08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (1906)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Finnur Jónsson:

Ég vil taka undir það með hv. þm. Vestm., að mér finnst kostnaðurinn við störf skilanefndarinnar vera orðinn óhæfilega hár. Þó að rekstri síldareinkasölunnar væri að mörgu leyti ábótavant, þá held ég, að þó að leitað væri með logandi ljósi, fyndist hvergi rekstrarkostnaður hjá henni, sem kæmist í samjöfnuð við þann kostnað, sem leitt hefir af störfum skilanefndarinnar.

Það hlýtur að vera einhver sérstakur morali fyrir lögfræðinga, sem ekki gildir fyrir aðra, ef tveir félagar í sama lögfræðifirma geta með samningi sín á milli tekið að sér, án þess að vekja hneyksli, annar að verja, en hinn að sækja sama mál. Sú samlíking, sem hv. þm. Ak. kom með, að bræður gætu auðveldlega sótt og varið mál, kemur þessu alls ekki við. Hér er ekki verið að tala um skyldleika manna, heldur um sameiginlega hagsmuni tveggja manna, sem eru í sama firma. Eftir því sem hv. þm. Ak. segir, þá hefir Theodór Lindal fengið leyfi hjá Lárusi Fjeldsted til að sækja málin og Fjeldsted aftur leyfi Líndals til að verja þau. Mér virðist það sá aumasti skrípaleikur, sem hægt er að hugsa sér, sem þarna hefir átt sér stað.