16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég á ekki sök á því í umr. um þetta mál, að þær hafa verið leiddar á víðara svið en þetta frv. gefur tilefni til. Það eru fyrst og fremst þeir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Vestm., sem hafa leitt umr. inn á það svið að ræða almennt um málið. En ég verð að segja, að þegar þeir eru búnir að halda ákaflega langar ræður um málið almennt og fara svo fram á það við hæstv. forseta að knýja umr. í gegn á mjög naumum tíma, svo að litlum andsvörum verði við komið, þá bendir það ekki til þess, að þeim sé sérlega kærkomið, að ræður þeirra verði gagnrýndar, heldur kjósa þann kost fremur að hafa síðasta orð um þessa hluti. Að gefnu tilefni frá þeim mönnum, sem hér hafa talað á undan mér, við fyrri hl. þessarar umr., finn ég mig knúðan til að fara nokkuð inn á almennar umr. um málið, sem liggja fyrir utan aðalefni frv. Mun ég þó ekki fara þar lengra en eftir því, sem þeir hafa stofnað til, en leitast við að gera ræðum þeirra skil eftir því, sem rétt er og sjálfsagt. — Ég vil segja þeim, sem ekki sjá ástæðu til að hlusta, að þeir geta lyft sér upp á meðan, hinir sitja kyrrir, því ef fresta á fundi kl. 4, sé ég þess engan kost, að þeir þurfi að bíða eftir atkvgr.

Hv. þm. Ísaf. virtist vilja taka mjög að sér handleiðslu og herradóm yfir miðunum hér við Faxaflóa, eða helzt við Suðvesturland frá Ingólfshöfða að Látrabjargi, og álítur sig bærari að dæma um þörfina á að stemma stigu fyrir dragnótaveiðum en mennina sjálfa, sem búa á þessu svæði. Ég vil benda á, að það virðist vera lítið vit í því, að taka ákvörðunarvaldið um þessa hluti af þeim mönnum, sem á þessum svæðum búa, nema þeir menn, sem það vilja gera, álíti sjálfa sig miklu dómbærari en þá. — Ég get gjarnan frestað minni ræðu, ef forseti óskar. — Ummæli hv. þm. Vestm. og hv. þm. Ísaf. hljóta því að byggjast á því, að þeir telja sig dómbærari í þessu máli en þá menn, sem á svæðinu búa. Mér virðist eðlilegt og líklegt, að þessir menn geri það í þessum efnum, sem þeir telja, að sé sínum hagsmunum fyrir beztu. Ef t. d. hv. þm. Vestm. álítur betur henta gagnvart fiskiveiðunum að nota dragnætur, kemur ekki til mála, að þeir banni dragnótaveiði kringum Vestmannaeyjar. En það er alger óþarfi af hv. þm. Vestm. að sækja þetta svo fast að setja þann leiðinlega stimpil á sjómenn við Faxaflóa, að taka af þeim þann sjálfsagða ákvörðunarrétt, sem öðrum er trúað fyrir. Ég skil ekki annað en Vestmannaeyingar gætu látið sér nægja að veiða á sínum eigin miðum, ef hv. þm. Vestm. ber ekki í brjósti ótta um það, að þrengt verði þar að veiðiskap, ef lögin gilda þar, en ekki hægt að halda sig á öðrum miðum. Og ætli Vestmannaeyingar yndu því vel, að þeir væru stimplaðir ódómbærir um þessa hluti, þegar um væri að ræða þeirra eigin veiðistöðvar? Og viðvíkjandi veiði hér við Faxaflóa verð ég nú að segja, að það er svo frá mínu sjónarmiði, að þeim, sem hér búa og geta haft áhrif á þessa hluti, sé miklu betur trúandi til að ákveða, hvað sé heppilegt fyrir fiskveiðarnar og byggðarlögin, sem þær stunda, en mönnum úr öðrum kjördæmum, að ég ekki tali um hv. þm. Ísaf., sem hefir sýnt fádæma vanþekkingu á fiskveiðunum hér við Faxaflóa. Mátti segja, að við umr. kæmi hann gersamlega eins og álfur út úr hól. Ég sé enga ástæðu til annars en leyfa þeim, sem búa við Faxaflóa og Breiðafjörð, að ráða því sjálfir og úrskurða, hvað þeirra atvinnugrein er hagkvæmast og bezt í þessum efnum. Það er hrein móðgun við þessa menn að setja þá skör lægra en aðra um þessi mál, eins og hér er gert. Það verður því að teljast algerlega óforsvaranlegt af löggjafarvaldinu að ganga svo á rétt þessa fólks, að fella úrskurð um, að það sé ekki dómbært um, hvað því hentar bezt í þessum hlutum. Það er því bein skylda Alþ. að afmá þann smánarblett, að það sé ekki jafndómbært um þessi mál eins og fólk annarsstaðar á landinu. Ég vil benda á, að hér við Faxaflóa er mikill meiri hl. þeirra manna, sem búa við sjávarsíðuna, sem þykir sér misboðið. Sama er að segja um Breiðafjörð, og þó þm. Snæf. hafi ekki enn látið til sín heyra í þessu máli, þykir mér ekki ólíklegt, að hann telji þörf að láta heyra rödd úr sínu kjördæmi, því fyrrv. þm. þeirra hafa mótmælt þeim ósóma, sem þetta er, að þeir séu ekki dómbærir um að hagnýta sér innstu og grynnstu fiskimiðin við Snæfellsnes og Breiðafjörð, þar sem dragnótin er notuð uppi í landsteinum, inn á vikum og vogum. Dragnæturnur spilla þar mjög fyrir og eyðileggja annan veiðiskap miklu meira en sem veiðinni nemur. Er alkunnugt, að dragnætur draga upp og tortíma ungviði allskonar nytjafiska, sem mikið er af á þessum tíma og kemur því í næturnar í stórum stíl. Það, sem þessir hv. þm. Ísaf. og Vestm. hafa haldið fram, að ef höfð væri nægileg möskvastærð, þá skriði ungviðið út, er í algerðu ósamræmi við reynslu allra, sem þekkja — það er strádrepið og eyðilagt. Enda er það svo um alla friðun, bæði fyrir botnvörpu og dragnót, að hún byggist á því, að þessar veiðiaðferðir séu stórskaðlegar fyrir alla nytjafiska, einkum ungviðið, og eiga þær verulega stóran þátt í að hefta og eyðileggja þá öru viðkomu, sem atvinnuvegurinn byggist á. Það er því gagnslaust og þýðingarlaust að slá því fram hér, að dragnæturnar eyðileggi ekki ungviðið, því það er öllum vitanlegt, sem nokkra þekkingu hafa á þessu, að öllu, sem í dragnót kemur, er búinn aldurtili, hvort sem það er stórt eða smátt.

Af þessum sökum eru veiðar með dragnætur uppi í landsteinum hættulegar, og einhver skaðlegasta ránskaparveiði, sem notuð hefir verið.

Mér virtist hv. þm. Vestm. tala þannig um þetta mál, að frekar bæri að færa út kvíarnar, og hans skoðun væri, að bezt væri að afnema allar hömlur á landhelginni. Er það ekki rétt? (JJós: Nei). Það skal gleðja mig, ef hann hefir skipt um skoðun. En mér skildist, að hann, eftir að hafa þaulhugsað þetta mál, vildi fella niður allar hömlur á dragnótaveiðinni, og fannst mér þá, að hitt væri bara í fullu samræmi og eðlilegt áframhald, að afnema alla landhelgisgæzlu. En eftir málflutningi hv. þm. að undanförnu, — og ég gat engin batamerki fundið á honum nú — þá gat ég satt að segja ekki betur skilið en þessi útfærsla og rýmkun á þessu sviði væri inngangur að því að afnema landhelgina og glenna allt upp á gátt. Hv. þm. hélt því einnig fram, að ekki þýddi að ætla sér að loka fyrir Dönum og Færeyingum, sem vitanlega hafa sama rétt til dragnótaveiði og við. Skildist mér, að þeir notuðu landhelgina þrátt fyrir það bann, sem nú er. Kom hv. þm. þeim orðum að því, ef ég man rétt, að þeir hefðu einhverjar þær tilfæringar, að þeir gætu haft nótina langt inni í landhelgi og dregið hana þó bátar þeirra flytu fyrir utan línu. Ég hefi nú ekki heyrt um þennan leyndardóm við þeirra veiðiskap, en ég vil þá segja, að því meiri ástæða er til að opna ekki allt upp á gátt, en gjalda heldur varhuga við slíkum veiðibrellum og þrengja fremur en slaka til. Er þetta enn ný ástæða til þess að binda ekki svo hendur manna eins og gert hefir verið hér við Suðvesturland, að þeir megi ekki bera hönd fyrir höfuð sér, hvað miklum skaða sem þeir eru ofurseldir af dragnótaveiðinni.

En svo ber hv. þm. Vestm. hér fram brtt. um að leyfa Dönum og Færeyingum að nota kúnstir sínar hindrunarlaust hvar sem er um Faxaflóa og Breiðafjörð, og útiloka þá litlu vörn, sem lögin um bann gegn dragnótaveiðinni hafa veitt mönnum. (StJSt: Og þetta getur sjálfstæðismaður sagt). Þetta getur hv. 1. landsk., þessi Danaundirlægja, sagt, sem ekki þorir að segja það orð, sem hann heldur, að Dönum mislíki, eða stíga á þeirra strá. En ég vil segja, að það sé sjálfsagt að sporna við því, að þjóð, sem er 30 sinnum fólksfleiri en Íslendingar, fái aðgang að auðlindum landsins. (StJSt: Hv. þm. er sjálfstæður í fávizkunni). Það er bezt fyrir hv. þm. að vera ekki að grípa meira fram i, heldur fá orðið og standa upp. Mun ég þá svara honum a. m. k. eftir því, sem hann ræðst á mitt sjálfstæði. (Forseti: Ef hv. þm. á mikið eftir, þá væri bezt að fresta umr.). Það stendur mætavel á fyrir mér að hætta, því ég er einmitt nú kominn að kapítulaskiptum í minni ræðu.