23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (888)

51. mál, strandferðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir hv. þm. Vestm. vera nokkuð harður í garð þessa frv., sem hér liggur fyrir, og finnst það vera mjög ómaklegt, aðallega er andstaða hans miðuð við einhverjar grillur, sem hann hefir gert sér um tilgang flm. Ég get ekki séð, að í frv. felist nein slík ástæða til þess að ætla, að þeir séu að ráðast sérstaklega á Eimskipafél. Ísl. Ég hefi búizt við því, að það verði svo, að Eimskipafél. verði okkar aðalhjálparhella, ekki einungis um fólksflutning milli innlendra hafna og útlanda, heldur og með alla flutninga, sem þarf að annast á sjó. Og ég held, að það eigi að vera keppikefli okkar Íslendinga, eins og allra annara þjóða, að reyna að annast sem mest slíka flutninga sjálfir, en ekki að fá aðrar þjóðir til þess, a. m. k. ekki meira en þörf krefur. Og þá er fyrst og fremst að líta á þá flutninga, sem þarf að inna af hendi við strendur landsins sjálfs. Ef til vill getur þessi leið, sem hér er farin, orðið til þess að flýta fyrir því, að vér verðum þess megnugir. Með því að skattleggja slíka fólksflutninga, sem þessi skip hafa meiri hagnað af en innlendu skipin, þar sem þau sigla aðeins milli þeirra hafna, sem bezt borgar sig að sigla á, yrði þessi skattur ekki til þess að hækka mikið fargjöldin. Skipin myndu áreiðanlega reyna að hafa fargjöldin ekki hærri en það, og skatturinn nær aldrei til Eimskipafél. Afleiðingin yrði sú, að a. m. k. að allmiklu leyti felli skatturinn á skipafélögin sjálf, en ekki á þá, sem ferðuðust með skipunum. Svo gæti hann orðið til þess að hjálpa Eimskipafél. til þess að fullnægja betur þessari þörf landsmanna, eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir til þess að að fé notaðist til að fullnægja þörfinni. Jafnvel þótt þessum skatti væri svo hagað, að hann hækkaði fargjöldin eitthvað, þá væri það ekkert óttalegt, því að við höfum hækkað fargjöldin á landi með því að koma á og hækka benzínskatt og bifreiðaskatt. Meginið af þessum skatti gengur líka til þess að gera samgöngurnar greiðari á landi. Þessi skattur verður líka til þess að auka eða bæta samgöngurnar á sjó.

Ég get ómögulega séð, hve nauðsynlegar eru þessar ferðir bergensku skipanna, eins og hv. þm. Vestm. heldur svo mjög fram. Það er ekki nauðsynlegt að fá norsku skipin til þess að taka kjötið okkar til Noregs, þegar íslenzku skipin fara þangað. Mér hefir stundum heyrzt anda þannig til norsku viðskiptanna, að við ættum ekki að vera sérstaklega ginnkeyptir við því að vera að auka tekjuvonir þeirra af siglingum hér við land. Ég held, að við ættum gjarnan að sýna þeim í tvo heimana, a. m. k. láta þeim skiljast, að þeir hafi hér hagsmuna að gæta og að heim sé varlegra að vera ekki mjög óbilgjarnir í samningum við okkur. Ef saltkjötsmarkaður okkar í Noregi hverfur, sé ég ekki, hvað við höfum til Norðmanna að sækja, og við getum þá sýnt þeim, að við þurfum ekki af þeim að kaupa það, sem við kaupum nú. Það fæst annarsstaðar og e. t. v. jafngott og meira en það. Og það eru vissar vörutegundir, sem hafa þótt þaðan beztar, en fá nú það allt í seinni tíð, að þær séu sízt betri en annarsstaðar. Á ég hér við veiðarfærin. Ég vil því, þótt ég eigi sennilega eftir að fjalla um þetta mál, andmæla hv. þm. Vestm. strax og lýsa yfir því, að ég tel frv. fullkomlega þess vert, að það fái ýtarlega rannsókn. Það getur vel verið, að það þurfi einhverra breyt., en það réttlætir alls ekki þær árásir, sem það hefir orðið að sæta.