19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki getað sannfærzt af ræðu hv. þm. N.-Ísf., en hann heldur því fram, að ekki sé hægt að sameina starf fiskimatsstjórans og fiskifulltrúans á Spáni. En því er nú ekki slegið föstu, heldur gert ráð fyrir því sem möguleika. Ég veit, að við í fjvn. verðum varir við, að því verður veitt eftirtekt, að stofnað er embætti með 8 þús. kr. launum samtímis sem gerðar eru kröfur til þess að lækka há laun. Það er þó ekki aðalatriði, að þessi launahæð stingur í stúf við önnur störf þingsins á því sviði.

Því er haldið fram af helztu mönnum Fiskifélagsins, sem tala sem fagmenn á þessu sviði, að þetta form sé vafasamt, og verði ekki hægt að hindra það, að þetta verði skoðað sem tveir aðilar, fiskimatsstjórinn og fiskifulltrúinn, og verði þetta því tveir dómstólar, sem rekist á. Og gæti því leitt glundroða af þessu. En úr hópi þeirra, sem fást við fiskimat, er þetta álitið vafasamt. Ég ætla að upplýsa það, sem ég hygg, að geti sannfært suma um það, að rök hv. þm. N.-Ísf. séu ekki góð. Ég ætla þá að skýra frá því, hvernig þessu starfi þarna suður frá hefir verið háttað frá byrjun, og sýna fram á, að það sé lítil ástæða til þess að halda því óbreyttu. Fyrsti sendimaður okkar bjó í Genúa, og var það vel greindur maður með mikla málakunnáttu, en hafði enga sérþekkingu á fiskimálum. Og er óhætt að fullyrða, að fyrsti erindreki okkar suður frá leit á þetta starf sem almennt konsúlsstarf. Þegar hann féll frá, var valinn maður með mikla verzlunarþekkingu og einnig með þekkingu á fiskimálum. Þessi maður var Helgi Guðmundsson núv. bankastjóri. Hann flutti yfir í Barcelona og dvaldi aðallega í þeim bæ, en fór lítið yfir til Ítalíu. Eftir 1½ ár í Barcelona hafði hann lært tungu Spánverja og kynnzt vel ástandinn í Barcelona, tekið sér ferð á hendur um allan Spán og kynnzt mörkuðum, og var hann orðinn ágætlega kunnugur á Spáni um það bil, sem hann fluttist heim. Og ef hann hefði getað ferðazt meira, þá hefði starf hans getað borið mikinn árangur, en það er einmitt það, sem við hv. þm. N.-Ísf. ætlumst til, að sendimaður okkar suður frá sé mikið á ferðalagi. Þegar þessi erindreki vildi flytja heim, var í hans stað skipaður Helgi Briem, duglegur og vel menntaður maður, en með enga sérstaka þekkingu á fiskimálum, og stóð hann að því leyti líkt að vígi og fyrsti erindreki okkar. Helgi Briem var svo nokkrar vikur í Barcelona, lærir málið og tekur sér svo ferð á hendur um Spán og Portúgal og fær þá strax yfirlitsþekkingu í þessum málum. Síðan kom hann aftur til Barcelona, en þá gaf fyrrv. landsstjórn honum skipun um að ferðast ekki nema með leyfi. Hann fór fram á leyfi til þess að fara til Ítalíu, en honum var ekki leyft það. Nú vill svo til, að ég hefi kynnzt því, hvernig Helgi Briem tekur sína aðstöðu. Hann hefir ekki ferðazt um markaðslöndin, en kom einu sinni heim og fór á verstöðvarnar, og hefir hann með þessu fullnægt ákvæðum gildandi l., en þar er ætlazt til, að hann komi einu sinni heim á ári, líkt og er í till. meiri hl. sjútvn. Ég hygg, að það hafi verið dýr ráðstöfun hjá stjórninni að óska ekki eftir því, að þessi liður væri framkvæmdur, að fiskifulltrúinn kæmi heim einu sinni á ári. Mér er persónulega kunnugt um, að það var Kristján Bergsson, sem ýtti undir það, að fiskifulltrúinn kæmi heim þessa einu ferð. Helgi Briem hefir því verið að mestu leyti í Barcelona og farið á hverjum degi í pakkhúsin og kynnzt allri meðferð fiskjarins og kynnzt fiskikaupmönnunum. Ég man ekki, hvort hann hefir einu sinni farið til Bilbao. Ég held, að það sé almennt álitið, að Helga Briem hafi á stuttum tíma tekizt að fá yfirgripsmeiri þekkingu á íslenzkum fiski og þeim fisksölumöguleikum, sem eru í Barcelona, og nú er bann orðinn fær í tungu þjóðarinnar og mjög vel kunnugur þessari verzlun á Spáni. Það væri enn betra, ef hann mætti ferðast meira um á Spáni og Ítalíu.

Ég vil nú taka það fram, að fiskifulltrúinn á Spáni hefir skrifað ýmsar leiðbeiningar í tímaritið „Ægi“ um það, hvernig Spánverjar líta á fiskinn. Víða á landinu hafa smáútgerðarmenn fylgt þessum skýrslum með mikilli athygli og þótt vera mikið gagn að þeim leiðbeiningum, sem þeir hafa fengið þar. Ennfremur hefir þessi fulltrúi, ásamt Kristjáni Bergssyni forseta Fiskifél. Íslands og öðrum áhugasömum fiskileiðtogum, átt þátt í því að koma á eigendamerkingu á allan fisk. Helgi Briem álítur, að það eigi að láta hvern mann bera ábyrgð á sínum fiski. Það sé bezta aðferðin, sem hægt sé að nota til þess að tryggja markaðinn, því að það er rétt, sem hv. 1. Skagf. benti á, að það hefir borið á því, að fiskurinn hafi verið skemmdur, þegar hann kemur þangað suður. Þess vegna má fullyrða, án þess að ég sé að slá neinu föstu í þessu efni, að heppilegt væri, að ríkisstj. í sameiningu við matsstjóra stuðlaði að því, að fiskifulltrúastarfið í Suðurlöndum yrði ekki haft mjög bundið. Ég er viss um, að Helgi Briem er mjög vel fallinn til þessa starfs. Hann þekkir vel til í Suðurlöndum, skilur málið og getur jafnframt komið fram gagnvart fiskiframleiðendum hér heima. Ég vil ennfremur benda á það, sem við höfum dálítið talað um í skipulagsnefndinni, en ekki gert ákvarðanir um, sem bendir í sömu átt. Við finnum þar, eins og aðrir hv. þm., að þar sem takmarkanir hafa verið settar á Spáni, þýðir ekki annað en að reyna að afla nýrra markaða í Mið-Evrópu fyrir hraðfrystan fisk. Í raun og veru er vel hægt að sameina það, að sá maður, sem er fiskifulltrúi landsins erlendis, sé látinn ferðast um Ítalíu, Spán og Portúgal, til þess að halda við samböndunum, í stað þess að vera, búsettur í einni borg. Ef til vill gæti hann líka brotið ísinn og verið yfirumsjónarmaður við þær tilraunir, sem verið er að gera í Mið-Evrópu með frysta fiskinn okkar. Það getur vel verið, að mönnum finnist þetta meira en svo, að einn maður geti afkastað því, og ég játa, að síðari till. er ekki til umr.

Ég ímynda mér nú, að hv. þm. N.-Ísf. líti a. m. k. svo á, að kraftar fiskifulltrúanna okkar á Spáni séu misnotaðir, ef þeir eru alltaf búsettir í sömu borg og gefst ekki kostur á að ferðast nægilega um. Þeir komast ekki í kynni við nógu marga með því móti, og þeir geta því ekki fullnægt nægilega þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. Þessum mönnum er ekki um að kenna, þótt ekki sé allt eins og það ætti að vera, vegna þess að þeirra starfstilhögun hefir verið svipuð ræðismannsins, sem er búsettur í sérstakri borg.

Ég vona, að það hafi komið nægilega í ljós í orðum mínum, að Helgi Guðmundsson og Helgi Briem hafa starfað of mikið í Barcelona, en of lítið í öðrum stórborgum, þar sem þeir þurfa að starfa.

Ef stj. sú, sem nú situr, eða aðrar stj. seinna komast að þeirri niðurstöðu, að fiskierindrekinn geti einnig hér heima leiðbeint fiskimatsmönnum og útgerðarmönnum, þá ætti að breyta þessu frá því, sem nú er, ef það er rétt, sem ég hygg, að það sé skakkt fyrirkomulag, að þessir 2 menn séu aðallega í einni borg á Spáni. Það gæti farið svo, að þessi maður, sem nú er á Spáni, gæti gert meira gagn þar, enda þótt hann væri hér heima 2 mán. ársins. Yfirleitt er það svo á sumrin, þegar viðskiptalífið er í minnstum blóma, að þá væri ekki sízt þörf á því að vera hér heima. Auk þess væri líka sparnaður að þessu, ef ekki þyrfti að borga kaup fyrir þetta matsstjórastarf.“

Ég vil biðja hv. þm. N.-Ísf. að athuga það, að nú er ætlazt til þess, að Spánarfulltrúinn sé hér heima einu sinni á ári til þess að tala við útgerðarmenn og fiskimatsmenn, en ef sérstakur maður er hafður hér heima, er gert ráð fyrir, að hann yrði líka að vera á ferðalagi um Spán og Ítalíu. — Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég vildi aðeins gefa þessar upplýsingar, og læt svo þar við sitja.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég hafi sannfært hv. þm. N.-Ísf., en ég vona samt, að hann játi, að miðað við notkun fiskifulltrúans á Spáni undanfarið, þá sé engu spillt, þótt hann sé dálítinn tíma hér á landi, til þess að standa í sambandi við útgerðarmenn og matsmenn. Eftir að Helgi Guðmundsson var búinn að vera á Spáni, komst hann að þeirri niðurstöðu, að þannig væri heppilegast að starfa á þessu sviði. Hann vildi vera búsettur á Íslandi, til þess að leiðbeina útvegsmönnum hér heima, en fara síðan ferðir til Suðurlanda sem fulltrúi landsins.