02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (911)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Bjarni Ásgeirsson:

Ég ætlaði mér ekki að taka til máls við þessar umr. þm. hélt, að ekki væri þörf á því —, en ég get samt ekki stillt mig um að láta í ljós undrun mína yfir þeirri hörðu andspyrnu, sem þetta frv. verður fyrir af hálfu hv. bannmanna hér í d. hér er um mál að ræða, sem ekki brýtur á nokkurn hátt í bág við gildandi áfengislög: það hefir ekki minnstu áhrif á bindindismál þjóðarinnar. Það er ekki farið fram á annað en að Íslandi verði gert kleift að taka þátt í framleiðslu á varningi, sem svo mikil eftirspurn er að í heiminum, að hundruð þúsunda og jafnvel milljónir manna drekka á degi hverjum. Ég get ekki séð, að rétt sé að hindra Íslendinga í því að setja á fót arðvænan atvinnuveg; í þeim efnum er Íslandi ekkert frekar til fyrirstöðu en öðrum þjóðum. En til þeirrar fjarstæðu, að þetta fyrirtæki muni hafa skaðleg áhrif á bindindisbaráttuna eða stefnuna í heiminum, er helzt að jafna sögunni um bónda nokkurn, sem þorði ekki að hlaða garð norðanvert við túnið sitt til varnar ágangi af sjávarvöldum, vegna þess að hann var hræddur um, að sjórinn mundi af þessu hækka sunnanvert við jörðina og flæða frekar yfir. Það er alveg hliðstætt dæmi þessu, ef menn ætla, að þetta öl muni hafa einhver hækkandi áhrif svo að miklu muni á áfengismagnið í heiminum. Það hefir verið fært fram gegn þessu máli, að óttast beri að binda hagsmuni manna hér við framleiðslu og sölu áfengra drykkja, af því að örðugt reynist þá að glíma við það fjármagn, sem þá yrði andvígt bindindisstarfsemi í landinu. En ég get ekki séð, að það geti orðið örðugra en að glíma við þá hagsmuni, sem standa að sölu hins erlenda áfengis. Þessi löggjöf veldur þar um engum auknum erfiðleikum. En hinsvegar er alveg sjálfsagt að haga sölu og framleiðslu áfengis og öls þannig, að sem mestar tekjur renni í ríkissjóð, á meðan ekki er hægt að þurrka landið. Andstæðingar þessa máls sjá þar ekkert annað en áfengið og aftur áfengið, en gæta þess ekki, að aðalatriði málsins er að gera íslenzka ölið útflutningshæft, en það getur það ekki orðið nema að auka nokkuð áfengisstyrkleikann, svo að það þoli betur geymslu án þess að skemmast.

Dagskrártill. hv. þm. Borgf. get ég hinsvegar ekki tekið alvarlega. Það nær ekki nokkurri átt að setja þetta á bekk með þeim ógeðslega óþverra, sem heimabruggið er, og flestum óspilltum mönnum býður við, því ölið er meinlaus og hollur drykkur, sem nýtur álits um allan heim og milljónir manna drekka með góðri lyst.