19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Þetta frv. er flutt í hv. Nd. og er komið hingað þaðan. Eins og sjá má í grg. fyrir frv., þá eru þau tildrög til, að frv. þetta er fram komið, að allmikil umkvörtun hefir komið frá Spánverjum um mat á fiski hér. Frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlað að bæta úr þessu á þann veg, að skipaður sé sérstakur fiskimatsstjóri, sem verði yfirmaður allra fiskimatsmanna hér á landi. Eins og geta má nærri, þá verður sá maður að afla sér þekkingar á kröfum þeim, sem neytendurnir gera til fiskjarins, því að án þess er ekki hægt að gera ráð fyrir, að bætt verði úr þeirri vöntun, sem nú er á því, að kröfum neytendanna sé fullnægt. Hinsvegar er það svo, að ríkið hefir nú starfsmann suður á Spáni, sem situr þar til þess að gæta hagsmuna okkar, og ég hygg, að til hans sé venjulega leitað um aðfinnslur á vörunni, þegar þær eru gerðar af neytendum. Af þessum sökum hefir meiri hl. sjútvn. litið svo á, þótt hann viðurkenni, að það þurfi að bæta úr í þessu efni, að fiskifulltrúinn á Spáni sé eins og nú stendur allra manna kunnugastur þeim kröfum, sem neytendurnir gera um breytingar á matinu. Af þessum ástæðum hefir meiri hl. n. flutt á þskj. 476 brtt. við frv., sem heimilar atvmrh. að fela fiskifulltrúanum á Spáni þetta starf.

Ég held, að því verði ekki á móti mælt, að nú sem stendur eigum við engan mann, sem er jafnkunnugur kröfum neytenda eins og fiskifulltrúinn á Spáni. Ég held þess vegna, að með því — a. m. k. fyrst um sinn — að fela þessum manni yfirumsjón með þessu, þá fáist árangur fyrr, því að ég held, að þótt við tökum okkar bezta mann hér heima, sem ég get ekki sagt hver er, og það hefir ekki komið fram undir umr. þessa máls um neinn sérstakan mann, sem hafður sé í huga, að það hljóti alltaf að taka nokkurn tíma fyrir hann að kynna sér kröfur neytendanna eins vel og fiskifulltrúinn á Spáni hefir nú gert.

Þess vegna álít ég, að þótt maður geri ráð fyrir, að þessi lög gangi í gildi og matsstjóri verði skipaður, sem færi suður til Spánar til þess að undirbúa sig undir þetta starf, því að það byggist á því, að hann viti, hvað það er, sem fullkomna þarf í matinu, að næsta sumar þegar fiskimatið byrjar á ný verði hann tæplega eins vel undir það búinn eins og fiskifulltrúinn á Spáni er nú þegar. Ég held því, að það sé í alla staði æskilegt, að þessi brtt. okkar, sem snertir þá heimild að fela fiskifulltrúanum þetta starf, sé samþ., því að hún er tvímælalaust til bóta, bæði af því, að þá megum við vænta árangurs fyrr, og einnig af því, að það gæti sparað fé — þó höfum við ekki lagi aðaláherzluna á það —, því að það spöruðust alltaf laun fiskimatsstjóra og að mestu leyti skrifstofukostnaður hans hér heima, sem óhjákvæmilega yrði að vera nokkur. Ferðalög til Spánar og heim aftur eru náttúrlega jafndýr fyrir hann eins og þann mann, sem situr á Spáni. Við leggjum samt ekki aðaláherzluna á fjárhagshlið þessa máls, heldur hitt, að við teljum, að með þessu fyrirkomulagi fáist skjótari og betri árangur og ágöllunum verði kippt fyrr í lag. Annars held ég, að miklu meira hafi verið gert úr þessum aðfinnslum heldur en ástæða er til. Eftir því, sem ég hefi kynnt mér málið, þá hafa aðfinnslurnar að mestu leyti byggzt á því, að óeðlilega mikil undirvigt hefir þótt koma fram á fiski, sem er á vissu verkunarstigi, og það þarf sannarlega ekki að setja sérstakan embættismann til þess að lagfæra þetta.

Þessi vöntun á fullkominni vöruvöndun, undirvigtin, getur orsakazt af tveimur ástæðum. Ástæðan, sem ég vil telja fyrr, er sú, að þessi fiskur er það linþurrkaður, að hann getur gefið frá sér vatn og létzt, og þá einnig á þann hátt, að hann verði fyrir of miklum þunga. Ég hygg, að nokkuð af undirvigtinni sé af þessum orsökum. Það má kannske segja, að þegar fiskurinn er á þessu verkunarstigi, sé erfitt að fyrirbyggja þetta og þá þurfi hann að vera vel vigtaður, nfl. að vigta vissa prósentu fram yfir í hvern pakka. Þetta virðist vera hægt að lagfæra án þess að skipa sérstakan yfirmatsstjóra.

Hin ástæðan, sem ég held, að geti valdið þessari undirvigt, er sú, að vogirnar, sem notaðar eru til að vega fiskinn, hafa ekki verið í lagi, og mun það að nokkru leyti stafa af því, að eftirlitið með þessum áhöldum hefir ekki verið nægilega gott, og að nokkru leyti af því, að vogir, sem notaðar eru til að vega saltfisk, endast mjög illa. Það vita allir. Saltið hefir þau áhrif á þá hluta í voginni, sem mest reynir á, að þeir ryðga, og vogin verður fyrir það furðu fljótt ónákvæm. Úr þessu mætti bæta með því, sem vikið hefir verið að í umr. um þetta mál, að láta hvern matsmann hafa tæki til þess að sannreyna vogirnar í hvert skipti. Þær aðfinnslur, sem byggjast á ófullkomleika í þessu efni, krefjast þess ekki, að skipaður sé sérstakur yfirmaður yfir fiskimatsmönnum.

En það eru aðrar og fleiri aðfinnslur, sem komið hafa fram viðvíkjandi fiskimatinu, sem eru að vissu leyti alvarlegri. Það hefir komið fyrir, að matsmenn hafa metið fisk, sem svo við endurmat skömmu síðar hefir reynzt annarar tegundar heldur en fyrra matið gaf til kynna. Þetta er auðvitað alveg ófært og má ekki koma fyrir. Mér virðist nú, að ástæðan fyrir því, að slíkt kemur fyrir, sé sú, að yfirmatsmaður hafi í þessum tilfellum ekki gætt skyldu sinnar til hins ýtrasta. Ég vil ekki halda, að þetta hafi verið ófullkomleiki, sem komið hafi fyrir aðeins einu sinni hjá undirmatsmönnum. Ég held, að starfi þeirra sé ábótavant vegna þess, að ekki sé nóg eftirlit með þeirra mati. Reyndar getur vel verið, að staðið hafi öðruvísi á í þessu tilfelli, þannig lagað, að með mesta móti hafi verið metinn fiskur á þessum stað í þetta skipti, svo að á undirmatsmennina hafi ekki reynt mikið á undanförnum tímum, áður en þetta kom fyrir. Um þetta veit ég ekki, en mér virðist þetta hugsanleiki. En á öllu slíku verður yfirmatsmaður í hverju umdæmi að hafa stöðugar gætur, og ég held, að það, sem okkur ríður mest á í þessu matsmáli, sé að velja góða menn í stöðurnar og að þeir gegni störfum sínum samvizkusamlega. Ég efast ekki um, að margir þeirra muni gera það. En þegar veilur koma fram í matinu, þá finnst mér það vera ábending um það að yfirfiskimatsmenn séu ekki nógu vel á verði. Ég vil taka þetta fram af því, að ég legg ekki eins mikið og margir aðrir upp úr því atriði, að yfirmatsstjóri verði sú óbrigðula trygging fyrir því, að matsmenn hér heima leysi starf sitt vel af hendi. Ég álít, að ef við höfum vel færa og duglega yfirfiskimatsmenn, einn í hverjum landsfjórðungi, þá sé það eins mikil trygging fyrir góðu fiskimati eins og þó að einn yfirmaður væri settur yfir þá alla.

Þá er hins einnig að gæta, að matið verður á hverjum tíma að byggjast á kröfum neytenda. Þetta viðurkenna allir. Þess vegna geng ég inn á, að málið verði leyst á þennan hátt, en þó með þeim varnagla, að heimilað verði að fela fiskifulltrúanum á Spáni þessa yfirstjórn fiskimatsins. Ég lít svo á, að hann geti manna bezt leyst þann hluta þessa starfs, sem snýr að neytendunum. En við höfum hinsvegar yfirmenn hér heima til þess að sjá um, að settum reglum um matið verði fylgt. Ég get sagt það viðvíkjandi þeim landsfjórðungi, sem ég þekki bezt til, Austfirðingafjórðungi, að þar hefir til skamms tíma verið mjög árvakur yfirfiskimatsmaður, og hann hefir sýnt það, að hann er vel fær um að fullkomna matið í sínu umdæmi og halda því í samræmi. Og það, sem einum yfirfiskimatsstjóra getur tekizt í þessu efni, það getur einnig öðrum slíkum tekizt, ef þess er gætt, að mennirnir ekki staðni í starfinu.

Ég vil eindregið mæla með því, að brtt. okkar meirihlutamanna í sjútvn. við frv. verði samþ. Eins og menn sjá, er þar að ræða aðeins um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fela fiskifulltrúanum á Spáni nokkuð af þessu starfi, og þá heimild ætlast ég til, að ríkisstj. noti til að byrja með. Ef eitthvað kynni svo að koma í ljós, sem stríddi á móti því, að ráðstafanir samkv. mínum núv. skoðunum um þetta gætu fullnægt þörf, þá yrðu samt með brtt. meiri hl. sjútvn. samþ. l. um, að stj. gæti skipað sérstakan mann annan til að gegna þessu starfi, og þá ætti að vera búið að undirbúa hann til starfsins.

Smábreyt. aðrar eru hér gerðar í brtt. meiri hl. n., sem ég býst við, að valdi ekki miklum ágreiningi. Brtt. okkar gerir ráð fyrir, að bætt verði inn í frv. nýrri mgr. um það, að matsstjóri megi ekki reka eða vera hluthafi í neinskonar fiskverzlun, fiskverkun eða útgerð. Ég geri ráð fyrir, að allir gangi inn á, að þar sem um jafnmikið trúnaðarstarf er að ræða og þetta, þá sé það mjög hættulegt fyrir ríkið og þá, sem njóta eiga starfs þessa manns, að hann sé riðinn við slík fyrirtæki, því að það gæti vakið tortryggni gagnvart honum. Og það er því engu síður gott fyrir þann mann, sem skipaður verður í starfið, að þetta sé tekið fram. Að síðustu höfum við gert þá brtt., að launin skuli vera 8 þús. kr. á ári, en í brtt. okkar er ekki ákveðin nein dýrtíðaruppbót. Ég lít svo á, að dýrtíðaruppbótin sé mörgum hneykslunarhella, og ég álít, að fyrir svona starf eigi að ákveða sæmileg laun og láta svo sitja við það. Ég álít, að 8 þús. kr. séu sæmileg laun þegar allur ferðakostnaður og skrifstofukostnaður greiðist úr ríkissjóði.