06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (1554)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta mál var þannig borið fram í Ed., að raunverulega var eingöngu um að ræða endurveitingu á 100 þús. kr. framlagi, sem upphaflega hafði verið ákveðið að veita til sundhallarinnar. Meiri hl. n. þeirrar, sem um málið fjallaði í Ed., bar fram brtt. við þáltill., og er því í henni eins og hún nú er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til þessarar byggingar geti orðið töluvert hærra en áður var farið fram á, en þó í samræmi við það, sem ríkið leggur til samskonar framkvæmda annarsstaðar á landinu, en það eru 2/5 hlutar kostnaðarins. Fjvn. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt. Að vísu áleit hún, að menn teldu ef til vill æskilegra að afgr. hana eins og hún upphaflega var, en það er hinsvegar mjög hætt við, ef farið verður að breyta till. nú og setja hana í Sþ., þá verði hún ekki afgr. frá þinginu að þessu sinni.

Þar sem hér er um mjög mikið menningar- og heilbrigðismál að ræða fyrir fjölmennasta stað landsins, þá lítur n. svo á, að ekki beri að horfa í það, þó að um nokkuð hærra framlag sé að ræða til þess að hrinda verkinu í framkvæmd en upphaflega var ákveðið.

Það er blátt áfram óviðeigandi að láta slíkt nauðsynjamál sem þetta stranda á smáagnúum milli ríkisstj. annarsvegar og bæjarstj. hinsvegar.

Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta, en ætla að bæta því við, aðeins til gamans, að ég hefi sjálfur haft tækifæri til að sjá það á mínum eigin börnum, hve holl og góð áhrif það hafði á heilsu þeirra að stunda þessa íþrótt. Með því að hrinda þessu máli í framkvæmd má álita, að stærra spor sé stigið í menningarmálum þessa bæjar en ef til vill hefir lengi verið stigið.

Eins og áður er sagt leggur n. eindregið til, að till. verði samþ. Að vísu voru tveir nm. fjarstaddir, þegar nál. var skrifað, en um annan þeirra veit ég, að hann er málinu meðmæltur, en hinn er mér ókunnugt um.