12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Áður en mál þetta fer út úr d. vil ég víkja nokkrum orðum til hæstv. stj., því að hæstv. atvmrh. lét þau orð falla við 2. umr. þessa máls hér í d., að óvíst væri, hvort hægt yrði að kaupa verksmiðju þessa, þótt frv. yrði samþ. Ég veit ekki, í hvernig ástandi verksmiðja þessi er, því að ég hefi ekki skoðað hana, en hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir, að hún myndi fást fyrir 40 þús. kr. Jafnframt gat hans þess, að enda þótt ríkið keypti hana ekki, þá myndi hún samt verða starfrækt áfram af núv. eiganda hennar. Hinsvegar gerði hann ráð fyrir, að það yrði að endurbæta hana til muna, ef ríkið keypti hana. Í þessu finnst mér ósamræmi hjá hæstv. ráðh.

Eins og ég tók fram, er ég ekki kunnugur þarna, en fólkið á Raufarhöfn óskar eftir, að þessi kaup verði gerð. Og við kosningarnar í vor voru allir flokkar á einu máli um það, að nauðsyn bæri til að gera þessi kaup vegna atvinnu fyrir þorpsbúa. Ég vænti nú, að hæstv. stj. athugi þetta með velvilja, og starfræki verksmiðjuna áfram án þess að leggja mikið fé til umbóta á henni, því að það virðist ekki ástæða til þess, frekar en þó hún sé einkaeign.