14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

5. mál, útflutningsgjald

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. fjhn. gat um við 2. umr., þá er eitt atriði í þessu frv., sem orkar tvímælis og n. tók í raun og veru ekki mjög fasta afstöðu til, enda þótt hún léti ákveðið standa eins og það kom frá Nd. En það er hin mikla hækkun á útflutningsgjaldi af fiskúrgangi, þurrkuðum hausum og beinum óunnum, upp í 3 kr. af hverjum 100 kg. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, rekast hér á tvennskonar hagsmunir, sem þó nokkuð hafa gert vart við sig hér innan þingsins, eins og eðlilegt er. Annarsvegar eru þeir, sem hafa verksmiðjur til að vinna úr þessu hráefni, og hinsvegar framleiðendur beinanna, sem óttast, að svona hár tollur verði til þess, að norsku kaupendurnir gefist upp í samkeppninni og verðið lækki þess vegna, þegar innlendu kaupendurnir eru einir eftir. Þessir tvennskonar hagsmunir, sem sjálfsagt er að reyna að samrýma eftir því, sem mögulegt er, gera það að verkum að hv. þm. eiga nokkuð erfitt með að taka afstöðu í þessu efni. Það er sjálfsagt að gera ekkert til þess, að þessi vara lækki í verði, því hún er að verða talsverður liður í tekjum þeirra manna, sem smærri útgerð stunda. Hinsvegar er ákaflega eðlilegt, að þm. sé unnt um þann innlenda iðnrekstur, sem hér er um að ræða, beinaverksmiðjurnar, því ekki er hægt að neita því, að þjóðarbúið fær talsvert meira fyrir fiskúrganginn, ef hann er unninn innanlands.

Ég felst á að hækka útflutningsgjaldið á beinum eins mikið og hér er um að ræða, vegna þess að ég er sannfærður um, að Norðmenn standa svo miklu betur að vígi heldur en innlendu verksmiðjurnar, að þeir hætta ekki samkeppninni, þó 30 kr. útflutningsgjald komi á hverja smálest beina. Það er sjálfsagt að stilla útflutningsgjaldinu svo í hóf, að innlendu verksmiðjurnar fái nokkurnveginn nóg hráefni, en geti þó ekki vegna samkeppni Norðmanna lækkað verðið. Nú skal ég ekki fullyrða, að 30 kr. gjald á smálest sé einmitt nákvæmlega mátulegt til þess að gera þetta að verkum, en það er tilraun í þá átt.

En svo kemur hér inn í nýtt atriði, og það er það, að á einum stað á landinu, sem hefir mikilla hagsmuna að gæta, frá báðum hliðum, er þessi sama vara skattlögð til hafnarsjóðs og bæjarsjóðs, sem nemur um 18 kr. á smál., að því er mér er sagt. Og ef 30 kr. gjald er hæfilegt til þess að jafna aðstöðu hinna tveggja keppinauta og miðla milli hinna andstæðu hagsmuna innanlands, þá er sjáanlegt, að 48 kr. gjald er útilokandi fyrir samkeppni Norðmanna. Það er því vel skiljanlegt, að hörðust andmæli gegn þessu gjaldi hafa komið frá Vestmannaeyjum. Þar er sú útgerð rekin í stærstum stíl, sem framleiðir þetta hráefni, og þar mundi innlenda verksmiðjan verða nokkuð einvöld um verðlagið, þegar 48 kr. gjald væri komið á smál. allt í allt.

Ég hefi ráðizt í að reyna að bæta úr þessum ágalla með því að bera fram brtt., sem á að koma því til leiðar, að ávallt verði greiddar 30 kr. af smál. af útfluttum beinum, en hvorki meira né minna. Það er gert með því að kveða svo á, að ef þessi vara sé skattlögð til hafnarsjóða eða bæjarsjóða, þá skuli ríkissjóðsgjaldið ekki vera meira en það, sem á vantar 30 kr. útflutningsgjald. Samkv. þessu standa Vestmannaeyingar eins að vígi og aðrir, og finnst mér því, að þeir ættu að geta sætt sig betur við frv. þannig. Þetta gengur auðvitað út yfir ríkissjóðinn, en mér skilst á þeim hv. þm., sem ég hefi talað við um þetta, að þessi skatthækkun sé ekki fyrst og fremst gerð til þess að afla ríkissjóði tekna, heldur til þess að styðja beinaverksmiðjurnar. Ég held því, að till. mín þurfi ekki að stranda á því, að hún minnkar tekjur ríkissjóðs. Ríkissjóður fær eigi að síður mikinn tekjuauka af þessari vöru frá því, sem verið hefir, þar sem útflutningsgjaldið er þrefaldað, en sá er ekki aðaltilgangurinn, heldur að halda vörunni að innlendu vinnslunni.

Það er eins og hv. frsm. sagði, að n. hefir ekki tekið formleg, afstöðu til þessarar till., en af samtali við hv. þm. skilst mér, að hún muni mæta velvilja.