14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Finnur Jónsson):

Spurningu hæstv. dómsmrh. um það, hvort hægt sé að koma síldarbræðsluverksmiðju svo tímanlega upp, að hún geti komið til starfrækslu á næsta síldveiðatímabili, get ég svarað þannig: Nefndarmenn eru allir sammála um það, að Siglufjörður sé sá eini staður, sem komið geti til mála að reisa á verksmiðju næsta sumar. Er það vegna hinna mörgu skilyrða, sem þar eru fyrir hendi og sem gera slíka byggingu umfangsminni og auðveldari en á öðrum stöðum. Vitanlega er ekki hægt um það að fullyrða, að slík bygging yrði starfhæf í tæka tíð. Getur það m. a. farið eftir veðurfari. En þó er líklegt, að takast megi að fullgera verkið svo að notum geti orðið næsta sumar.

Um skemmdir þær, sem urðu á síld í þróm síldarbræðsluverksmiðjunnar, er það að segja, að verksmiðjustjórinn áætlaði, að hagnaður verksmiðjunnar hefði getað orðið 20000 kr. meiri, ef hægt hefði verið að setja síldina í bræðsluna í tæka tíð. En vitanlega er ekki hægt að byggja svo, að ávallt sé hægt að taka á móti allri síld, sem að berst.

Ég skal svo með örfáum orðum gera aths. við ræðu hv. þm. G.-K. Hv. þm. hélt því fram, að nýja síldarbræðslustöð ætti að setja niður við Húnaflóa. Það er að vísu satt, að góð síldveiði hefir verið á Húnaflóa nú um nokkur ár, en þó eigi allt sumarið. Er þá eigi síður langt að sækja þangað með síld, sem aflað er austan Siglufjarðar, heldur en vestan að til Siglufjarðar. Hygg ég, að það myndi verða almennt álit, að kjósa heldur nokkra bið á Siglufirði eftir afgreiðslu en að sigla vestur til Skagastrandar eða á annan stað þar vestur frá. Ég get sagt frá því, að það fyrirtæki, sem ég veiti forstöðu og sem hefir ¼ síldarframleiðslu gömlu ríkisverksmiðjunnar og er næststærsti síldarsaltandinn, hefir valið Siglufjörð til sinnar starfrækslu. Þrátt fyrir ýmsa ókosti á Siglufirði, hefir það engan stað fundið heppilegri, enda er hann það landfræðilega séð, þar sem hann er við miðju síldveiðisvæðisins. Það er nauðsynlegt, að saman fari söltun og bræðsla. Ef því síldarhræðslustöð yrði reist við Húnaflóa, væri óhjákvæmilegt að stofna þar líka til söltunar. En þar sem þörfin fyrir síldarbræðslustöð er afarbrýn og þar sem fyrr er unnt að fullnægja henni á Siglufirði, með byggingu þar, en annarsstaðar, þá er nauðsynlegt að sá staður sé valinn í þetta sinn. Stöð við Húnaflóa gæti svo komið til álits í framtíðinni.