20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

22. mál, verkamannabústaðir

Jón Pálmason:

Ég verð að láta það í ljós, að mér finnst þetta eitt af þeim leiðinlegustu málum, sem fyrir þessu þingi liggja. En það er ekki aðeins leiðinlegt, heldur líka hættulegt, því að það stefnir að því, að afnema félagsfrelsið hér á landi. Hér er um það að ræða, hvort verkamenn í kaupstöðum mega hafa með sér fleiri en eitt félag til bygginga. Hv þm. V.-Ísf. taldi það ekki sönnun þess, að félagsskapur sá í Rvík, sem hér um ræðir, væri pólitískur, að fánar Alfl. voru dregnir þar við hún í reisugildi nýlega. Þætti hv. þm. V.-Ísf. það bera vott um ópólitískt eðli félags, ef það flaggaði með hakakrossfána við öll hátíðleg tækifæri? Nei, ég efast ekki um, að bæði hv. þm. V.-Ísf. og sósíalistarnir mundu telja þetta sönnun fyrir því, að þetta væri hápólitískt félag. - Nei, með þessum 1. er verið að ráðast á almennt félagsfrelsi, og tel ég því skyldu mína að vera því andvígur.