18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

34. mál, bráðabirgðaútflutningsskýrslur

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Eins og ég hefi þegar tekið fram, ber lítið á milli okkar hv. form: sjútvn. um þann tilgang, sem liggur til grundvallar flutningi þessa máls. Ég tel þessar skýrslur eðlilegar og nauðsynlegar, en ég fór aðeins fram á það, að þeir, sem mestar kvaðir eru lagðar á í þessu sambandi samkv. frv., fengju tækifæri til þess að láta í ljós skoðanir sínar á þessu máli.

Ég vil benda hv. form, sjútvn. á það, að það er ástæðulaust að óttast, að hængur verði á skýrslusöfnun, þótt þessu máli verði frestað til næsta þings, vegna þess að Fiskifélagið hefir, eins og hv. þm. minntist réttilega á, dálitla reynslu fyrir sér í þessari skýrslusöfnun, og á þeirri reynslu er frv. það, sem hér liggur fyrir, byggt. Hitt er engu síður rétt, að Fiskifélagið hefir fengið ýmiskonar upplýsingar, a. m. k. frá stórútgerðarmönnum, jafnóðum og þær hafa legið fyrir. Yfirleitt má segja, að ákjósanleg samvinna hafi verið milli skrifstofu botnvörpuskipaeigendanna og skrifstofu Fiskifélagsins. Þessir tveir aðilar hafa skipzt á gagnkvæmum upplýsingum.

Ástæðan fyrir því, að ég fór að bera fram þessa ósk, um að sanngjarnt væri, að menn tækju tillit til álits botnvörpuskipaeigenda í þessu efni, var sú, að ég greip ofan í 3. gr. frv., sem skyldar innlenda framleiðendur til þess að láta umboðsmenn þá, sem selja afla af íslenzkum skipum erlendis, síma þegar í stað, er salan hefir fram farið, til Fiskifélagsins og tilkynna því fiskmagn og verð. Þessar upplýsingar hafa hingað til borizt til útgerðarmannanna sjálfra. Það er því kostnaðarauki og alveg ástæðulaust fyrir umboðsmennina að síma strax til Fiskifélagsins, enda geta útgerðarfélögin sent skrifstofu Fiskifélagsins þessar upplýsingar, þegar þau eru búin að fá þær, alveg eins og verið hefir.

Þetta er að vísu ekkert stórmál, enda mun ég ekki gera það að kappsmáli, en mér þótti réttara að láta í ljós þessi andmæli núna gegn þessum fyrirmælum frv., sem ég er búinn að minnast á. Mun ég því að sjálfsögðu greiða atkv. á móti því, að þessi ákvæði verði lögfest án vilja og vitundar útgerðarmanna, um leið og ég samþ. aðaltilgang laganna.