07.12.1933
Sameinað þing: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (1449)

57. mál, varalögregla

Finnur Jónsson:

Það hefir verið talað um, að við værum að tefja þingið með þessari till. Það er þess vegna ekki ófróðlegt að athuga, hvernig umr. hafa skipzt. Í þessu máli hafa verið fluttar af hálfu okkar alþýðuflokksmanna 6 ræður og ein athugasemd, en af hálfu íhaldsmanna um 20 ræður og flestar langar. Ef nokkrir eru hér með málþóf, eru það því íhaldsmenn sjálfir.

Það er líka á allra vitorði, að það er ekki þetta mál, sem tefur þingið, heldur sjálft aðalmálið, kosningalagafrv. Og það tefur þingið vegna þess, að fulltrúar tveggja stærstu flokkanna hafa ekki fylgi hjá sínum eigin flokkum. Þótt samkomulag hafi orðið í nefndum, hafa flokkarnir riðlazt á þingfundum.

Sjálfstæðismenn hafa verið með varalögregluna á dagskrá síðan 1925, hvort sem þeir hétu nú þá heimastjórnarmenn eða eitthvað annað. Síðan hafa þeir ávallt verið að stagast á varalögreglu. En öll þessi ár, síðan Jón Magnússon kom með herskyldufrv. sitt, hefir aldrei komið fram nein þörf fyrir varalögreglu hér á landi. Og þessi reynsla styður þá skoðun okkar, að enn sé engin þörf fyrir varalögreglu.

Sjálfstæðismenn tala mikið um sparnað. Það er rétt, að sjálfsagt er að spara ónauðsynleg útgjöld. En fyrst og fremst á að spara þau útgjöld, sem miða að því að stofna til ófriðar í landinu, eins og kostnaðurinn við varalögregluna hlýtur að gera. Nú hefir verið varið til varalögreglunnar hátt á 4. hundr. þús. króna, eða 100 þús. kr. meira en til atvinnubóta á sama tíma. Er hægt að hugsa sér hraklegri ráðstöfun en þá, að verja meira fé til þess að halda hungruðum mönnum í skefjum frá því að krefjast brauðs og vinnu heldur en til þess að veita þeim þetta hvorttveggja?

Einhver úr hópi sjálfstæðismanna var að býsnast yfir því, að útlit væri fyrir, að gera ætti varalögregluna að arlegu umtalsefni hér á Alþingi. Ég vil segja honum það, að ég vona, að svo verði gert meðan Alþfl. á nokkurn fulltrúa á þingi og varalögregla íhaldsins er notuð til að berja á hungruðum mönnum. Svo mikið alvörumál er það, að greiða 100 þús. krónum meira til varalögreglu en til atvinnubóta.

Því hefir verið haldið fram, að fasta lögreglan í Reykjavík væri ekki nægileg. En í fyrra, fyrstu dagana eftir 9. nóv., þegar hugir manna voru þó vitanlega í nokkurri æsingu og mikill hluti lögreglunnar lá í lamasessi, bar þó ekki á hinum minnstu óspektum. Þetta sýnir, að lögreglan í Reykjavík er nægileg og engin þörf á varalögreglu. Atburðirnar 9. nóv. spruttu af svo einstæðum orsökum, að þeir út af fyrir sig réttlæta ekki að setja á stofn herlið í landinu.

Við jafnaðarmenn erum andvígir ofbeldi. En hvarvetna þar, sem ranglæti er sett í öndvegi, verður því rutt burt með ofbeldi, ef því verður ekki um þokað á annað hátt.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði um afstöðu bænda gagnvart ranglætinu. Ég vil minna hann á það, að eitt sinn er erlendur kúgari óð hér uppi með ofbeldi og yfirgangi við alþýðuna, voru það íslenzkir bændur, sem tóku sig saman, létu ofbeldismanninn í poka og drekktu honum í Brúará. Og ég vildi óska, að alþýða þessa lands sýndi ranglætinu aldrei það langlundargeð, að hún tæki því með þolinmæði, að hungraðir menn væru kúgaðir og sveltir með hervaldi. En réttindi þessara manna eru ef til vill ekki á mannréttindaskrá hv. þm. A.-Húnv. Engin lögregla getur haldið ranglætinu í hásæti til lengdar, meðan nokkur manndáð er til í Íslendingum.

Það hefir nú fengizt viðurkenning fyrir því frá hv. þm. V.-Sk., að kommúnistahættan sé lítil hér á landi. Verður af þessu augljóst, sem reyndar var vitað og viðurkennt aður, að lögreglan er stofnuð í öðrum tilgangi. Hún er stofnuð, eins og hv. þm. V.-Sk. játaði, gegn Alþfl. og alþýðusamtökunum. Annars var ræða hv. þm. V.-Sk. ein samanbangandi keðja af rangfærslum og rökvillum frá upphafi til enda. Fyrst og fremst reyndi hann að sýna fram a, að varalögreglunni þyrfti að beita gegn Alþfl. En jafnframt sagði hann, að alþýðuflokksmenn hefðu reynzt svo löghlýðnir, að þeir hefðu ekki fengizt til að ganga í varnar- eða árasarlið Alþfl. Eða m. ö. o. að alþýðan væri svo friðsöm, að hún vildi ekki verja sig. En þó á að beita varalögreglunni gegn henni.

Hv. þm. talaði um, að við alþýðuflokksmenn værum þrungnir af ótta við varalögreglu. Við erum ekki hræddir við hana að öðru leyti en því, að við erum hræddir við, að hún verði til að stofna til borgarastyrjaldar í landinu. En við munum sýna það, ef á þarf að halda, að við erum hvergi smeykir, þótt hv. þm. V.-Sk. segi, að alþýðan vilji ekki verja sig. Það, sem ásamt öðru sýnir, hvernig beita á lögreglunni hérna í bænum, er, að hér eru lögregluþjónar í hina föstu lögreglu skipaðir eftir stjórnmálaskoðunum, jafnvel þótt sumir þeirra hafi staðið nálægt fangelsi sjálfir eða meira að segja verið dæmdir.

Ég vil víkja litið eitt að hv. þm. A.-Húnv. aftur. Ég er hræddur um, að hann hafi með ræðu sinni komið tveim flokksmönnum sínum í slæman bobba. Hann spurði, hvort það myndi vera satt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það hefði verið að undirlagi lögreglustjóra, að óeirðirnar urðu hér 9. nóv., og beindi því til stj., að hún léti lögreglustjóra hreinsa sig af þessum áburði eða sæta ábyrgð ella. En því kvaðst hann beina máli sínu til stj., en ekki dómsmrh. eins, að þar sem stjórnin væri samsteypustjórn, yrði dómsmrh. annaðhvort að beygja sig eða fara úr stj., ef ráðherrana greindi á um stórvægileg atriði. Hér er því ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort er hv. 1. þm. Reykv. ósvífinn ósannindamaður eða þá að hæstv. núv. dómsmrh. hefir hylmað yfir eitt hið stórfelldasta embættisafbrot, sem sögur fara af hér á landi, til þess að hanga í stjórninni. Hv. þm. A.-Húnv. hefir þannig gert eitt af tvennu: annaðhvort er hv. 1. þm. Reykv. yfirlýstur opinber ósannindamaður eða hæstv. dómsmrh. hefir gert sig sekan um að hylma yfir stórkostlegt afbrot. Hann talaði um það, hv. þm., að það sé sitt áhugamál og stefnumál Sjálfstfl., að öllum íbúum landsins geti liðið vel. Þetta er fallega sagt. En hvers vegna byrjaði þá hv. þm. starfsemi sína á þeim endanum, sem hann hefir nú gert? Hvers vegna gengur hann þá í lið með hálaunamönnunum í landinu til þess að viðhalda þeirra valdi yfir atvinnutækjunum? Hvers vegna gengur hann í lið með mönnunum, sem stofna til varalögreglu til þess að halda hungruðum lýð í skefjum?

Þá skal ég lítilsháttar koma að ræðu hv. þm. Snæf. Hann vildi bera brigður á, að meiri hl. þjóðarinnar væri á móti ríkislögreglu, og vitnaði til atkvæðatalna frá síðustu kosningum. Nú er vitað, að það hefir aldrei verið kosið um ríkislögreglumálið eitt saman. Það nær því ekki nokkurri átt, að í þessu sé falin nein sönnun. Hitt vita allir, að gegn engu máli, sem afgr. hefir verið frá Alþ., hafa komið jafnalmenn mótmæli og því, og ég veit fyrir mitt leyti, að ég hefi á engum fundum verið, þar sem jafnalmenn atkvgr. hefir orðið á móti nokkru máli og ríkislögreglunni. Af þvi vil ég ráða, að það sé í rauninni alveg rétt hjá hv. þm. Seyðf., að meiri hl. þjóðarinnar sé á móti því máli, enda geta þeir ekki ímyndað sér annað, sem hafa það álit á þjóðinni, að hún kunni að hugsa rökrétt, þar sem sýnt er, að ríkislögreglan er óþörf og til þess stofnsett að reyna að berja niður réttmætar kröfur verkalýðsins í landinu. Hv. þm. Snæf. sagði, að liðsafnaður ungra sjálfstæðismanna væri einskonar óþróttafélag. Hvers vegna æfir það sig þá ekki á íþróttavellinum eða í íþróttahúsum bæjarins eins og önnur slík félög? (TT: Það gerir það). Það æfir sig í Kveldúlfsportinu. Hann sagði ennfremur, að við alþýðuflokksmenn værum með ótta við lögreglu. Með þessu gaf hann í skyn, að þetta ætti að verða lögregla til þess að slá skjaldborg um það ranglæti, sem íhaldið kynni að skapa hér í bænum. Þessi liðsveit — fánalið Heimdallar — er stofnuð í samkeppni við fánalið nazista hér í bænum. Þegar nokkrir óánægðir sjálfstæðismenn stofnuðu hér nazistadeild á síðastl. vori og einskonar baráttulið, þá vildu Heimdellingar ekki verða minni og stofnuðu til baráttuliðs. Þetta er m. ö. o. samskonar baráttudeild og Pitlers og Gitlers og hvað þeir nú heita nazistarnir. Þetta hefi ég eftir manni, sem er nákunnugur í herbúðum íhaldsins. Til Ísafjarðar komu í vor tveir nazistar. Lögðu þeir sérstaka áherzlu á að stofna barnadeild, en þeim varð ekki sérlega vel til fanga. En til þess að hæna börnin að sér fóru nazistarnir með þau — átta til tíu ára gamla krakka — upp í hlíð í góða veðrinu og höfðu með sér sítronvatn. Það var heitt í veðri og börnunum hefir sjálfsagt þótt sítronvatnið gott. (PO: Það er nú drykkur við okkar hæfi, Finnur minn). En ég held, að kenningarnar, sem átti að innræta börnunum, hafi verið við hvorugs okkar hæfi, mitt eða hv. þm. Borgf., því að börnin voru að reyna að setja saman vísu þarna í góða veðrinu, sem innibindi aðalkenningar nazistanna. Hún er ekki mikill skáldskapur, en hún sýnir, að börnunum hafa þótt kenningarnar allundarlegar, og hljóðar hún þannig:

„Þú átt að kunna að berja,

þú átt að kunna að slá,

þú átt að kunna að herja,

þú átt að kunna að flá“.

Ef þær kenningar, sem fánalið Heimdallar eru innrættar, eru sama eðlis og þessar kenningar, þá vil ég segja það, að ég get skilið, að hv. þm. Snæf. kalli það „einskonar“ íþróttafélag og minnist á þetta sem „einskonar“ lögreglu. En það er líklega lögregla, sem á að vera við því búin að berja og slá andstæðinga sína, að maður ekki tali nú um, ef það á að fara að fla þá. Hann talaði nokkuð um það, hv. þm. Snæf., að það hefði verið spurt um, hvaða umbótum Sjálfstfl. vildi koma fram. Mín reynsla er sú, að Sjálfstfl. standi yfirleitt á móti umbótum. Og reynsla Alþfl. hér í þinginu hefir verið sú, að þegar alþfl.menn hafa komið fram með einhver umbótamál, hafa sjálfst.menn venjulega verið á móti þeim svo lengi sem þeir hafa þorað og séð sér fært. Hann vildi sérstaklega, hv. þm. Snæf., eigna okkur alþfl.mönnum síldareinkasöluna, stjórnina á henni og hvernig hún fór. Ég skal ekki fara langt út í það mál, en ég vil einungis segja það, að það ár, sem einkasalan fór verst, voru þeir í meiri hl. í stjórn hennar sjálfstæðis- og framsóknarmenn, og jafnaðarmenn höfðu þar ekkert að segja. En þegar búið var að ákveða þá skipulagsbreytingu á stjórn einkasölunnar, að Alþfl. gat haft þar meiri hl., þá tóku þessir flokkar sig til og lögðu einkasöluna niður. Reynsla síldareinkasölunnar seinasta árið var hörmuleg, en reynsla tveggja síðustu áranna í síldarsölunni hefir nú verið svo, að saltendur horfa með stórum kvíða fram á komandi sumar og þeim kemur saman um, að hefði síldin ekki horfið af miðunum um 12. ágúst, þá hefði farið þannig, að saltendur hefðu sennilega orðið ennþá verr úti heldur en síðasta ár einkasölunnar. Og þeir fyrirframsamningar, sem gerðir hafa verið um sölu á síld síðan einkasalan var lögð niður, hafa verið um 50% lægri en síðustu samningar síldareinkasölunnar. Ég býst því við, að ef ekki rétt eftir að þessu þingi slítur, þá a. m. k. mjög bráðlega, komi síldarsaltendur og síldarútvegsmenn og biðji ríkisstj. einhverrar aðstoðar í því að koma einhverju skipulagi á síldarsöluna. — Nú hefi ég sýnt fram á, að jafnaðarmenn áttu ekki meiri hl. í stjórn síldareinkasölunnar, og að hún var ekki á þeirra ábyrgð.

Hv. þm. Snæf. minntist á, að við jafnaðarmenn hefðum hjálpað Framsókn til þess að eyða umfram fjárhagsáætlun 14 –16 millj. kr. Nú mega hv. þm. taka eftir þeim orðum, að eyða „umfram fjárhagsáætlun“. Ég veit ekki, á hve löngum tíma þetta hefir farið fram eða hvort þessar tölur eru réttar, en í orðum þm. sjálfs felst afsönnun á þessari sök. Við höfum hjálpað framsóknarmönnum til þess að samþ. fjárlög, og það, sem eytt er umfram þau, er á ábyrgð ríkisstj., en ekki þeirra, sem fjárl. samþykktu.

Hv. þm. spurði okkur jafnaðarmenn, hvort við gættum að því, hvort atvinnureksturinn þyldi hað kaupgjald, sem við heimtuðum með okkar samtökum verkalýðnum til handa. Nú vil ég spyrja hann, þegar hann er að athuga, hvað sá atvinnurekstur þolir, sem hann er nákominn, hvort hann þoli í öllum árum þau háu framkvæmdarstjóralaun, sem hann greiðir. Og þegar hann hefir svarað því og borið saman framkv.stjóralaunin og laun verkamannsins og sjómannastéttarinnar, sem við erum að hjálpa til að ná nokkru réttlæti í þessum málum, skal ég svara hans fyrirspurn. Hann vildi segja, að síldareinkasalan væri sá stærsti sigur, sem við alþfl.menn hefðum unnið hér á Alþ. Þetta er ekki rétt. Við höfum unnið hér ýmsa stórsigra, tiltölulega lítill flokkur. Við höfum t. d. unnið þann sigur, að dánarbætur sjómanna hafa verið hækkaðar úr 400 kr., sem þær voru í fyrir nokkrum árum og borguðust þá með 100 kr. á ári í 4 ár, í 4000 kr. fyrir okkar atbeina, og almennar slysatryggingar verkafólks og sjómanna hafa verið lögleiddar. Þetta er einn af okkar stóru sigrum, og ég álit, að þótt einkasala á síld hafi á sínum tíma komizt í gegnum þingið, þá hafi þau lög verið smávægileg samanborið við lögin um verkamannabústaði og ýms fleiri. En stærsti sigur jafnaðarmanna er þó sá, að vera búnir að fá íhaldsflokkinn með okkur til þess að vinna að mannréttindamálum. íhaldsflokkurinn, sem stóð á móti 21 árs kosningarrétti, sem stóð á móti því, að þurfalingar nytu kosningarréttar, á móti breyttri kjördæmaskipun og stjórnarskrárbreytingu, sem gerði þetta mögulegt, hann er nú farinn að vinna að þessum málum. Þetta er stærsti sigurinn, sem Alþfl. hefir unnið á Alþ. og meðal þjóðarinnar. — Hv. þm. Snæf. ætti því að tala hér með sanngirni um okkar sigra, þegar hann athugar, hvílíka geysisigra við höfum unnið á íhaldssamasta flokknum í landinu.

Svo að ég víki aftur að varalögreglunni, þá er það eftirtektarvert, að svonefndar kommúnistaóeirðir hafa einungis orðið á tveim eða e. t. v. þrem stöðum á landinu. Þær hafa verið hér í Reykjavík, þar sem íhaldið er í meiri hl., þær hafa verið á Akureyri, þar sem íhaldið er stærsti flokkurinn, og þær hafa verið á Siglufirði, þar sem íhaldið er sömuleiðis allstór flokkur. Hinsvegar hafa aldrei orðið neinar óeirðir í Hafnarfirði eða á Ísafirði, þar sem jafnaðarmenn ráða. Hvernig stendur nú á þessu? Þannig, að kommúnisminn vex upp í sama jarðvegi og íhaldsstefnan. Það er alveg sama sagan úr Vestmannaeyjum. Það er alveg eins og þau séu systkin, íhaldið og kommúnisminn. Hv. þm. Snæf. var að lýsa því, að við hér, forvígismenn Alþfl., værum friðsemdarmenn, og það er rétt. Við erum það, ef ekki er leitað á okkur með ófriði. En nú hafa flokksmenn hv. þm., þar á meðal hv. þm. V.-Sk., lýst yfir því, að það væri núna verið að stofna hér varalögreglu til þess að halda í hemilinn á okkur, þessum friðsemdarmönnum. Sami þm. lýsti verkamönnum svo, að þeir væru svo friðsamir, að þeir vildu engan þátt taka í árásar- eða varnarliðssafnaði. Er það þá ætlun sjálfstæðismanna að leyfa okkur ekki alþýðuflokksmönnum að koma okkar málum fram með friði? Eru íhaldsmenn svo hræddir um, að við munum vinna þá til fylgis við okkar skoðanir á öllum sviðum, að þeir endilega þurfi að stofna til varalögreglu til þess að halda okkur í skefjum? Eru þeir svo hræddir við, að við fáum þá á næstu árum til að þjóðnýta atvinnufyrirtækin á sama hátt og við fengum þá til þess að gangast inn á þau mannréttindamál, sem nú er verið að afgr. frá Alþ., að þeir af þeim ástæðum, til að verja sjálfa sig, vilji stofna til varalögreglu? En nær liggur þó að ætla, að sú skoðun sé rétt, sem ég hefi haldið fram, að lögreglan sé einkum og sérstaklega ætluð til að halda niðri sanngjörnum kröfum alþýðunnar í landinu og hún eigi sérstaklega að vera til þess að halda í hemilinn á hungruðum mönnum, sem vantar brauð. En til þeirra hungruðu manna, sem vantar brauð, vil ég beina orðum, sem mér er sagt, að standi með stóru letri í fundarsal íhaldsins hér í bænum: „Þol eigi órétt“. Og hvernig svo sem fer um úrslit þessa máls á þessu þingi, þá vona ég, að það komi í ljós, að alþýða þessa lands hefir enn svo mikla mannslund, að hún þolir aldrei órétt.