21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

1635 Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi borið fram nokkrar brtt. við frv. á tveimur þskj., nr. 445 og 492. Brtt. á þskj. 445 er við 5. gr. frv. og er eins og þær brtt., sem felldar voru við 2. umr., og fara fram á það í stórum dráttum að bæta ofurlítið úr því misrétti og ósanngirni að fella þessar brtt., er snerta þau ákvæði, sem í frv. eru um barnamjólk. Þó að gerilsneyðingin þyki ágæt, þá viðurkenna menn samt, að henni fylgi þeir gallar, að gerilsneydd mjólk sé ekki heppileg fyrir börn, og þá auðvitað ekki heldur fyrir sjúklinga, hvernig sem á því stendur, að hún skuli ekki vera hollari en mjólk úr þessum margumtöluðu löggiltu fjósbásum.

Það er talað um, að einhverja mjólk verði að undanskilja gerilsneyðingu, og er þá eðlilegast, að það sé sú mjólk, sem minnst þörf er að gerilsneiða. Mjólk, sem hægt er að selja beint og ekki þarf að flytja langt, er eðlilegt að sitji fyrir í þessu efni, enda sé hún seld milliliðalaust þeim, sem á barnamjólk þurfa að halda. Í sambandi við þetta er að nokkru leyti brtt. 492,b, því að það ákvæði, sem þar er lagt til að breyta, gerir það að verkum, hvernig sem á því stendur, að það kostar þessar stofnanir, sem þar eru nefndar, stórfé, ef þær þurfa að kaupa mjólk sína í gegnum mjólkurmiðstöð, í staðinn fyrir að fá hana í stórkaupum beint.

B-liður þessarar brtt. er fram borinn annarsvegar vegna þess, að í frv. er bannað að selja mjólkina ógerilsneydda, en hinsvegar er hvergi í frv. gert ráð fyrir neinu fyrirtæki, sem hefir möguleika til gerilsneyðingar á mjólk, sem sé gert að skyldu að gerilsneyða fyrir aðra en sína félaga. Mér finnst þetta ósanngjarnt og benda á það, að með þessu eigi að þvinga alla til að verða í þeim félagsskap, sem er á verðjöfnunarsvæðinu. Að vísu stendur í 5. gr., að þau bú, sem stunda aðra starfsemi jafnframt, megi skylda til að gerilsneyða, mjólk fyrir utanfélagsmenn. Ég vil fella burt þetta skilyrði um „óskylda starfsemi“, svo að skylda megi öll mjólkurbú til að gerilsneyða mjólk fyrir utanfélagsmenn. Þetta getur ekki orðið þungbært fyrir þau, því að enginn ætlast til, að þau geri þetta ókeypis, heldur fyrir gjald, sem samþ. er af ráðh.

C-liður þessarar brtt. við 5. gr. er borinn fram eins og prófsteinn. Það hefir verið fullyrt aftur og aftur hér, og ég hefi fengið aðkast fyrir að efast um, að það sé rétt, að á Akureyri leiki þeir sér að því að hafa allan gerilsneyðingar- og dreifingarkostnað 5,8 aura á lítra. Ég hefi efazt um, að öll kurl kæmu til grafar í þeim reikningum. Hinsvegar er það alveg ljóst, að ef hægt er að framkvæma þetta á Akureyri, þá er eins hægt að gera það hér. Það er bezt, að þeir, sem hafa trú á þessu, sýni það í verkinu, með því að sýna traust á því, að eins sé hægt að gera þetta, þó að komið sé lítið eitt sunnar á jarðarhnöttinn. Þess vegna hefi ég borið fram þessa brtt., að mjólkurframleiðendur skuli fá útsöluverð fyrir mjólkina að frádregnum 6 aurum, og er þar með þó gert ráð fyrir meiri kostnaði en á Akureyri, því að þar á það ekki að vera nema 5,8 aur., sem þeir hafa margfullyrt að kostnaðurinn sé. En ef þessir hv. þm., sem þetta fullyrða, vilja ekki samþ. þessa brtt. mína, þá viðurkenna þeir þar með, að eitthvað sé gruggugt við reikningana hjá Mjólkursamlagi Eyfirðinga. Ég hugsa ekki, að þeir reikningar séu falskir, en ég hugsa að reikningunum sé ekið til, svo að ekki komi á mjólkina allur gerilsneyðingar- og dreifingarkostnaður. hv. þm. Eyf. geta krossað sig fyrir þessu, en þeir fá nú tækifæri til að sýna trú sína á því, að hægt sé að framkvæma þetta. En það er enginn vandi að aka reikningunum þannig til, að kostnaðurinn komi ekki allur á mjólkina. (BSt: Þetta er sérstök stofnun, svo að það er ekki hægt). Já, mikið rétt, það er alveg sérstök stofnun. En það er hægt fyrir félag, sem hefir frystihús, að frysta kjöt fyrir ekkert með því að allur frystihúskostnaðurinn sé lagður á þá síld, sem það frystir. Eins er hægt að gerilsneyða mjólk fyrir ekkert með því að leggja þann kostnað á smjörlíkisgerð. En með þessum prófsteini, sem till. mín er, ætla ég nú að sjá, hvort þessir hv. þm. vilja trúa því, að hægt sé að gera þetta svona ódýrt.

Þá vil ég minnast á eitt atriði í brtt. minni á þskj. 492. Ég hefi borið þá till. fram eftir beiðni manna, sem standa að brauðgerð hér í bæ. Þeir hafa sýnt mér fram á, að það er fásinna að taka mjólk og gerilsneyða hana, ef hún verður síðan hituð miklu meira en þarf til gerilsneyðingar. Það er fjarstæða að láta þessa menn fyrst borga fyrir gerilsneyðingu á mjólk, sem er síðan hituð í baraofnum miklu meira en gert er við gerilsneyðingu. Svo er líka hitt, að sumir brauðgerðarmenn eiga kýr, og þeir vilja auðvitað nota mjólkina úr þeim í sínum brauðgerðarhúsum. Það er því hart fyrir þá, ef mjólkin er tekin af þeim, gerilsneydd og seld í gegnum mjólkurmiðstöð, í staðinn fyrir að mega hafa hana til eigin nota. Ég veit ekki, hvort þessar nýju brtt. losa þá undan þessu, en ég efast um það. Ég hygg, að þar sé aðeins átt við þá mjólk, sem menn þurfa nauðsynlega að nota handa sér og sínu heimili. Um rjómann er öðru máli að gegna. Hann gerilsneyðist ekki hjá brauðgerðarhúsunum. Mestur hluti af rjómanum er þeyttur og hafður innan í kökur og annað góðgæti, en mér er sagt af brauðgerðarmönnunum, að það sé verulegur kostnaðarauki að þurfa að kaupa gerilsneyddan rjóma til þessara hluta. Gerilsneyddur rjómi þeytist miklu verr, auk þess sem hann er dýrari. Ég hefi samt ekki borið fram brtt. um þetta, því að rjómi gerilsneyðist ekki við þeytingu, en þetta er aukinn kostnaður, sem er hætt við, að valdi hækkun á þeim nauðsynjavörum, sem brauðgerðarhúsin framleiða, og meðal þeirra nauðsynjavara er ekki einu sinni brauð, heldur líka kökur, og a. m. k. álíta þessir menn kaffi og sykur nauðsynjavöru, og þá hugsa ég, að þeir viðurkenni líka, að einfalt kaffibrauð sé nauðsynjavara.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessar till. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, hvað um þær verður, því að þetta eru lítilfjörlegar breyt., sem í þessum till. felast. Ég hefi borið þær fram meira til þess að sjá, hvort hv. þm. fást til einhvers samkomulags í þessu máli. Annars hefi ég gefið upp alla von um að fá leiðréttingu þessa máls hér í d., en vona, að einhverjar leiðréttingar megi fá í Nd.

Um brtt. n., sem eru hér risnar upp frá dauðum aftur, vil ég segja það, að n. má þakka mér fyrir, að ég skyldi fá málinu frestað, svo að slíkur óskapnaður kæmi ekki í dagsins ljós, þegar átti að ganga til atkv. um það. En hér eru ákvæði, sem ég er ekki viss um, hvað þýða. Hv. frsm. meiri hl. fór svo á hundavaði yfir þessar till., að maður var engu nær um það, hvað í þeim felst. En það, sem ég vil sérstaklega fá skýringu á, er 3. brtt. I, 3. málsgr., sem hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Ef mjólkursölunefnd þykir ástæða til, getur hún, að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra, ákveðið, að vissar sveitir, hluti úr sveitum eða kauptún skuli tekin undir sölu- og dreifingarrétt mjólkurbúa eða sölumiðstöðva þeirra með þessar afurðir“.

Ég vildi mjög gjarnan fá skýringu á því, hvað bak við þessa till. liggur. Mér sýnist í fljótu bragði, að hún þýði það, að sölumiðstöð geti seilzt út fyrir sitt sölusvæði og dregið sveitir og kauptún inn undir þetta valdsvið sitt. Það er ekki víst, að við þetta sé átt með till., en ég vil fá frekari skýringu á henni, því að hér getur verið um stórbreyt. að ræða.

Þessar till. eru víst hér um bil alfullkomnar, en það skal þó lukka til, að ekki sé feil í 2. málsgr. Þar stendur „ í hlutaðeigandi kaupstað eða kaupstöðum. Skyldi það nú ekki eiga að vera „kaupstað eða kauptúnum“, (PM: Það er átt við það, ef fleiri en einn kaupstaður er innan verðjöfnunarsvæðisins). Þá er 2. brtt. I., við 2. gr. Áður voru lagðir til grundvallar 2500 lítrar á hverja kú, og skyldi greiða 50 kr. fyrir hverja þá kú, sem er innan kaupstaðarins, ef ekki er til grasnyt fyrir hana. Hér er þessu ákvæði breytt, en lagt til, að miðað verði við 3000 lítra ársnyt á hverja kú. Það verður til þess, að gjaldið verður a. m. k. 10 kr. hærra fyrir hverja kú en upphaflega, og ef verðjöfnunargjaldið hækkar, þá getur þetta hækkað stórkostlega. Þarf ekki mikið að hækka það, svo að það verði tvöfalt frá því, sem var í frv. upphaflega.

Hér er því kröfum Rvíkinga svarað á sama hátt og Róbóam svaraði kröfum Gyðinga: „Faðir minn refsaði með svipum, en ég mun refsa yður með sporðdrekum“. Nú er sagt: „Upphaflega var í frv. 50 kr. Ef þið eruð ekki ánægðir með það, þá getið þið borgað 100 kr.“ Hér er því bersýnilega stigið spor burt frá samkomulagi við framleiðendur innan lögsagnarumdæmis Rvíkur.

Mér finnst afarkynlega komizt að orði um barnamjólkina. Það er sagt, að nafnið barnamjólk megi ekki viðhafa um aðra mjólk en þessa, sem þar er tiltekið. Viðkunnanlegra væri að segja: „Vöruheitið barnamjólk“. Það er hart, ef ekki má nefna barnamjólk á nafn án þess að sektir liggi við. Ef þetta orð kæmi fyrir í skáldsögu, þá yrði að rannsaka, hvort átt er þar við þá mjólk, sem hér um ræðir. Svipað þessu kom fyrir í öðru frv. nýlega, og þótti þá ómaksins vert að bera fram till. til að leiðrétta það.