15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér finnst nokkuð varhugavert að samþ. breyt. þá á þessu frv., sem farið er fram á. Yfirleitt finnst mér varhugaverð þessi viðleitni, sem einatt á sér stað, sérstaklega í þessum málum vélstjóra og skipstjóra, að auka rétt þeirra, sem minna kunna, á kostnað hinna, sem meira kunna. Þessi viðleitni styðst aðallega við tvennt, þetta, að auðvitað eru alltaf miklu fleiri menn, sem minna kunna, og í öðru lagi er hætt við, að kröfur þeirra, sem minna kunna, verði minni, og að þeir fái stuðning þeirra, sem kaupa vinnuna, útgerðarmanna. Ég man það, að á fyrsta þingi, sem ég sat, var borið fram frv., og tilgangur þess var í sambandi við siglingalögin að auka réttindi eða undanþágur fyrir ólærða eða lítt lærða menn, á kostnað hinna, sem meira kunna. Alveg það sama hefir átt sér stað nú um vélstjórana og þá menn aðra, er hér eiga hlut að máli.

Ég get ekki neitað því, að það er oft svo, að menn, sem ekki hafa próf, eru eins vel að sér og margir hinna, sem hafa próf og meira kunna. En það má ekki láta slíkar undantekningar ráða því, hverskonar lagasetningar eru gerðar í þessu efni. Það er fleira að gæta í þessu sambandi en réttinda eða atvinnumöguleika þeirra einstöku manna, sem hér eiga hlut að máli. Þetta mál varðar atvinnurekstur þjóðarinnar svo miklu, að það er ekkert vit í þessum afsláttarkröfum um þekkingu í þessum efnum, sem hér er haldið fram. Það hefir verið gert lítið úr þeim umsögnum, sem hér liggja fyrir um frv., eða um þetta ákvæði þess, að auka rétt mótorista til vélgæzlu á mótorskipum. Það hefir verið sagt, að þessar umsagnir væru sumpart frá mönnum, sem væru hlutdrægir eða hefðu ekki vit á hlutunum. Sérstaklega var þetta sagt um vátryggingarfélögin, að þau hefðu ekki atkvæðisrétt um þetta. Nú er það svo, að vátryggingarfélögin hafa sérþekkingu á sínu sviði, og þeir, sem þar starfa, vita, hvaða áhrif slík löggjöf hefir á trygginguna, og auðvitað hefir þeirra umsögn miðazt við þetta. Eigum við þá ekkert tillit að taka til þessarar umsagnar? Vissulega er það áhrifamikið í sambandi við þetta mál, ef þessi lagabreyting hefði þau áhrif að gera tryggingu skipa dýrari, og í sjálfu sér er ekkert undarlegt, þó að svo yrði.

Það er upplýst, að vélstjórar eiga að kunna að gera við skemmdir í vél, sem kynnu að koma fyrir; á að vera tryggara eða meira öryggi fyrir þá kröfu. Er vitanlegt öllum hv. þdm., að þessi krafa er gerð til vélstjóra á gufuskipum, sem jafnframt hafa einir rétt til vélstjórnar á stærri motorskipum, að þeir hafi lært járnsmíði, en það er ekki gerð sú krafa til mótorista við próf.

Hv. þm. Borgf. vakti athygli á því, að gerð væri sú krafa, að þeir, sem hlytu fyllstu réttindi, gengju áður undir próf, verklegt og munnlegt. En það er engin trygging fyrir því, að þeir kunni smíði, ekkert ákvæði er um það í frv. og yfirleitt ekki minnzt á smíðanám. Það á kannske að setja eitthvað þar um í reglugerð, en þá er viðkomandi ráðh. í sjálfsvald sett, hvað sú reglugerð á inni að halda. Ég verð því að líta svo á, að í brtt. við frv. liggi lítil trygging, að sett verði ákvæði um smíðakunnáttu.

Þetta fer líka í bága við umsögn skipaskoðunarmanns, sem hér liggur fyrir og leggur á móti frv. Það hefir verið sagt, að sú umsögn gildi um frv. eins og það lá fyrir upphaflega, en mér finnst það vera lítilfjörleg rök, þegar þess er gætt, að breytingin er mjög lítil, og engin ákvæði hafa verið sett um smíðakunnáttuna, sem er aðalatriðið. Það segir sig sjálft, að það er ákaflega þýðingarmikið að hafa slíka kunnáttu. Eftir því, sem skipin eru stærri og fara lengri ferðir, því nauðsynlegra er, að skipsmenn sjálfir geti gert við það, sem bíla kann. En það liggur í hlutarins eðli, að vélstjórar, sem ekkert hafa lært til smíða, geta ekki gert við verulegar bilanir.

Í annan stað vil ég benda á umsögn forstöðumanns vélstjóraskólans. Það voru einhverjir að draga það í efa, að gufuvélavélstjórar hefðu þekkingu á meðferð mótorvéla. Það er nú upplýst af þessari umsögn, að vélstjóraskólinn veitir jafnfullkomna þekkingu í þeirri grein eins og meðferð annara véla. Það er því ekki um það að ræða, að menn með vélstjóraprófi séu ekki jafnfærir mótoristar eins og aðrir, sem til greina koma vegna síns náms, nema þá hvað æfingu snertir.

Hv. 3. landsk. var að reyna að gera lítið úr smíðalærdómi vélstjóra. Hann sagði, að það væri ekki æfinlega að þeir lærðu það, sem þeir þyrftu að læra, þó þeir stunduðu nám í smíðaverkstæði. Nefndi hann því til sönnunar, að nám í smiðjum, sem ekkert fengjust við vélsmíðar, væri látið duga til undirbúnings vélstjóraprófi. Ég skal játa, að ég kann ekki vel að gera greinarmun á því, sem hér er um að ræða, en ef einhverju er ábótavant í þessu efni, liggur næst að reyna að bæta úr því, tryggja, að menn fái þá þekkingu, sem menn þurfa að hafa. Annars hefði ég haldið, að til þess að geta unnið að vélaviðgerð í skipi úti á rúmsjó varðaði mestu að kunna eitthvað til almennra járnsmíða, því væntanlega hafa menn ekki mikil vélsmíðatæki við hendina undir slíkum kringumstæðum. Mér skilst, að það, sem smíða þarf, verði að smíða með frumlegri hætti heldur en gerist í vélsmiðjum. Og ef bilar einhver vélarhluti, mætti ætla, að venjulegur járnsmiður væri a. m. k. færari til að gera við hann eða smíða annan í staðinn heldur en þeir, sem ekkert hafa lært til járnsmiði; svo hvað sem um þetta er, þá er augljóst, að það er nauðsynlegur kostur á vélstjóra, að hann hafi eitthvað lært til járnsmiði. Í þessu efni finnst mér bresta svo mikið á, þar sem ég sé ekki, að nein krafa sé gerð til þess í frv., að þeir, sem vélstjóraréttindi fá samkv. því, uppfylli nokkrar skyldur, er lúta að smíðakunnáttu, að ég get þegar af þeirri ástæðu ekki greitt því atkv. A. m. k. verð ég að fá áþreifanlegri og öruggari rök fyrir því heldur en enn hafa fram komið, að ekki varði eins miklu og mér virðist, að vélstjórar geti gert við bilanir, sem á vélunum kunna að verða.