25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Mér er ekki kunnugt um, að þetta fyrirtæki sé fjárhagslega illa stætt. Það hvíla á því skuldir samtals um 400 þús. kr., en eignir þess eru metnar á 600 þús. kr., enda skildist mér hv. 2. þm. Reykv. ekki bera það fram sem aðalrök gegn þessu frv., að fyrirtækið væri illa stætt. Auk þess tók hann réttilega fram, að af þessari ábyrgðarheimild mundi ekki stafa hætta fyrir ríkissjóð, þar sem ábyrgð Rvíkurbæjar stæði á bak við.

En um hitt atriðið, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að hér sé um einkafyrirtæki að ræða, þá er hæstv. Alþ. þegar búið að taka þá afstöðu til þess, að það vill styðja það þrátt fyrir þó að það sé einkafyrirtæki, og það var af því, að það var álitið, að hér væri svo mikil þörf fyrir slíkt fyrirtæki.