29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (1388)

57. mál, varalögregla

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það gladdi mig að heyra hæstv. dómsmrh. segja, að varalögreglan myndi verða lögð niður með öllu um nýár og kvaðir af henni á ríkissjóði falla niður eftir þann tíma. En ég skil ekki í, hvers vegna ekki mátti gera þetta fyrr, þar sem þessir menn voru aldrei ráðnir sem fastir starfsmenn. Það er áreiðanlegt, að þeir hafa fengið miklu meira fé en þá óraði fyrir, og það fyrir ekkert verk. Og það er alveg einsdæmi að launa tímunum saman yfir hundrað starfsmenn, sem ekkert gera, af opinberu fe. Ég er ekki heldur ánægður með þau orð ráðh., að varalögreglan muni verða lögð niður um áramót, „að mestu kvaðalaust“ fyrir ríkissjóð. Hvaða „kvaðir“ eiga þá enn að vera eftir fyrir ríkissjóð? Kannske eftirlaun!

Hæstv. ráðh. segjr, að með lögunum um lögreglumenn, sem samþ. voru á þjnginu í fyrra, hafi verið gerð þegjandi samþykkt fyrir því, að varalögreglan héldi áfram. En ég tel, að þegar eftir samþykkt þeirra laga hafi átt að leggja varalögregluna niður. Hún studdist ekki við nein lög í upphafi, en eftir samþykkt þeirra laga hefir hún hreint og beint starfað á móti lögunum. Þennan tíma hefir alls ekki „sérstaklega staðið á“, en það var meining laganna, að þótt hægt væri að grípa til varalögreglu, skyldi það ekki gert að öðrum kosti. Ég minnist ekki neinnar till. eða ákvæða um það, að varalögreglan ætti að starfa afram þangað til þúið væri að fjölga föstu lögreglunni hér í Rvík.

Viðvíkjandi því, að kostnaðurinn við varalögregluna stafi af því, að mönnunum hafi verið bægt frá vinnu, er það að segja, að slíkt er hrein blekking, því ekki nema örfáir (10–20) þeirra manna, er í liðinu hafa verið, hafa stundað þá almennu vinnu, sem verkalýðsfélögin skipta sér af. Ég verð því að álíta, að það fé, sem varið hefir verið til varalögreglunnar, sérstaklega eftir að lögin um lögreglumenn voru samþ., hafi verið greitt utan við lögin, og ráðherrann ætti að endurgreiða ríkissjóði það persónulega.

Hæstv. dómsmrh. fór lítið út í það, hvenær mætti stofna varalögreglu hér í bænum. Íhaldið í bæjarstjórn hefir samþ. að stofna hér 100 manna varalögreglu. En frumkvæðið á að koma frá ráðh., en ekki frá bæjarstjórn, og auk þess stendur ekki sérstaklega á, eins og sagt er í lögunum, og í þriðja lagi eiga að vera 2 fastir lögregluþjónar á hvert þús. íbúa, áður en varalögreglan er stofnuð, en því ákvæði er ekki fullnægt, þótt lögregluþjónarnir væru 48. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort hann ætli að stofna til varalögreglu á grundvelli samþykktar meiri hl. bæjarstjórnar.

Ég vil mótmæla því, að nokkur þörf hafi verið fyrir varalögreglu 9. nóv. í ár. Ég sá að vísu ekki ryskingarnar í Aðalstræti, en mér hefir verið sagt, að þær hafi ekki verið meiri en svo, að hin fasta lögregla hefði vel getað ráðið við þær, enda hafi ekki fleirum verið boðið út. Ég veit ekki til, að símað hafi verið eftir neinni lögreglu frá Iðnó, a. m. k. hefir enginn af forstöðumönnum skemmtunarinnar gert það, enda var engin hætta þar á óskunda. (Dómsmrh.: Hversvegna ekki?). Af því að þar var fyrir nægilega margt vígra manna. Ég skal svo ekki orðlengja meira um þennan lið till., þar sem orð dómsmrh. eru fyrir því, að varalögreglan verði lögð niður um nýárið.

Þá er síðari liðurinn. Við erum þeirrar skoðunar, að varalögreglu sé ekki meiri þörf nú en áður síðan íslendingar tóku við stjórn sinna eigin mála og engir veðurboðar um, að svo muni verða. En hinsvegar má búast við því, að þar, sem sjálfstæðismenn eru í meiri hl. í bæjarstjórn, heimti þeir varalögreglu eins og hér, og valdi þannig ríkissjóði kostnaði. Auk þess mun varalögregla ávallt vekja mikla tortryggni hér á landi, þar sem varla myndi ástæða til að beita henni nema í stéttabaráttu. Upphlaup kommúnista og nazista býst ég ekki við, að verði svo alvarleg, að fasta lögreglan ráði ekki við þau.