21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

2. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. S.-M. lét þau orð falla hér í kvöld, að það væru samningar milli flokkanna um skipun þingsæta á landslistunum, og að þá samninga væri ekki hægt að rjúfa. Ég hefi þegar bent á, að það hefði verið viðurkennt af hæstv. dómsmrh., að slíkir samningar væru engir til. Þetta kom líka berlega fram á þinginu í fyrra. Í Ed. kom það ljóst fram í ræðu hjá núv. hv. 2. þm. Rang. Hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hið þriðja, sem um er deilt, er það, hvort allir frambjóðendur þess flokks, sem hefir landslista í kjöri, skuli teknir á hann eða því sé hagað eins og nú er ákveðið í frv. Mér finnst nú þetta ákvæði frv. hálfálappalegt og hefði helzt kosið að breyta því.

En um þetta gildir þó alveg sama og hitt. Þetta má auðvitað ákveða nánar í kosningalögum. Í frv. er ráðgert, að a. m. k. annaðhvert sæti 10 efstu manna á landslista skuli skipað frambjóðendum í kjördæmum utan Reykjavíkur. Það er því ekkert til fyrirstöðu, að í kosningalögum verði ákveðið, að svo og svo mörg efstu sætin séu skipuð frambjóðendum“.

Þessu var þá ekki mótmælt í Ed. af neinum. Og í umr. um þetta efni hér í Nd. sagði hv. þm. Str.:

„Um það atriði, sem hv. þm. V.-Húnv. kom inn á, er það að segja, að það er

ekki nema eitt af ákaflega mörgum atriðum, sem verður að setja löggjöf um á næsta þingi“.

Það var einmitt um þetta ákvæði, skipun landslista. Það er því fjarstæða, að ekki megi koma með till. um þessa skipun nú, enda er fjarstæða að hugsa sér, að samningar séu til um það, hvernig kosningalögin verði. Því að hvernig sem kosningalögin verða sett nú, er hvenær sem er hægt að breyta þeim með einföldum meiri hluta þingsins. En stjórnarskrárákvæðum er ekki hægt að breyta nema að bera það undir þjóðina. Þess vegna þótti mér rétt að fá þetta inn í stjskr., en ekki eins mikils virði af þessum ástæðum að fá það í kosningalögin, þótt bót sé í máli að koma þessu þar inn í því trausti, að ekki verði svo létt að koma því þaðan út aftur.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. N.-Ísf. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að í frv. væri ákveðin hlutfallskosning, og þessu vildi hann mótmæla. Hv. þm. hefir gert mér upp þessi orð, því að ég hefi aldrei sagt, að hlutfallskosning væri ákveðin í frv., heldur sagði ég, að þar væru ákvæði, sem gætu verkað eins og hlutfallskosning.

Þá vildi hann halda því fram, að þetta væri einhver reikningsskekkja í frv. Mér þykir hún nokkuð einkennileg, og mér sýnist hann ekki vel að sér í reikningi, ef hann heldur, að sé sama reikningsskekkja og ákveðin formúla um hlutfallalíkingar, sem hann mun eiga erfitt með að hrekja, að sé algild. Annars get ég þakkað hæstv. dómsmrh. fyrir það, hversu vel hann tók undir brtt. mínar, og úr því að búið er að viðurkenna þetta, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu frekar um þetta atriði. Það má vel vera, að hv. n. hafi yfirsézt í fleiru en þessu, sem ég sérstaklega rak augun í, því að henni hefir yfirsézt í svo mörgu, þó að undarlegt sé.

Þá vildi hv. 1. þm. S.-M. telja, að ég gengi nokkuð langt í brtt. mínum, þar sem af samþykkt þeirra gæti leitt það, að svo og svo mörg uppbótarþingsæti yrðu skipuð af miðstjórnum stjórnmálaflokkanna. Þetta er hreinasti misskilningur hjá hv. þm. Eins og frv. er nú, er beinlínis í því möguleiki fyrir miðstjórnir flokkanna að fá að ráða, hverjir þeir menn verða, sem taka uppbótarþingsætin, án þess að kjósendur fái nokkuð um það að segja, og ég hefi ekkert heyrt frá hv. n. um það, að hún vilji takmarka þetta frekar. Brtt. mínar ganga aftur í þá átt að skapa meira öryggi í þessu efni heldur en ef miðstjórnir flokkanna væru nær einráðar um það, hverja þær settu á landslista og hverjum þær úthlutuðu uppbótarþingsætum.

Ég býst nú við, að ég geti látið lokið þeim ágreiningi, sem orðið hefir á milli mín og hv. þm. N.-Ísf. En ég skal til frekari upplýsingar sýna honum nánari útreikninga um þetta ágreiningsatriði okkar, svo að hann verði ekki framvegis eins úti á þekju eins og hann virðist vera nú.