20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil, vegna þess inn á hvaða braut umr. eru komnar, láta það í ljós, að ég álít ekki, að atkvgr. um þetta mál þurfi að gefa neitt til kynna um afstöðu manna til þjóðjarðasölunnar yfirleitt eða jarðakaupa ríkisins. Ég álít verðið á þeirri jörð, sem hér er um að ræða, allt of hátt til þess að hægt sé að ganga inn á jarðakaup af ríkisins hálfu almennt á þessum grundvelli. En hér er ætlazt til, að seld verði kirkjujörð í staðinn, fyrir 29000 kr., sem er að vísu líka of hátt. Ef ríkið fer almennt inn á slíka braut í jarðakaupum, yrði það að kaupa jarðirnar hærra verði en líkur væru til, að þær gætu rentað sig fyrir, og hvaða skoðun sem ég hefi á jarðakaupum ríkisins, get ég ekki verið því samþykkur að fara inn á þá braut.