24.10.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara langt út í þá sögu, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér, en það er kunnugt af blaðadeilum, hvernig þetta mál er til komið. Það var stofnað til einskonar verkalýðssamtaka um það að ráða sig á skipin með því skilyrði, að síldarverðið yrði miðað við 7 kr. á tunnu. Og þegar þessi samtök höfðu verið treyst allmikið, kom upp sá beiski sannleikur, að menn myndu yfirleitt ekki gera út, ef ganga þyrfti að þessu verði. Þá var það eitthvert uppfinningasamt höfuð, sem fann það upp, að jafna þessa deilu þannig, að fella niður síldartollinn og endurgreiða hann á þessu ári. Það mun nú hafa verið efst í hugum manna, þótt þetta væri sett inn í samningana, að þetta væri einskonar „snuð“, sem væri stungið upp í menn, án þess að menn gerðu sér vonir um að það myndi hafast fram. En svo hagaði lukkan því svo, að Alþfl. komst í þá aðstöðu að hafa í hendi sér, hvort mynduð yrði stj., og þá mun þetta atriði hafa verið sett í samninginn milli þessara flokka og Framsóknarflokkurinn neyddur til að ganga inn á þá fordæmalausu braut að fara að endurgreiða toll, sem er löglega í ríkissjóðinn greiddur. Nú vil ég segja það fyrir mitt leyti, að ég hefi ávallt verið fylgjandi því, að tollurinn væri lækkaður. Það hefir ekki náð nokkurri átt, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, hve hár þessi tollur hefir verið, enda — eins og hann gat um — miðaður við atvinnurekstur útlendinga, að greiða 1 kr. toll af tunnunni. En fyrr má nú vera, að eitt skattgjald sé lækkað með l. en að gripið sé fram fyrir sig og tollurinn endurgreiddur. Það er farið fram á að fella niður 25% gengisviðauka á kaffi og sykri, en ég veit ekki til, að fé eigi að endurgreiðast. Ég held ekki, að fordæmi sé fyrir því, að svo mikið liggi á að lækka eitthvert skattgjald, sem ekki hefir fengizt lækkað á undanförnum þingum, að það þurfi að endurgreiðast fyrir heilt ár. Svo bætist það ofan á, sem hv. 2. þm. Rang. gat um, að alveg er eins dæmi, hvernig á að endurgreiða þetta. Hér er ekki um neina endurgreiðslu að ræða, heldur er tollurinn innheimtur og jafnhá upphæð veitt til einnar stéttar manna, sem engar sannanir liggja fyrir um, að hafi borið skarðari hlut en ýmsir aðrir. T. d. er eitt, sem ég vil benda á viðvíkjandi tölum hv. 4. þm. Reykv., að þótt sumarkaupið hafi verið rýrt, þá er ekki upplýst um, hvernig afkoma þessara sömu manna hefir verið aðra tíma ársins. Því að það er auðvitað, að ef gripið er til þeirra ráðstafana að greiða fé úr ríkissjóði til launauppbótar einhverjum ákveðnum atvinnustéttum, þá verður að vera til þess brýn ástæða, ef ekki á að skapast hættulegt fordæmi. — Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en vildi einungis láta þessi orð fylgja. Þessar tölur eru fáar, sem hér liggja fyrir til upplýsinga, og það þurfa að liggja fyrir drjúgum greinilegri upplýsingar áður en hægt er að ákveða að leggja út á þessa braut, og úthlutunaraðferðin er ákaflega varhugaverð.