08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (1706)

80. mál, Eiðarskólinn

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég var ekki viðstaddur, þegar hv. frsm. mælti fyrir þessari till., en ég get gefið þær upplýsingar, að síðastl. sumar lét ráðuneytið fara fram bráðabirgðamælingu á því fallvatni, sem þarna kemur til álita. Samkv. þeirri athugun eru ekki líkur til, að vatnið veiti næga orku til framleiðslu rafmagns til ljósa, suðu, hitunar hússins og sundlaugarinnar. En sjálfsagt er að athuga þetta rækilegar. Ráðuneytið myndi líka geta látið fara fram áætlun um byggingu sundlaugar og leikfimihúss, en um 2. lið till. tek ég fram, að þar sem þess má vænta, að það lendi á annari stj. að undirbúa fjárlfrv. fyrir 1935, vil ég ekki gefa neina yfirlýsingu í því efni. Þá get ég og tekið það fram, að samkv. lauslegri áætlun, sem gerð hefir verið, mun þessi rafmagnsstöð kosta allmikið fé. Er gizkað á 60–70 þús. kr., og er það talsverður útgjaldaliður fyrir ríkissjóð. Verð ég því fremur að hafa allan fyrirvara á um það, hvort hægt muni að taka svo stóran lið inn í fjárlfrv. það, sem leggja á fyrir næsta þing. Vil ég því leggja til, að till. verði borin upp í tvennu lagi, þannig að seinni aðalliðurinn, sem ræðir um, hvað taka skuli upp í fjárlög ársins 1935, verði borinn upp sér.

Ég mun láta halda þessum undirbúningsrannsóknum áfram, en tel ekki nauðsyn á, að aukaþingið taki að sér verkefni næsta fjárlagaþings.