06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það er orðið alllangt, líklega um 3 vikur, síðan þessi blessuð skepna, sem almennt er kölluð Rauðka, hefir rölt hér um hv. d. Ég var farinn að halda, að hún ætti að fá að hvíla sig og yrði ekki meira leidd inn í hv. d. Við síðustu umr. málsins, sem var útvarpað, voru ýms atriði í ræðum andstæðinganna, sem ég vildi svara.

Þessum útvarpsumr. var þannig hagað, að það varð hlutskipti okkar sjálfstæðismanna að hefja umræður, en hæstv. ráðh. nutu þeirrar sérstöðu að taka síðastir til máls, og var í síðustu ræðunum drepið á ýmislegt, sem ekki var hægt að svara í það skiptið, og verð ég að segja, að mér fannst leitt að sjá, hvernig þessir hv. ráðh. notuðu sér aðstöðu sína í þessum efnum.

Í síðustu ræðu hæstv. atvmrh. voru ýmsar staðhæfingar, sem nálguðust blekkingar og sóma sér illa á þeim vettvangi, sem þær voru fluttar á.

Hæstv. fjmrh. talaði mikið um það í sinni ræðu, að vegna utanríkissamninga og verzlunarástandsins yfirleitt í heiminum væru afskipti hins opinbera nauðsynleg á ýmsum sviðum. Ég býst við, að öllum hv. þm. sé kunnugt um þetta, og því þurfi engar skýringar í þessu efni frá hæstv. fjmrh. Það er ekki svo að skilja, að íhlutun þess opinbera, sem er nauðsynleg vegna utanríkissamninga, valdi nokkrum ágreiningi hér á hv. þingi. Atvikin, sem koma utan að, getum við ekkert við ráðið, og því er ekkert annað að gera í þessu efni en beygja sig undir rás viðburðanna og taka afleiðingunum af þeirri stefnu, sem almennt ríkir í heiminum. Um þetta atriði virðist enginn ágreiningur vera milli flokkanna.

Hæstv. fjmrh. varð mjög tíðrætt um kjöt- og mjólkursölulögin. Ég get ekki séð, hvað sú löggjöf kemur þessari n. við, sem hér um ræðir og þeirri rannsóknarheimild, sem hún á að fá. Þessi löggjöf, sem mikið hefir verið rædd hér í hv. þd., er nú orðin að lögum. Hún kemur verksviði þessarar skipulagsnefndar ekkert við.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að nauðsynlegt væri að hefja nýja markaðsleit fyrir sjávarafurðir og breyta til um verkun fiskjarins. Þetta er líka atriði, sem allir flokkar hér á þingi eru sammála um. Það kemur þessari n. ekkert við. Hæstv. ríkisstj. hefir ekki heldur álitið það koma þessari n. við. Það sýnir frv. um fiskimálanefnd, sem verður til umr. á eftir. Þeirri n. er ætlað að hafa með höndum útvegun nýrra markaða og framkvæmd nýrra verkunaraðferða. Þessi fyrirhyggja skipulagsnefndar fyrir sjávarútveginum réttlætir alls ekki þessa nefndarskipun eða það rannsóknarvald, sem nefndinni er gefið.

Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að hann færði við síðustu umr. þessa máls enga ástæðu fyrir því, hvers vegna ekki var leitað til Sjálfstæðismanna um þátttöku í þessari n. Hann hoppaði í kringum þetta atriði með þeim undarlega hætti að slá því föstu, eftir að andstæðingunum hafði verið varnað máls, að við hefðum gefizt upp við að rökstyðja þetta.

Hæstv. fjmrh. talaði líka um nagdýrshátt, sem hann taldi lýsa sér í pólitískri baráttu sjálfstæðismanna. Þessi hæstv. ráðh. ætti sem minnst að minnast á nagdýrshátt. Ég veit ekki, hverjir hafa sýnt meiri nagdýrshátt í íslenzkri stjórnmálabaráttu en einmitt framsóknarmenn, og þá ekki sízt sá maður, sem hæstv. fjmrh. hefir hlotið sitt pólitíska uppeldi hjá.

Hv. þm. V.-Ísf. leitaðist við að hrekja þá staðreynd í sinni ræðu, að þessi n. ætti að beita sér fyrir þjóðnýtingu. Hann sagði „með gleðibros á vör“ og gleðihreim í röddinni, að hann byggist við, að menn fengju áfram að búa á jörðum sínum og reka fyrirtæki sín. Ég vil minna hv. þm. á það, að hæstv. atvmrh., sem ráðið hefir þessari nefndarskipun, hefir beinlínis lýst yfir því, eins og ég hefi oft minnzt á í þessum umr., að n. eigi að vinna að þjóðnýtingu, og sama hefir blað hans gert. Ef hv. þm. vill staðhæfa, að þessi sé ekki tilgangur nefndarinnar, þá er hann þar með að gera orð hæstv. atvmrh. ómerk og að engu hafandi.

Hv. þm. fór mjög hugðnæmum orðum um þau ágætu frv„ sem fram hefðu komið frá þessi n. (JakM: Heyr á endemi!). Ég verð að segja það, að mér finnst óþarfi að vera að hlaða lofi á nefndina fyrir þau frv., sem frá henni hafa enn komið. Hv. þm. V.-Ísf. og öðrum til leiðbeiningar ætla ég að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessi frv.

Fyrst má minna á frv. um fólksflutninga á landi, sem átti svo að heita. Það fékk ekki meira að standa í því frv. en það, að nákvæmlega hverri einustu grein var breytt af allri samgmn. Nd., bæði af hendi flokksmanna nefndarmanna í skipulagsnefnd og eins af hendi stj.andstæðinga. Jafnvel fyrirsögn frv. fékk ekki staðizt almenna gagnrýni. Fyrirsögnin var um fólksflutninga á landi, en frv. átti ekki að ná t. d. til flutninga á hestum, heldur aðeins að vera bundið við flutninga með bílum. Þessu þurfti vitanlega að breyta í frv. Um þetta frv. má segja í heild, að það er mjög vafasamt, hvort þetta mál er nokkur réttarbót fyrir þjóðina. En það getur verið réttarbót fyrir ýmsa einstaka menn, sem gætu haft einhver áhrif á það, hvernig þessum sérleyfum verður úthlutað, sem í ráði er að úthluta fyrir alla fólksflutninga með bílum.

Þá kem ég að frv. um póst- og símamál. Það er lítið annað en ný lögfesting á gildandi lögum frá 1929. En þótt hér sé ekki um annað að ræða en að miklu leyti upptekningu á gildandi lagaákvæðum, þá er svo illa frá þessu gengið, að hv. samgmn. sá sér ekki annað fært en að taka sig til og breyta næstum hverri einustu grein frv.

Þriðja frv. er um opinberan rekstur. Þetta er eitthvert hégómlegasta frv., sem fyrir þinginu liggur, eins og mun verða sýnt fram á við umr., sem eftir eiga að fara fram. Það hefir í för með sér stofnun 9 nýrra bitlinga. Það á að skipa 3 ráð til þess að hafa eftirlit með rekstri ríkisfyrirtækjanna. Hverju ráði verður ætlað mikið starfsmið, en samt sem áður er ekki gert ráð fyrir því í frv., að störf þessa ráðs verði víðtækari en það, að því nægi að koma saman á fund einu sinni í mánuði. Það sjá allir hversu mikið eftirlit þetta er.

Þá kemur frv. um ferðamannaskrifstofu, þar sem farið er fram á það, að ríkið leggi á sig ný útgjöld við starfrækslu þessarar skrifstofu, sem annars hefir lítið sem ekkert verksvið og ekkert vald.

Ég vona, að hv. þm. V.-Ísf. sjái, hve mikil ástæða er til þess að vera hugfanginn af þessum afkvæmum nefndarinnar, sem enn hafa komið í ljós.

Hæstv. atvmrh. kvartaði yfir því í sinni ræðu, að andstæðingarnir í þessu máli beittu miklum stóryrðum. Ég vil segja það, að ég hefi oft heyrt þennan hæstv. ráðh. halda ræður á meðan hann var í stjórnarandstöðu, og fannst mér það helzt einkenna hans málflutning, hve stórorður hann var oft og tíðum. Ég segi honum þetta ekki til lasts. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi oft verið hneykslaður út frá sínu sjónarmiði, á ýmsu því, sem fram kom hjá andstæðingum hans. Eins er með okkur sjálfstæðismenn. Við hneykslumst á ýmsu, sem fram fer hér í kringum okkur og getum ekki lýst okkar skoðunum nema með nokkuð sterkum orðum. Við viljum standa við þau orð, hvar og hvenær sem er.

Hæstv. atvmrh. vildi gagnrýna þau orð mín, er ég minntist á það í minni ræðu, að þessi rannsóknarheimild skipulagsnefndarinnar gæti verið ránsheimild.

Í 62. gr. stjskr. er eignarrétturinn lögverndaður, ekki einungis eignarréttur á veraldlegum verðmætum, heldur líka andlegum, og þá einnig á lífsreynslu manna og þekkingu þeirra, sem þeir hafa aflað sér með atvinnurekstri sínum. Með þessari rannsóknarheimild er beinlínis leyft að taka hverskonar skýrslur af mönnum, sem þessi n. telur þörf krefja. Þar með er n. að leitast við að seilast eftir verzlunar- og atvinnureynslu manna og þekkingu, til þess að leggja þá þekkingu undir sig án nokkurs endurgjalds. Ég hika ekki við að fullyrða, að það hafi í upphafi verið tilgangur nefndarinnar að ganga mjög langt inn á þessa braut. Þessa staðhæfingu mína vil ég rökstyðja með því að nefna það, að áður en nefndinni var fengin þessi rannsóknarheimild, sem frv. fer fram á, var hún farin að skrifa ýmsum iðnrekendum hér í bænum og krefja þá um mjög nærgöngular skýrslur um atvinnurekstur þeirra. Þessar skýrslur voru þannig lagaðar, að ómögulegt var að skilja þær öðruvísi en að nefndin væri að heimta að fá að vita, hvað þarf til þess að reka slíkan rekstur, sem þessir iðnrekendur hafa með höndum.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að vekja athygli hv. þings á því, hvernig þær skýrslur eru, sem n. krefur smærri iðnrekendur um. N. hefir skrifað þeim öllum sameiginlegt bréf, sem hljóðar svo:

Reykjavík, l5. nóv. 1934.

Skipulagsnefnd atvinnumála er að láta fara fram rannsókn á því, hversu mikils iðnaðar gæti í atvinnulífi þjóðarinnar, með það sérstaklega fyrir augum að undirbúa löggjöf, sem orðið gæti til styrktar slíkum atvinnurekstri. En með því að hér eru ekki til neinar iðnaðarskýrslur enn, leitum vér til iðnrekendanna sjálfra um þær upplýsingar, er oss eru nauðsynlegar. Leyfum vér oss því að mælast til þess, að þér gerið svo vel að gefa oss þær upplýsingar um starfsemi yðar síðastliðið ár, sem hér segir:

Vörutegund eða vörutegundir, er framleiddar eru. Magn framleiðslunnar. Hve mikið af henni er selt á innlendum og hve mikið á erlendum markaði. Hráefni sundurliðuð. Hversu mikið hráefni fer í hverja fullunna einingu. (TT: Menn taki eftir þessu). Hve mikið er innlent hráefni. Verð á hráefni. Hve mikið er greitt fyrir orku.

Starfsmannafjöldi: við framleiðslu, við skrifstofustörf, við flutninga eða dreifingu framleiðslunnar.

Kaupgreiðslur. Heildsöluverð framleiðslu pr. einingu.

Bendingar, sem þér kynnuð að geta gefið um breytingar á núgildandi lögum, er að einhverju leyti snerta iðnaðargrein yðar. Vér væntum þess að mega sem fyrst vænta svars frá yður.

Virðingarfyllst

f. h. Skipulagsnefndar atvinnumála.

Ragnar E. Kvaran (sign)“.

Geta menn hugsað sér, að meira sé hægt að heimta í þessu efni en hér er gert? Hvers vegna er þessa krafizt? Hvers vegna er þess krafizt að fá að vita, hvernig hráefnin eru sundurliðuð, eða hve mikið er af hverri tegund hráefnis fyrir sig í hverri fullunninni einingu. Nefndin er m. ö. o. að biðja iðnrekendur að gefa sér þær formúlur, sem þeir nota við framleiðsluna.

Ég get ekki séð, að þetta hafi neina aðra þýðingu fyrir nefndina en þá, að hún geti sjálf eða fulltrúar hennar orðið færir um að taka upp þennan atvinnurekstur af iðnrekendunum. Og ég leyfi mér að fullyrða, að þetta sé gert í þeim tilgangi.

Af því, hvernig n. hegðar sér þegar áður en hún hefir fengið þá rannsóknarheimild, sem frv. gerir ráð fyrir, er augljóst, að það á við fullkomin rök að styðjast, þegar ég staðhæfi, að þessi rannsóknarheimild nálgist ránsheimild.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að margir af þessum iðnrekendum hafa byrjað starfsemi sína af litlum efnum og lítilli þekkingu. Þeir hafa aflað sér aukinnar þekkingar ár frá ári í starfsemi sinni og aukinnar reynslu. Nú koma fulltrúar stj.flokkanna og heimta þessa þekkingu og lífsreynslu af þeim með einu bréfi.

Það er einnig lýðum ljóst, að margir þessara iðnrekenda hafa orðið að takast á hendur dýrar utanferðir til þess að nema þessar iðngreinir. Hvaða rétt hafa þessir fulltrúar stj.flokkanna til þess að krefja þá um þessa lífsreynslu þeirra?

Hæstv. atvmrh. gerði gys að því, að ég sagði, að það væri ástæða til þess að taka í þessum efnum gaumgæfilega eftir ummælum hv. 2. landsk., sem er reyndur og gamall lögfræðingur. Það var engu líkara en að hæstv. ráðh. yrði afbrýðissamur, þegar ég talaði um, að hv. 2. landsk. væri reyndur lögfræðingur. Hv. 2. landsk. benti á það, að það er hv. Alþ., sem ætlar sjálfu sér það vald að rannsaka einstök málefni, eins og gert er ráð fyrir í 34. gr. stjskr. Hann benti einnig á það, að það vald er ætlað hv. þm. einum. Þessi skipulagsnefnd er hinsvegar skipuð mönnum, sem ekki eiga sæti á þingi og það er einkennilegt, ef hv. þm. geta fyrir sitt leyti samþ. að veita utanþingsmanni þann rétt, sem stjskr. ætlar þm. einum.

Þá sagði hæstv. atvmrh. í sinni síðustu ræðu, að rannsóknarheimild skipulagsn. væri samskonar vald og t. d. milliþn. í sjávarútvegsmálum hefði. Ég vil benda á mismuninn. Milliþn. í sjávarútvegsmálum er ætlað að kynna sér hag sjávarútvegsins eins. Það er samskonar n. og margar siðaðar þjóðir skipa, þegar þarf að rannsaka einstakar atvinnugreinir.

En þessi skipulagsn. á sér enga líka. Hún getur rannsakað allt. Hún er ekki bundin við neitt nema geðþótta nefndarmanna sjálfra.

Ennfremur sagði hæstv. atvmrh., að það ætti að gefa skipulagsnefndinni sömu upplýsingar og menn væru hvort sem er skyldugir til þess að láta skattanefnd í té. Hér er einnig um stórfelldan mismun að ræða. Menn gefa skattanefnd aðeins upplýsingar um efnahaginn og skattanefndin má rannsaka, hvort menn gefa réttar skýrslur. En þessi n. hefir aftur á móti, eins og ég er búinn að taka fram, heimild til þess að leggja undir sig lífsreynslu manna og sérþekkingu þeirra í atvinnugreinum þeirra.

Þá tók hæstv. atvmrh. það fram, að það, að þessir menn, sem n. skipa, væru pólitískir, væri meiri trygging fyrir því, að þeir kæmu sínum málum áfram. Þar með finnst mér hann sanna, að þetta sé pólitísk nefnd, og vald nefndarmanna, og sérstaklega meiri hl. nefndarinnar, sem er skipaður sósíalistum, er í sjálfu sér nægileg sönnun fyrir því, hvert verkefni n. er.

Það hefir nú farið svo, að brtt. hv. þm. V.-Ísf. hefir verið samþ. Hún fer fram á það, að sjálfstfl. sé heimilað að skipa 2 menn í þessa n. Hvort Sjálfstfl. notar sér þessa heimild, er óráðið, en það veitti sannarlega ekki af því, að einhverjir sjálfstæðismenn kipptu í taumana á Rauðku gömlu og reyndu að beina leið hennar í aðra átt. En jafnvel þótt Sjálfstfl. taki þessu boði, er n. samt ranglátlega skipuð. Ef einhver sanngirni ætti að ríkja í skipun n., þá hefði hún átt að vera kosin hlutfallskosningu á Alþingi.

Þá hefði fyrst mátt vænta þess, að landsmenn hefðu tekið vel í starfsemi hennar og reynt, að svo miklu leyti sem ópólitískur alvarlegur tilgangur var bak við nefndarskipunina, að greiða götu hennar, svo að störf hennar mættu koma að sem mestum notum. Nú hefir þetta ekki verið gert, og hvernig sem fer um þátttöku sjálfstæðismanna í n., þá er það víst, að þetta fyrirtæki stj.flokkanna á alltaf tortryggni að mæta af meiri hl. þjóðarinnar.