15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

24. mál, Tunnuverksmiðja Akureyrar

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil leyfa mér að minna á það, að á síðasta Alþ. var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast rekstrarlán fyrir Tunnuverksmiðju Siglufjarðar, og er sú ábyrgðarheimild nákvæmlega hliðstæð því, sem hér er farið fram á. Þeim mönnum, sem áttu sæti á síðasta þingi, eru sjálfsagt í minni umr. um það mál, en þeim til leiðbeiningar, sem síðan hafa komið, vil ég taka fram nokkur atriði.

Ég vil benda á, að á þessu ári hafa verið fluttar inn á þriðja hundrað þús. síldartunnur, eftir því, sem ég hefi fengið upplýst. Verðmunur á efni í síldartunnu, að meðtöldum tolli, og tilbúinni síldartunnu mun vera hátt á aðra krónu, sem að langmestu leyti er vinnulaun, er landsmenn geta sparað sér að greiða út úr landinu með því að starfrækja tunnuverksmiðjur þær, sem til eru hér á landi. Ég vil í þessu sambandi benda á, að tunnuverksmiðjan á Akureyri getur framleitt 500 vandaðar tunnur á dag og þannig smíðað yfir veturinn helming allra þeirra síldartunna, sem landsmenn nota. Hér er jafnframt um mikilsverða atvinnumöguleika að ræða fyrir verkamenn á Akureyri, og í sambandi við þá atvinnuleysisstyrki, sem hafa verið veittir undanfarið, er þetta mjög athyglisvert mál fyrir Alþ. Hér kemur líka fram hjá verkamönnum mjög eftirtektarverð tilraun til að útvega sér sjálfir atvinnu, í stað þess að heimta stöðugt atvinnu af atvinnurekendum eða af ríkinu, án þess að svipast um eftir verkefnum, er þeir gætu tekið sér fyrir hendur án aðstoðar eða milligöngu annara. Er þessi viðleitni í alla staði lofsverð.

Ég treysti því, að hv. d. taki mál þetta til sérstakrar athugunar, en vil að öðru leyti leyfa mér að vísa til grg. frv. og fylgiskjals.

Ég leyfi mér að vænta þess, að málið fái að ganga til 2. umr. og legg jafnframt til, að því verði vísað til n. Þetta mál heyrir eftir eðli sínu undir fjhn. eða sjútvn., en þar sem hér er um mjög lítið fjárhagsatriði að ræða, aðeins ábyrgð, sem taka á tryggingu fyrir, þá geri ég það að till. minni, að því verði vísað til sjútvn., því að ég hygg, að þar muni vera mests skilnings að vænta á þessu máli.