30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (1982)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég áleit í öndverðri þessari umr., að ekki gerðist þörf á að mæla með brtt. minni og meðflm. minna frekar en ég og aðrir hv. þdm. höfðum gert við fyrri umr. þessa máls, með því að þá voru sett Ijóslega fram þau rök, sem að því hníga, að hana ætti að samþ. Þó þeim rökum hafi ekki verið hnekkt, þá hafa hinsvegar svo mörg orð fallið gegn brtt. nú við þessa umr., að mér þykir rétt að svara nokkru til. Að vísu vil ég ekki taka til greina orð hv. hm. G.-K. um það, að ábyrgð mín sem ræðumanns sé meiri en annara, er líkt hafa talað, en hitt undrar mig, að hann, svo kaldrýninn og skynsamur maður, skyldi verða svo hrifinn af minni ræðu, að hann virðist hafa gleymt að taka eftir, hver var framsetning mín og eðlileg niðurstaða í lóðarmálinu í samræmi við sögu þess frá byrjun.

Ég er nú á því, hvað sem líður styrkveitingum til reglunnar, að það gæti verið álitamál, hvort lóð þessi sé svo mikils virði, að ekki geti verið rétt að gefa hana nú, heldur en eiga á hættu að afgreiða málið á annan hátt, sem verr gegndi. Nú vil ég ekki ausa fé ríkissjóðs í góðtemplara, enda hefir hæstv. fjmrh. upplýst, að fé er ekki fyrir hendi til þess. Í annan stað vil ég sjá, hvernig templarar ætla að haga starfsemi sinni. En nú er fram komin till., sem felur í sér háan styrk til reglunnar, ef samþ. yrði, og þessari till. þarf að svara. (ÓTh: Má ég skjóta fram í?). Hann ætlar að segja, að það eigi að drepa till. Auðvitað greiði ég líka atkv. með því, en það á hinsvegar að láta góðtemplara fá þessa lóðarræmu. Því það kostar ekkert fé, og líka til þess að þetta mál fái sæmilega afgreiðslu í deildinni. Við, sem að vísu erum á móti aðaltill., verðum að svars málaleitun hv. þingbræðra okkar svo, að við fyrirgerum ekki með svarinu þeim möguleika, sem á því eru að fá sæmilega lausn á áfengismálinu, sem enn er óleyst, en svo mikils er vert um, að fái góða lausn.

Það hefir verið hér við umr. lesið upp bréf, sem á að sanna það, að þessi lóðarræma sé svo dýrmæt eign Alþingis að ekki komi til mála að hagga henni, en ég hefi rökstutt það, að svo er ekki. Það var í sjálfu sér gott, að Alþingi hefir fengið hæstaréttardóm fyrir eignarrétti sínum. En einmitt úr því svo er ástatt. Þá getur Alþingi með rausn, sem því væri samboðin, afhent þessa lóðarræmu, og ég og fleiri hv. þdm. álítum, að með því geti Alþingi með góðu móti sloppið við að veita templurum þann styrk, sem ríkissjóður hefir ekki fé til að greiða. Annars, ef hv. þdm. eru yfirleitt á móti þeirri lausn málsins, þá fella þeir náttúrþega brtt. okkar.

Ég óttast það ekki fyrir það hús, sem við sitjum hér í, þótt góðtemplarar byggj á þessarj lóð hér fyrir sunnan alþingishúsið. Eins og kunnugir vita, þá er aldrei litið út um þá glugga á þessu húsi, sem í þá átt snúa. Því er svo háttað hér inni í hjarta bæjarins, að hús rís við hús, og verður vart við því séð, hvernig byggt er á hinum einstöku lóðum. Og jafnvel þó reglan byggi stórhýsi á þessari lóð, þá er það ekki annað en það, sem Alþingi mundi sjálft gera, því ef Alþingi kaupir góðtemplaralóðina, þá væri fjarstæða að gera það til þess að ætla að hafa hana óbyggða. Og ég geri ráð fyrir því, að templarar byggðu svo, að ekki væri skömm að. Það gæti því verið álitamál, hvort það væri ekki betri kostur en sá, að láta einhverja prívatmenn fá lóðina til umráða, sem byggðu svo á henni hús, sem væri byggt með því eina markmiði, að hægt væri að leigja það út fyrir sem mesta peninga. Templarar mundu aftur á móti reisa þarna myndarlega byggingu.

Að lokum vil ég segja það, að ekki er rétt að berjast með neinu offorsi gegn reglunni í þessu máli, þótt hún hafi nokkuð trassazt við um afnám bannlaganna. Ég viðurkenni starf hennar fyrr og síðar, og það gera margir fleiri, þar á meðal hv. þm. G.-K., sem aldrei þreytist á því að lýsa aðdáun sinni á því, sem hún hefir fengið afrekað, og sér stórt verksvið fyrir hana í framtíðinni, eins og hann hefir látið í ljós. Ef farið er að tala um galla á starfsemi reglunnar í sambandi við þetta mál, þá er líka rétt að viðurkenna það, sem vel er gert. Ég er ekki svo hatursfullur í garð hennar, þó ég sjái, að henni mistekst um sumt, að en vilji ekki unna henni neins góðs, og ég vil heldur afhenda henni þessa litlu lóðarræmu fremur en lofa henni miklu fé til húsbygginga, fé, sem ekki er til. Annars var ég nú sannast að segja ekki ákafari í þessu máli en það, að ég hefði ekki tekið til máls við þessa umr., ef ekki hefði verið gefið sérstakt tilefni. Hinsvegar tel ég mig verða málinu að liði með því að gefa hv. þdm. kost á því að velja um þessar tvær leiðir, að gefa reglunni þessa lóðarræmu, sem Alþingi getur misst sér að meinalausu, eða að veita henni styrk, sem við erum ekki færir um að greiða.