29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

10. mál, Kreppulánasjóður

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég veit ekki nema það sé misskilningur hjá mér, en mér virðist, að orðalag till. á þskj. 201 geti verið varasamt, þar sem hún er orðuð svo: „til greiðslu á „skuldum“ ríkissjóðs eða ríkisstofnana“ o. s. frv. Mér skilst eftir þessu orðalagi, að hægt sé að leggja tvennskonar merkingu í þetta, sem sé skuldir ríkissjóðs við aðra og skuldir, sem ríkissjóður á að fá greiddar frá öðrum. Mér virðist það ekki koma nægilega skýrt fram í till., hvort er átt við, þó að það kæmi skýrt í ljós í umr. Ég vildi skjóta því til hv. landbn., hvort hún vildi ekki athuga þetta nánar.