þó sú viðleitni hafi á ýmsan hátt verið túlkuð.