30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Torfason:

Ég skal byrja með því að lýsa mig samþ. till. fjvn. um það, að fella niður styrk til júbilljósmóður Þórdísar Símonardóttur. Þessi góða og merka kona og mikli kvenskörungur er nú, eftir vel unnið starf, sofnuð til mæðra sinna.

Ég vil þakka hv. n. fyrir það, sem hún hefir lagt til, að varið verði til vega í Gnúpverja- og Hrunamannahreppi. Hv. n. hefir með þessu sýnt skilning sinn á því, að jafnhliða því, sem verið er að skipuleggja mjólkursöluna með nauðung, sé nauðsynlegt að gera allt til þess, að njóta megi mjólkurbúanna og gera sér mat úr skipulaginu.

Ég á tvær brtt. við þennan síðari kafla fjárlfrv. Önnur fer fram á að hækka styrk til Odds Oddssonar gullsmiðs á Eyrarbakka úr 400 kr. upp í 800 kr. Það má segja, að þessi maður sé langsnjallastur af öllum þeim alþýðumönnum, sem komið hafa fram á ritvöllinn hin síðari ár. Hann hefir fært í letur margan fróðleik og skrifar svo gott mál, að unun er að lesa. Þessi maður á nú 5 tilbúin handrit og 9 ófullgerð, um mjög merkileg mál og ýmislegt, sem þörf er á að safna sem fyrst, áður en sá alþýðufróðleikur dreifist. Þar á meðal eru öll örnefni milli Þjórsár og Ölfusár. Í gömlum örnefnum finnast oft þýðingar á orðum, sem ekki finnast annarsstaðar, svo að þetta getur orðið sjór fyrir þekkingu á íslenzku máli. Þegar efnt verður til nýrrar orðabókar, þá er sjálfsagt að safna slíkum örnefnum og fara í gegnum þau. Oddur Oddsson er álíka gamall og ég og hefir haft ofan af fyrir sér með gullsmíði. Þessar 400 kr., sem gert er ráð fyrir í fjárlfrv. að hann fái, er svo lítið, að hann getur ekki, nema styrkurinn verði hækkaður, snúið sér algerlega að þessu hugnæma viðfangsefni sínu.

Hin till., sem ég ber fram, er um það, að sandgræðslustyrkurinn verði hækkaður um 10 þús. kr. Með þessu er tilætlunin, að tekinn verði og græddur upp allur sandur með sjó fram frá Ölfusá út í Selvog. Árið 1928 var fé veitt til græðslu Strandarlands, og árangurinn varð meiri en af nokkurri annari sandgræðslu, því að jarðvegur er frjór þarna og veðurlag gott. Af Strandarlandi fást nú 160 hestar af töðu, en áður var þarna eyðimörk. Sami mundi árangurinn verða á þessum stað. Þetta verður stærsta sandgræðslutilraun, sem hér hefir verið gerð, tekur yfir 8400 ha. lands, og þetta er ekki aðeins græðslutilraun, heldur verður þetta líka til þessa að bæta fiskveiðarnar. Eftir norðanveður hefir oft verið fiskilaust á þessum slóðum, því að sandfok frá landi bægir fiskinum burt. Allir, sem sótt hafa Selvogsmið, vita þetta.

Enn er þess að geta, að með l. um hafnarbætur í Þorlákshöfn var gert við lendinguna þar lítilsháttar. Síðan hefir Kaupfélag Árnesinga keypt lendinguna og bætt, komið sér þar upp íshúsi og fiskveiðitækjum, og nú er verið að byggja smávélbáta, sem eiga að ganga þaðan í vetur. Nú vill svo oft verða, að fiskur skemmist af sandfoki í Þorlákshöfn og verði 2.flokks og 3. flokks vara. Þessi sandgræðsla er því ekki aðeins nauðsynleg fyrir landbúnaðinn, heldur líka fyrir sjávarútveginn. Sést bezt á þessu, hve mikið alvörumál þetta er. Árnessýsla, Ölfushreppur, Selvogshreppur og Kaupfélag Árnesinga hafa heitið styrk til græðslunnar, en áætlað er, að hún muni kosta 25—30 þús. Þess hefði verið vert að óska, að styrkurinn yrði færður upp um 20 þús. kr. en það hefir þó ekki verið gert, vegna þess að ætlunin er sú, að Strandarkirkja láni nokkurt fé til græðslunnar. Milli þessa lands og lands Strandarkirkju er ekki nema rúmur 1 km., og ef landið verður ekki grætt, eru hagar Strandarlands í hættu. Er því ekki nema eðlilegt, að Strandarkirkja taki nokkurn þátt í þessu.

Ég þykist svo ekki þurfa að segja miklu meira, en vænti þess, að málinu verði vel tekið. Til forna var þessi spilda eitthvert allra bezta land, og getur orðið það enn. Það sýnir sú sandgræðsla, sem fram hefir farið á Strandarlandi. Ég er viss um, að þetta land verður í framtíðinni notað af Reykvíkingum til þess að reisa þar sumarbústaði. Ég fel svo hv. Alþingi málið til góðrar fyrirgreiðslu.