07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

2. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Sakir þess að mér fannst hv. þm. N.-Ísf. fara nokkuð óvandlega með heimildir Hagtíðindanna, þá vil ég segja örfá orð um þann ágreining, sem hér hefir orðið. Hv. þm. nefndi þær hlutfallstölur, sem flokkarnir hefðu fengið samkv. hinu nýja kosningalagafrv., miðað við síðustu kosningar. Hlutfallstölu Framsfl. taldi hann hafa orðið 568, og fær hann það út með því að deila 15, sem er þingmannatala flokksins, í 8530, sem er atkvæðatala flokksins. Við þetta er það fyrst og fremst að athuga, að í atkvæðatölu Framsfl. eru engin atkv. talin úr Strandasýslu, þar sem frambjóðandinn þar var sjálfkjörinn. Ennfremur ber þess að gæta, að annar frambjóðandi, núv. þm. N.-Þ., bauð sig fram utan flokka, og eru atkv. hans því ekki talin með atkv. flokksins. Þrátt fyrir þetta telur hv. þm. þingmenn flokksins 15 þegar hann reiknar hlutfallstöluna út. Sú tala, sem hann á að deila með í atkv.-tölu flokksins, er 13, og þá verður hlutfallstala flokksins 656 í stað 568,7.

Annars er það svo, að ef hv. þm. N.-Ísf. hefði fengið 13 atkv. færra síðastl. vor og þau atkv. hvergi komið fram, þá hefði farið nákvæmlega eins, hvor þessara umþráttuðu reglna hefði verið notuð við útreikninginn. Þetta get ég sýnt hv. þm. reikningslega, ef hann vill. Að síðustu vil ég vara þennan hv. þm. við því að vitna í Hagtíð. eða aðrar opinberar skýrslur, ef hann fer ekki betur með þær heimildir en raun varð á í þetta sinn.

Um réttmæti þessara umþráttuðu brtt. finn ég ekki ástæðu til þess að deila nú. Ég mun aðeins með atkv. mínu sýna afstöðu mína til þeirra.