15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

29. ágúst síðastl. var skipuð 5 manna n. af ríkisstj. til þess að rannsaka fjárhag ríkissjóðs og stofnana og fá yfirlit yfir ástand atvinnuveganna í landinu og leggja fram, að rannsókn lokinni, till. til aukningar og eflingar atvinnuvegunum í landinu.

Það liggur í augum uppi, að eigi slík rannsókn að ná tilætlun sinni, er óhjákvæmilegt, að n. eigi óhindraðan aðgang að opinberum stofnunum og embættismönnum þeirra til þess að fá upplýsingar.

Það er einnig ljóst, að n. getur ekki náð tilgangi sínum nema henni sé heimilt að fara eins að við einstaklingsfyrirtæki.

Sjálfsagt er, að á n. hvíli sama þagnarskylda og t. d. á skattan. og öðrum þeim nefndum, sem rétt hafa til þess að safna slíkum skýrslum.

Því hefir verið haldið fram, að með frv. þessu, ef það verður gert að l., sé brotin 34. gr. stjskr. Ég hygg, að slíkar fullyrðingar séu byggðar á misskilningi. Samkv. greininni getur þingdeild veitt þingnefnd rétt til þess að heimta skýrslur af embættismönnum og einstökum mönnum, án þess að setja um það lög. Þegar um slíkar nefndir er að ræða, nægir því ályktun deildarinnar til að gefa nefndum þetta vald.

Að umrædd grein banni að gefa samskonar vald með sérstökum lögum til annara nefnda, virðist mér hin mesta fjarstæða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um frv. að sinni. Ég hygg, að hv. þdm. geti verið mér sammála um, að verkefni þessarar nefndar er mikið og merkilegt, og að hún verði að fá skilyrði og aðstöðu til þess að leysa það sem bezt af hendi.