06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (1581)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Pálmason:

Ég get tel skilið það, að hæstv. fjmrh. þyki ekki horfa vel með allar þær kröfur, sem samþ. eru á ríkissjóðinn nú. Hann nefndi hér til þrjár fjárveitingar, sem mér virtist hann telja sambærilegar, þessar 100 til 200 hús. kr. til sundhallarinnar, 150 þús. kr. til góðtemplara og 50 þús. kr. til hafnarinnar á Skagaströnd. Hér er gersamlega ólíku saman að jafna, því þessar 50 þús. kr. til Skagastrandarhafnar eru ætlaðar til þess að styrkja grundvöll íslenzkrar framleiðslu, styrkja það, að atvinnuskilyrði þessa lands geti batnað, en hitt stefnir hvorugt í þá att. Nú er það svo, að árið 1932 fjölgaði þjóðinni um rúmlega 1700 manns, og það er alls ekki sama, hvað verður af því fólki, sem árlega bætist við í þessu landi. Mér skilst, að höfuðborg okkar sé orðin nógu mannmörg fyrir þann atvinnurekstur, sem þar er. Þess vegna má frá mínu sjónarmiði allra sízt spara þau framlög, hvað sem um nauðsyn annara hluta er hægt að segja, sem stefna að því að tryggja atvinnurekstur í landinu. Um fjárveitingar, sem ganga í aðra átt, er allt öðru máli að gegna. Ég skal játa, að þó lagðar væru 200 þús. kr. til sundhallar hér í Rvík, þá er það hátíðlegt hjá því að kasta 150 þús. kr. til góðtemplara til samkomuhúsbyggingar eins og nú standa sakir, því það tekur út yfir allt, sem samþ. hefir verið á þessu þingi, og ég get virt það við hæstv. flmrh., að hann greiddi atkv. gegn þeirri till.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að frá mínu sjónarmiði væri hér um einskonar fátækrastyrk að ræða til Rvíkurbæjar. Það var alls ekki meining mín, að svo væri. Ég viðurkenni, að hér er um menningarmál að ræða. En það eru svo ákaflega margar umbætur, sem við þurfum að gera, og Ég álít, að alltaf eigi að sitja í fyrirrúmi þær umbætur, sem treysta grundvöll framleiðslunnar, því hún virðist nú vera að sligast undir þeim byrðum, sem á hana hafa verið lagðar. Hefi ég svo ekki fleira um þetta að segja.