09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Það er í sjálfu sér óviðfelldið að tala yfir þeim fáu hv. þm., sem eru hér í deildinni, en nokkur atriði í þessum umr. hér í dag valda því, að ég vil ekki láta þessar umr. fram hjá mér fara, án þess að leggja orð í belg. Fyrst og fremst vil ég minnast á það, að hæstv. fjmrh. sagði hér í kvöld, að það væri misskilningur, að fulltrúar sveitahéraðanna væru mótfallnir því, að beinir skattar hækkuðu frá því, sem nú er, vegna þess, að beinu skattarnir kæmu lítið niður á þeim og þeirra kjördæmum.

Ég hlaut að taka þetta til mín, því að ég lýsti yfir því við fyrri umr., að ég væri því aðeins meðmæltur því, að ganga inn á þá braut, að skattinum skuli skipt milli sveitar- og bæjarfélaga annarsvegar og ríkissjóðs hinsvegar.

Ég vil svara því, sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. í þessum ummælum, því að þar kemur greinilega í ljós hugsunarháttur sá, sem ríkt hefir hér á hv. Alþ. undanfarin ár og virðist vera algengur, sem sé sá, að það sé óhætt að taka gjöld, ef þau koma ekki niður á hlutaðeigandi mönnum eða þeim skjólstæðingum, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þessi hugsunarháttur hefir leitt út í þær öfgar í skattaálögum til ríkis og á annan hátt, að hann, ásamt fleiri ástæðum, er kominn vel á veg með að drepa allt atvinnulíf í landinu. Þessi hugsunarháttur er mjög óheilbrigður og skaðlegur. Hvað mig sjálfan snertir hef ég viljað líta á þessi mál sem önnur með alþjóðarhag fyrir augum, en ekki með tilliti til þess, hvað mér sjálfum kæmi bezt.

Í þessu sambandi vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann hélt því fram, sem er í samræmi við ræðu hæstv. fjmrh., að tekju- og eignarskatturinn væri að miklu leyti sérskattur fyrir Rvík og kaupstaðina. Hann dró þá ályktun, að þetta stafaði af því, að það kæmu ekki fram tekjur og eignir til skatts í öðrum héruðum landsins, og átti hann þar sérstaklega við okkar sveitahéruð. Frá mínu sjónarmiði liggur mikill misskilningur í þessu, sem ég hygg ekki munu stafa af þekkingar- skorti hv. þm. á ástandinu í sveitum okkar. Það er algerlega röng ásökun, að mismunurinn á skattgjaldi sveita og kaupstaða stafi af rangri framtalningu í sveitum. Það er að vísu ekki unnt að fullyrða neitt almennt um þetta, en það, sem skapar þennan mismun, eru aðrar orsakir. Til þessa liggja sérstaklega tvær orsakir. Önnur er sú, að undanfarin ár hafa tekjur almennt verið nálega engar og stundum jafnvel tap, í sveitum landsins, þrátt fyrir það þó að tekjur hafi verið nokkrar í kaupstöðunum. Hin orsökin hygg ég að liggi í því, að það tíðkast öllu meir í kaupstöðunum, e. t. v. sérstaklega í Rvík, heldur en í sveitunum, að lagt er á tekjur, sem engar eru til.

Það er þetta atriði, sem gerir það að verkum, að ég tel nauðsynlegt að fara varlegar í þessu efni með þennan skatt en ella mundi þurfa að gera. Ræði hæstv. fjmrh. og aðrir tala um, að ekki sé svo langt gengið í þessu efni hér í Rvík, þegar jafnmikið sé eftir af tekjum, þegar búið sé að leggja útsvör og skatta eins og til sé tekið.

Þetta má e. t. v. til sanns vegar færa, ef það er víst, að til sé jafnmikið af tekjum og tilgreint er. En það vantar mikið á, að svo sé, og það stafar af því, hvernig skattaálagningunni er hagað, og þá kem ég að því atriði, sem hér virðist vera deiluatriði í sambandi við þetta frv. og hefir verið deiluatriði undanfarin ár í sambandi við skattalögin. Það er, hvort eigi að vera mismunandi persónufrádráttur, þegar skatturinn er ákveðinn.

Vitanlega er það rétt, að það er dýrara að lifa í Rvík og kaupstöðunum heldur en annarsstaðar á landinu, vegna þess að frádrátturinn nægir ekki fyrir því, sem menn eru neyddir til þess að eyða. Þarna er veigamikið atriði, sem gerir það að verkum, að lagt er á tekjur, sem engar eru til. Hv. þm. N.-M. vildi rökstyðja, að þetta væri eðlilegt, með því að kaupgjaldið hér í Rvík væri hærra, og þess vegna ætti ekki að hafa frádráttinn mjög háan. Þetta sýndi, að það var ríkisskattanefndarmaður, sem talaði. Þetta er ekki á sterkum rökum reist. Ríkisskattan. hefir reynt á þessu ári að fara inn á sömu braut, með því að koma því til leiðar, að búnar væru til tekjur hjá bændum, sem engar eru til. Sumar till. eru svo mikil fjarstæða, að ég býst ekki við, að nokkur skattan. fari eftir þeim, nema þá að nafninu til.

Hvað persónufrádrátt snertir þá er sanngjarnt að hafa hann mismunandi háan, ef málið kemst þá ekki við það inn á ósanngjarnari braut. Eins og hv. þm. V.-Húnv. tók fram, er það augljóst, að ef hærri persónufrádráttur er í Rvík en annarsstaðar, sem að vísu er rétt, þá verður árekstur, því að mismunur á lífsframfæri er svo mikill, að örðugt er að komast að réttri niðurstöðu í þessu efni. - Jafnvel þótt aðferð hv. þm. Hafnf. væri viðhöfð, um að skipta í 3 stig, þannig að Rvík væri höfð sér, kaupstaðirnir sér og önnur héruð sér, væri samt ranglæti í þessu efni. Ég skal taka til dæmis eitt kauptún hér nærri, Akranes. Þar er áreiðanlega dýrara að lifa en í sumum kaupstöðum úti á landi. Þannig er í ýmsum tilfellum í þessu efni, ef á að hafa persónufrádráttinn mismunandi, sem í rauninni er sanngjarnt, ef hægt er að koma honum á heppilegan grundvöll.

Eina röksemdin fyrir því, að heppilegt sé að hafa persónufrádráttinn jafnan, er sú, að ekki sé unnt að komast á sanngjarnan grundvöll í þessu efni, en þetta eitt sannar það, að með þeim hætti er komið inn á þá braut, að annaðhvort verði persónufrádrátturinn það hár, að hann sé hærri en efni standa til í sveitum landsins, eða of lágur í kaupstöðum, svo að ekki verði lagt á tekjur, sem engar eru til, því að hér væri auðvitað um hreinar tekjur að ræða, en ekki brúttótekjur.

Ég vænti þess, að hv. þdm. skilji það, að það er ekkert óeðlilegt, þótt ég og aðrir, sem standa álíka að vígi, þannig að okkar héruð borga ekki háan skatt, vilji fara varlega, þegar um hækkun þessa skatts er að ræða, eins og hér virðist vera stefnt að, þótt það komi niður á öðrum mönnum, því að hér er ekki farið með peninga, sem eru í hendinni, heldur eru þeir oft aðeins tilbúnar tölur, reiknaðar eftir því, hvernig skattstjóri á þessum og þessum stað framkvæmir sitt verk.

Ágreiningur sá, sem er á milli sjálfstæðismanna annarsvegar og t. d. sósíalista hinsvegar, er fyrst og fremst fólginn í því, að við viljum taka tekjur í ríkissjóðinn af eyðslu, og einkum og sér í lagi þeirri eyðslu, sem hægt er að vera án, með háum tollum, en fara aftur varlega með beitingu beinna skatta, því að það er áreiðanlegt, að þeir koma mjög hart niður á framleiðslunni, fyrr eða síðar; það er ekki annað að taka, því að framleiðslan er tekjur þjóðarinnar. Frá þessu sjónarmiði séð vona ég, að menn sjái, að það er ekkert óeðlilegt, að ég og aðrir vilji ekki samþ. þetta frv. á öðrum grundvelli en þeim, að reynt verði með einhverju móti að jafna þessum skatti milli sveitar- og bæjarfélaga annarsvegar og ríkissjóðs hinsvegar.