20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

22. mál, verkamannabústaðir

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að bæta ofurlitlu við til andsvara hv. þm. Hafnf. Hann taldi, að það væri meiri ástæða til að ákveða, að byggingarfélög, sem starfa samkv. l. um verkamannabústaði, væru aðeins eitt á hverjum stað, heldur en byggingarfélög, sem starfa samkv. 1. um samvinnubyggingarfélög. En mér skildist, að hv. þm. tækist vel að færa sönnur á hið gagnstæða. Hann benti réttilega á, að sá munur væri á þessum lögum, að það er takmarkað, hvað vextir af lánum til verkamannabústaða mega vera háir. Með því er tryggður annar þáttur höfuðtilgangs þessarar löggjafar, sem er að tryggja verkamönnum ódýrar íbúðir. Íbúðir verða ódýrar eða dýrar eftir því, hvaða lánskjara notið er og hvað byggingarkostnaðurinn er mikill. Hvað verkamannabústaðina snertir, þá ákveða l., að vextirnir með afborgunum megi ekki fara yfir 5%, svo um þá hliðina þarf ekkert að hugsa. Aftur er í l. um samvinnubyggingarfélög engin slík trygging. En það er augljóst, að því stærri sem byggingarfélögin eru, því meiri líkur eru til, að þau geti fengið ódýr lán, vegna þess að þá eru lántökurnar stærri. Þess vegna getur verið hætta á því, að byggingarsamvinnufélögin verði allt of mörg og lántökur þeirra þar af leiðandi smærri og dýrari. Þessa gætir ekki að því er verkamannabústaðina snertir, því lántökur til þeirra fara allar í gegnum byggingarsjóðinn, sem tekur lán fyrir öll byggingarfélögin í heild, hvort sem þau eru fleiri eða færri. Af þessu er ljóst, að með tilliti til lánskjaranna gæti frekar verið ástæða til að takmarka fjölda byggingarsamvinnufélaga heldur en byggingarfélaga verkamanna.

Eins er að því er byggingarkostnaðinn snertir, að þar kemur stærð félaganna alveg jafnt til greina, eða a. m. k. engu síður hjá samvinnufélögunum heldur en verkamannafélögunum. Nú hefir ekki verið borið við að byrja á byggingu verkamannabústaða hér í Rvík fyrir minna en 50 fjölskyldur, og ekki er ástæða til að byrja með minna vegna þess, að ekki séu nógu margir, sem vilja komast að í þessum félögum. Hinsvegar er kunnugt, að meðlimir byggingarfél. eru mjög misjafnlega margir. Ég veit ekki, hvað mörg slík félög hafa verið stofnuð hér í Rvík, en mér er kunnugt um þrjú, og er félagatala þeirra allt niður í 20. Ef álitin er hætta á því, að byggingarnar verði dýrari fyrir það, að ekki sé haft nógu mikið undir, þá er augljóst, að sú hætta er meiri í sambandi við byggingarsamvinnufélögin heldur en byggingarfélög verkamanna, og er því frekar ástæða til að setja einhver tryggingarákvæði í þessa átt að því er byggingarsamvinnufélögin snertir, til þess að ná þeim tilgangi þessarar löggjafar að sjá mönnum fyrir sem ódýrustum íbúðum. Svo mér skilst, að hv. þm. Hafnf. hafi tekizt, með því að benda á muninn á þessari tvennskonar löggjöf, að sanna það þveröfuga við það, sem hann vildi vera láta; að það er engin ástæða til þess að banna, að byggingarfélög verkamanna séu fleiri en eitt á sama stað, a. m. k. ekki hér í Rvík, og um annað er ekki hér að ræða nú. Ég hefi áður leitt rök að því, að sama gildir um aðra kaupstaði, a. m. k. að því er lánskjörin snertir, þau eru hin sömu, hvort eitt félag er eða fleiri, og hvað byggingarkostnaðinn snertir, þá væri nær að setja ákvæði um, að félögin skuli hafa sameiginlegt útboð á byggingarefninu; með því næðist sá tilgangur, að tryggja, að byggingarkostnaðurinn verði eins lítill og framast er unnt.

Það er því algerlega sannað, að það er engin þörf á því að banna að hafa fleiri en eitt byggingarfélag verkamanna á sama stað. Því þær getsakir, að póltík muni frekar komast inn í lánveitingar sjóðstj., ef félögin væru fleiri en eitt, eru algerlega gripnar úr lausu lofti. Á. m. k. er ekki eins og nú standa sakir ástæða til að gera ráð fyrir, að sjóðstj. myndi beita pólitískri hlutdrægni til óþurftar því byggingarfélagi, sem nú er starfandi hér í bænum. Hitt er rétt, að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að framkvæma miklar byggingar samkv. l. um verkamannabústaði. En eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, vantar mikið á, að nokkurntíma hafi verið byggt eins mikið og frekast er unnt vegna lánskjaranna. Og þótt komið væri mjög nálægt því takmarki og þyrfti að skammta byggingarleyfin úr hnefa, þá sé ég ekki, að þess vegna væri ástæða til að banna að hafa fleiri en eitt félag. Það yrði þá bara að miðla lánsfénu á milli, þannig að annað félagið fengi aðstöðu til að byggja 50 íbúðir þetta árið og hitt svo aftur næsta ár, o. s. frv. Það er þannig engin nauðsyn á að einskorða l. við eitt félag vegna takmörkunar á framkvæmdarmöguleikum. Eini tilgangurinn er sá, að einoka þau fríðindi, sem þessi l. eiga að veita mönnum, við eitt félag, sem sérstaklega er stofnað af ákveðnum flokksmönnum og í ákveðnum pólitískum tilgangi.