25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

3. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller:

Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð, að það sé ný kenning, að fara svo með atkv., sem þm. skorast undan að greiða, sem ég legg til. Ákvæði þingskapanna frá 1915 eru einmitt byggð á þessu, en þau brjóta í bág við venju, sem áður gilti, eins og hv. 2. þm. N.-M. sagði. En 1915 var gerð gagngerð breyting á þingsköpunum að þessu leyti, og hún var byggð á þeim rökum, sem ég flutti. Þetta getur hv. þm. sannfærzt um, ef hann flettir upp nál. frá 1913 eða 1914, sem mér er sagt, að Guðm. Björnsson fyrrv. landlæknir hafi átt aðalþáttinn í. Þetta er byggt á því, að það sé fjarstæða, að afstaða nokkurs þm., sem ekki vill greiða atkv., sé notuð nokkru máli til framdráttar. Ég á bágt með að trúa því, að hv. þm. Barð. féllist ekki á þetta, ef hann gæfi sér tíma til að athuga málið.

Ég læt í ljósi ánægju mína yfir því, að hv. 2. þm. N.-M. er mér sammála um það, að „þingmaður“ eigi við hvaða þingdeildarmann sem er, en tel, að þetta eigi að orða svo, að ótvírætt sé. Þetta vildi ég æskja, að yrði athugað fyrir 3. umr. Ég tel a-liðinn eins og hann er enga bót á frv., og b-lið til skammar.