22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Bjarni Bjarnason:

Fyrir mér hefir þetta mál aðeins vakað sem sanngirnismál. Þess vegna greiddi ég atkv. með þeim brtt., sem fram komu við 2. umr. málsins. En sé það svo, að skylda sé að úthluta uppbótinni í sama hlutfalli sem afli manna hefir verið, finnst mér það vafasöm sanngirni.

Ég skal játa, að það er algild regla; sem margir viðurkenna, að þeim mun meira, sem aflað er, þeim mun meira eigi að fást í aðra hönd. Ég held, að þetta sé einkunnarorð sjálfstæðismanna, þó þeir hafi tekið upp aðra skoðun í þessu máli. En ég felli mig vel við málafærslu þeirra í þessu sambandi og mun fylgja till. hv. 8. landsk.

Það, sem hér skiptir mestu máli í afgreiðslu þessa máls, er það, hverju hefir verið lofað og hvað skylda er að gera samkv. því. Mér hefir borizt það til eyrna, að sjómenn séu lögskráðir upp á það að fá endurgreiðslu í sama hlutfalli eins og afli þeirra yrði. Ef þessu hefir verið lofað, þá horfir málið öðruvísi við. Við höfum hér í d. útgerðarmenn og lögfræðinga, og væri því ekki úr vegi að fá skýringu hjá þeim, hvort sjómenn geti höfðað mál út af þessu. Ef þeir geta það, þá er ekki til neins að afgr. málið eins og ég óska eftir, á grundvelli sanngirni. Mér finnst, að við verðum að fá þetta ráðið, því ef útgerðarmenn hafa lofað sjómönnum þessu, þá er ekki rétt að svíkja þá, en þá verð ég að hverfa frá því að líta á þetta mál frá því sjónarmiði, sem ég hefi gert, að þeir fengju meira hlutfallslega, sem minnst höfðu kaupið. Meðan ekki eru komnar gleggri skýringar á því, að það sé skylda, lagalega og loforðslega, að greiða uppbótina í hlutfalli við aflann, mun ég halda mér við sama hugsunargang og við fyrri umr. og greiða atkv. með brtt. hv. 8. landsk.