12.11.1934
Neðri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Sigurður Einarsson:

Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. 1. flm.brtt. á þskj. 303 og 403, að það er mikils um vert, að þær nái samþykki hv. þd. Sem kunnugur maður um þær slóðir, er hér um ræðir, get ég borið um, að það skiptir mjög miklu máli fyrir héruðin umhverfis Breiðafjörð, að ekki verði dregið úr siglingasamböndum þeirra við Reykjavík. Og hér er um svo lítinn styrk að ræða úr ríkissjóði, sem þessar sýslur fá til Suðurlandsferðanna, samanborið við strandferðastyrk til annara héraða, að það er ekki nema sjálfsögð öryggisráðstöfun, að tryggja þeim með lögum þær samgöngubætur, sem þessi brtt. áskilur, þannig að þessar skipaferðir frá Reykjavík til Breiðafjarðar komi að sem beztum notum. Það er mjög þýðingarmikið atriði, að frá þessu sé gengið með lagaákvæði, eins og hv. þm. Snæf. tók réttilega fram, en að það sé ekki háð fjárlagaákvæðum í hvert sinn, eins og hv. samgmn. hefir lagt til. — Það er hugsanlegt, að ef útgerðarfélagið Skallagrímur fær mjög takmarkaðan ríkisstyrk í fjárl. til þessara ferða, þá telji það sér ekki skylt og sjái sér heldur ekki fært að halda þeim uppi. En ef félagið verður að lögum skyldað til að gegna þessum ferðum, þá mun við ákvörðun fjárlaga jafnan verða tekið tillit til þeirra kvaða, sem á félaginu hvíla, þannig að því verði eigi stofnað í hættu. Af þessum ástæðum álít ég, að það skipti talsverðu máli, að þessi brtt. verði samþ.