08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

Afgreiðsla þingmála

Jóhann Jósefsson:

Það virðist upplýst, að hæstv. forseti hefir ekki orðið við áskoruninni, sem hann las hér upp sjálfur áðan, þótt hann haldi því sjálfur fram. Ég ætla ekki að ræða málið sjálft frekar en hv. þm. Barð., en aðeins í sambandi við hv. þm. Borgf. og hinn „svokallaða þjóðarvilja“ í þessu máli, eins og hann komst að orði. Það er vitanlegt, að á móti banninu eða með afnámi bannlaganna greiddu 15884 manns atkv., en gegn afnáminu 11624. Það er þessi mismunur, hátt á 5. þús., sem hv. þm. nefnir „svokallaðan þjóðarvilja“.

Nú er svo komið víða um lönd, að lýðræðið stendur völtum fótum. En með hinni nýju stjórnarskrárbreyt. erum vér einmitt á þeirri leið að auka lýðræðið og efla. Af þessum orsökum óskum við þess, að það komi nú skýrt fram á þingi. hvort þm. ætla að virða vilja þjóðarinnar að vettugi, eða hvort þeir ætla að lúta honum sem sannir lýðræðismenn.