06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur Jónsson:

Það er ekki rétt með farið hjá hv. þm. Snæf., að ég hafi nokkurn tíma fallizt á brtt. þeirra félaga í nefndinni. Hinsvegar gekk ég út frá því, að okkur hlyti að koma saman um stærðfræðilega rétta lausn málsins, og grunaði þá ekki um neina græsku fyrr en ég, eftir nána athugun, hafði rekið mig úr skugga um, hvert vélræði var fólgið í till. þeirra. Að þingsætið sé eitt, sem þeir hyggja á að taka frá Alþfl. með þessum hætti, gerir aðeins líkinguna um lamb fátæka mannsins enn betur við eigandi, því að lambið var aðeins eitt.

Það, sem hv. þm. sagði um samvinnuslit Alþfl. og Sjálfstfl. í stjskr.málinu. var ekki heldur rétt, því að ég tala ekki um þann hégóma, hver verður formaður eða skrifari í nefnd. En hitt er frekar hægt að kalla samvinnuslit, að sjálfstæðismenn gera samninga við andstæðinga stjórnarskrárinnar um kosningalögin. En heiður þeim, sem heiður ber, og ég get skýrt frá því, að ég hefi von og jafnvel vissu fyrir því, að andstæðingar stjórnarskrárbreytinganna, framsóknarmenn, muni verða réttlætisins megin í þessu máli og greiða atkv. á móti hinni svívirðilegu brtt. íhaldsmanna við 127. gr.

Viðvíkjandi þeirri skriflegu brtt., sem forseti var að lesa upp, verð ég að segja, að ég á erfitt með að sjá, á hvern hátt hún bætir úr fjarstæðum aðaltill., enda var hún illa skrifuð og illa upp lesin af hæstv. forseta. Ég get hugsað, að ýmsum fleirum en mér hafi veitzt erfitt að átta sig á henni.

Ég held, að réttast sé að fresta atkvgr. til morguns, til þess að mönnum gefist enn kostur á að athuga öll atriði málsins. Enn eru tveir, þrír dagar eftir af þingi, svo að nægur tími ætti að vera til að afgr. kosningalögin á þeim tíma, þótt atkvgr. sé frestað til næsta dags.