14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

7. mál, gengisviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. G.-K. minntist á það, hvernig fara ætti að, ef tekjur áfengisverzlunarinnar fara ekki fram úr áætlun. Ég verð að segja það, ef óhjákvæmilegt verður að sinna þessum útgjöldum, sem hann minntist á, á árinu 1935, þá býst ég við, að ég verði þegar á meðan næsta þing stendur yfir að fara fram á það vegna ríkissjóðs, að tekjuaukinn standi óbreyttur. En ef það lítur vel út um áfengistekjurnar, eins og hv. þm. G. K. gerir sér vonir um, þá er ástæða til þess að vænta þess, að það þyrfti ekki að fá nema lítinn tekjuauka.

Ég tek undir það með hv. þm. G.-K., að það er ekkert óeðlilegt að taka lán til sjávarútvegsins, eins og gert er ráð fyrir í frv. um fiskimálanefnd. Ég sá, að það var alveg sérstaks eðlis. En ég vil benda á, að það hefði ekki verið nema ágætt, hefði verið hægt að greiða eitthvað af upphæðinni í reiðufé, en ég býst ekki við, að það verði hægt eins og útlitið er nú. Mér þykir vænt um að fá það fram, að hann lítur á þetta eins og ég, að þessi útgjöld séu alveg sérstaks eðlis, og því ekki óeðlilegt að taka lán til þeirra. Ég er honum alveg sammála um þetta.