16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

64. mál, sala á eggjum eftir þyngd

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á þá breyt. á l. frá 1912 um sölu á eggjum, að úr þeim sé numin heimildin til þess að salan geti farið fram eftir tölu. Það liggur í augum uppi, að þar sem egg geta verið mjög misjöfn að þyngd, frá 40 og upp í 60 gr., og eru þá teknar tölur, sem báðar eru algengar, þá er ósanngjarnt, að þau séu seld öll með sama verði. Það er réttlætismál bæði gagnvart kaupanda og seljanda, að þau séu seld eftir þyngd einungis. Auk þess hefir þetta almenna þýðingu fyrir eggjaframleiðendur á þann hátt, að það verður mönnum hvöt til þess að framleiða sem stærst egg og stuðlar þannig að aukinni og bættri framleiðslu. Þess vegna finnst mér, að allir ættu að geta orðið sammála um þetta mál, og það þurfi því ekki að tefja þingstörfin mikið. Legg ég til, að því verði vísað til landbn.