29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Torfason:

Ég á hér brtt. við fjárlfrv., á þskj. 602, um að auka tillagið til bryggjugerða og lendingarbóta um 20 þús. kr. og að við liðinn bætist þessi aths.: „20000 kr. til sjóvarnargarðs á Eyrarbakka“. Ég skal geta þess, að í prentun er nú vatill. við þennan lið, þess efnis, að þetta sé veitt gegn jöfnu framlagi annarsstaðar frá. Það er fyrir þá sök, að í l. um lendingarbætur á Eyrarbakka frá 8. sept. 1931 er gert ráð fyrir, að framlagið úr ríkissjóði til þessara lendingarbóta verði helmingur á móti tillagi annarsstaðar frá. Samkv. bráðabirgðaákvæði í þessum l. hafa þegar verið veittar um 19 þús. kr. til þess að byggja sjóvarnargarðinn þar. Samkv. áætlun á hann að verða 500 m. á lengd, og af því er nú búið að byggja fulla 300 m. Alls var áætlað, að garðurinn mundi kosta um 80 þús. kr., svo að það lítur út fyrir, að þessi áætlun ætli að standast. Þetta, sem gert hefir verið, hefir komið að góðum notum þannig, að nú má kallast öruggt, að höfnina kefji ekki af sandi. Hinsvegar er þeim tilgangi ekki náð, sem annarsvegar var ætlunin, að taka fyrir straum, sem er úr ánni inn á svo kallað Bússusund. Þvert á móti hefir við garðbygginguna straumurinn orðið þar meiri en áður. Það verður því ekki hjá því komizt að lengja garðinn eins og upphaflega var ætlunin að hafa hann. Verk þetta hefir sótzt vel, eftir efnum og ástæðum, svo að vitamálastjóri og aðrir hafa játað, að vel hafi verið unnið þar.

Skal ég í þessu sambandi geta þess, að sýslusjóður Árnessýslu veitti 8 þús. kr. til þessa fyrirtækis, og með því er sýnt, að þessi garður er ekki sérstaklega byggður fyrir einn hrepp, heldur miklu fremur fyrir alla sýsluna, því að Eyrarbakki er verzlunarhöfn Árnessýslu og nokkurskonar hafnarborg fyrir verzlunina á Selfossi, en þar er, eins og kunnugt er, miðdepill sýslunnar, og þangað liggja allar götur. Ég vonast til þess, að þessu verði vel tekið og ekki verði látið viðgangast, að ríkisvaldið verði þess valdandi, að hætt verði þarna við hálfnað verk.

Hér liggur fyrir brtt. frá fjvn., sem ég vildi leyfa mér að taka dálítið til athugunar. Það er 9. brtt., við 10. frvgr., þar sem farið er fram á, að skrifstofufé til ríkisféhirðis verði lækkað úr 35 þús. kr. og niður í 30 þús. kr. Hæstv. fjmrh. hafði ekki séð sér fært að lækka þetta tillag, og má hann þó eiga það, að hann hefir klipið af útgjöldum ríkisins alstaðar þar, sem hann hefir treyst sér til að gera það. Ég verð því að halda, að þessi brtt. hljóti að byggjast á misskilningi hjá meiri hl. fjvn. Ég skal geta þess, að ríkisféhirðisstarfið skiptist í tvær deildir. Annarsvegar er hið eiginlega ríkisféhirðisstarf, og þar er ríkisféhirðir, sem hefir 4,1 þús. kr. laun, og fulltrúi, sem ríkisféhirðir hefir haft um langa stund, og svo 4 stúlkur, sem hafa 200—300 kr. laun hver. Þessu starfi fylgir afarmikil ábyrgð, og það hefir ætíð verið talið sjálfsagt að launa slík störf sæmilega. Við þurfum ekki annað en að líta til bankanna, hvernig þeir launa slíkum starfsmönnum. En sérstaklega hefir það verið ófrávíkjanleg regla, að láta þá menn, sem mikið fé hafa með höndum og mikil ábyrgð hvílir á, fá nauðsynlega aðstoð, til þess að verk þeirra geti verið vel af hendi leyst.

Ég veit til þess, að ríkisféhirðir hefir haft fulltrúa. Og það er nauðsynlegt, að ríkisféhirðir hafi hann, bæði í veikindum, sem fyrir kunna að koma, og eins þegar ríkisféhirðir þarf nauðsynlega að bregða sér frá. Ég tel varla skammlaust, að ríkisféhirðir hafi ekki fulltrúa, sem hafi svo sæmileg laun, sem með þarf til þess, að það sé nokkur von til þess, að hann verði fastur í stöðunni. Það er afaróheppilegt, ef oft þarf að skipta um menn í slíkum stöðum sem þessum, og getur við það ýmislegt komizt á ringulreið. Gæti þá svo farið, að árangur af sparnaðartilraunum í þessu efni yrði minni en enginn.

Ég býst nú við, eins og ég tók fram, að þessi brtt. sé á misskilningi byggð, og að hæstv. Alþ. samþ. hana því ekki. Ef hæstv. Alþ. samþ. þessa eða þvílíka till., þá legði það þar með út á braut, sem getur verið hættuleg og fer algerlega í bág við þá stefnu, sem þingið hefir haft um slíkt hingað til. Það má ekki vera hægt að segja síðar meir, að þingið hafi stutt að því, að trygging fyrir því, að ríkissjóði sé sæmilega borgið í höndum þeirra, sem um hann eiga að fjalla, rýrist að mun. Og komi þar nokkuð fyrir, sem ekki á að vera, vegna þess að það samþ. þessa brtt., þá má það sér sjálfu um kenna. Hvað mig snertir, þá vil ég ekki neina ábyrgð hafa á því.