20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það getur verið rétt að halda því fram, sem báðir hv. dm. hafa talað um síðan ég settist niður, sem sé, að rangt sé að taka upp almennar umr. um sölu þjóð- og kirkjujarða. Ég get ekki séð, að um annað sé frekar að ræða hér. Málið er tvíþætt. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, það er einnig um kaup að ræða. Þess vegna er málið líka tvíþætt, og það verður líka að tala um báða þætti. Hér er um það að ræða, að ríkið kaupi og selji jörð. Það má vera, að hv. þdm. hafi ég þótt færa fullsterk rök fyrir mínu máli, og að þeir óski þess, að þau rök hefðu ekki fram komið. Þetta verður samt svo að vera, fyrst málstaðurinn á svo góð rök.

Ég get sleppt því að tala um gildi þjóðjarðasölu og um það, hvort þau hafi náð tilgangi sínum. Ég sagði aðeins, að reynslan hefði sýnt, að þau hefðu ekki náð tilgangi sínum. Hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. Eyf. sögðu, að ég hefði talið, að þjóðjarðasalan væri til ills eins. Það er ekki allskostar rétt. Hitt viðurkennir hv. 1. þm. Eyf. vafalaust, að þjóðjarðasölulögin hafa ekki náð tilgangi sínum. En þjóðjarðasalan hefir aldrei náð tilgangi sínum af því, að ekki hefir verið hægt að tryggja, að jarðirnar héldust áfram í sjálfsábúð. Hv. 1. þm. Eyf. vildi tryggja það með því, að ríkið keypti þær jarðir, er ganga úr sjálfsábúð. En eina ráðið, sem dugir, er skynsamleg ábúðarlög og ríkiseign á jörðunum. Og ég veit, að ekki líður á löngu þangað til allir komast á þessa skoðun.

Ég skal játa það, að kirkju- og þjóðjarðir voru yfirleitt verr setnar áður fyrr en jarðir í sjálfsábúð. En síðan hlúð var með lögum að leiguábúð á þessum jörðum, eru þær, margar hverjar, fullt eins vel setnar og sjálfseignarjarðir, og þetta hefir sínar eðlilegu orsakir. Margir bændur verja öllum þeim peningum, sem þeir hafa aflað með áralöngu striti, til þess að festa kaup á jörð, sem þeir geta þó alls ekki greitt til fulls og eru að basla við að eignast alla æfi. Bústofninn og búreksturinn sitja á hakanum, og svo gengur þetta lið fram af lið.

Það er rétt, að með því að selja Saurbæ sleppur kirkjujarðasjóður við útgjöld í bili, þar sem 29000 kr. verða innborgaðar strax. En þetta er ekki aðalatriðið. Þessi upphæð gerir ekkert til eða frá um afkomu sjóðsins, og ef það er rétt, sem báðir andmælendur mínir hafa haldið fram, að hagsýni sé í því að kaupa Laugaland, þá aukast tekjur kirkjujarðasjóðs við þau kaup. Ég hygg því, að að fyrstu afborgun lokinni verði ekki mikil fjárútlát fyrir kirkjujarðasjóð að kaupa Laugaland, þótt Saurbær verði ekki seldur.

Ég vil ennfremur minna á það, að á undanförnum þingum hefir meiri hl. þings litið svo á oftar en eitt skipti, að rétt væri að stinga fæti við því, að þjóðjarðir væru seldar. En hér er farið fram á bein fyrirmæli um að selja kirkjujörð. Ég er á móti þeim anda, sem þarna kemur fram gegnstætt við stefnu undanfarinna þinga. Ástæður eru ekki aðrar fyrir þessu en að kirkjujarðasjóður þurfi á þessum 29000 kr. að halda, en þær ástæður get ég ekki talið svo mikils virði, sízt þar sem telja má víst, að tekjur kirkjujarðasjóðs aukist við Laugalandskaupin, að Alþingi eigi þess vegna að hvika frá réttri stefnu í þessu máli.