28.11.1933
Efri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (1482)

76. mál, blindir menn og afnot af útvarpi

Flm. (Magnús Jónsson):

Þessi till. er svo einföld, að grg. nægir til að átta sig á henni, þótt stutt sé. Allir vita. hve útvarp er mikils virði fyrir blinda menn. Það, sem aðrir fá með heyrn og sjón, verða þeir að fa með heyrninni einni saman. Blindir menn eru allra manna þaulsætnastir við útvarp og láta þar ekkert framhjá sér fara, og margt blint fólk lærir ótrúlega mikið af útvarpinu. En hér er sá ljóður á, að oft eru litlir möguleikar fyrir slíkt fólk til að eignast þetta tæki. Yfirleitt er þetta fátækt fólk, og þótt útvarpstæki séu ekki mjög dýr nú orðið, sérstaklega þau, sem ætluð eru fyrir stöðina í Reykjavík og notuð eru í nágrenni hennar, þá er verðið samt svo mikið, að þessir menn geta sjaldnast eignazt tækin, nema ef þeir eru svo heppnir, að einhverjir vinir þeirra gefi heim þau. En þá kemur til greina annar ljóður á þessu, sem sé, að gjöfinni fylgir nokkurskonar skattgjald, sem er afnotagjaldið. Síðan Blindravinafélagið fór að starfa, hefir þetta mál verið tekið upp, og hafa farið fram bréfaskipti milli stj. þess og stj. útvarpsins og viðtækjaverzlunarinnar. Hefir þá komið í ljós, að ekki er fært að sleppa þessum meinnum við afnotagjald án heimildar stj., þeirrar, sem farið er fram á með þessari þáltill.

Þá eru hinir, sem enga eiga að, er geti gefið þeim þessi tæki. Hefir stj. Blindravinafél. hugsað sér þá aðferð, að ríkisstj. léti í té nokkur tæki, sem lána mætti ókeypis. Býst ég ekki við að þurfa að tala mikið fyrir þessu. Veit ég, að ríkið getur hér gert góðverk sér að meinfangalitlu við þá, sem svo eiga erfitt sem blindir menn. Getur vart orðið ágreiningur um þetta mál. En þó ber þess að geta, an komið gæti til mála, að þessi hjálp yrði misnotuð. Er vafalaust til fólk, sem fengið gæti af sér að misnota þetta og spilla svo fyrir málinu. T. d. gæti fólk, sem þyrfti að fé sér útvarpstæki, ef blindur maður væri t. d. á heimilinu, látið skrifa hann fyrir tækinu. Þarf því að setja reglur um, að stj. Blindravinafél. beiti sér fyrir því, að þessi heimild yrði ekki misnotuð, þó ekki væri vegna annars en þess, að það gæti orðið til þess, að þeir yrðu líka sviptir þessari hjálp, sem ættu hana skilið.

Held ég, að rétt sé, að till. verði vísað til n., þótt einföld sé, og þá líklega allshn. Vil ég þá um leið biðja hv. n. að flýta sem mest fyrir henni. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á eitt atriði, sem stendur til bóta. Í 2. tölul. er talað um að lána blindum mönnum tæki eftir sérstökum reglum. Væri, held ég, rétt að gera 2. málsl. að sérstökum lið, er ætti við báða töluliðina.