30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1935

Páll Hermannsson:

Ég þarf ekki að tala um brtt., sem ég hefi borið fram, því að þær á ég engar. En hér hafa komið fram brtt., sem ég vil ekki sleppa framhjá mér, svo ég ekki minnist á þær. Á ég þar við brtt. hv. minni hl. fjvn. á þskj. 543, er snerta Austurland. Ég fæ ekki betur séð en að töluverður hluti af lækkunartill. hv. minni hl. komi Austurlandi við, enda mun það svo, að það munu engar fjárveitingar til Austurlands í frv., að undanskildum nokkrum fjárveitingum til vega, sem ekki er lagt hér til, að niður verði felldar. — Ég skal þá fyrst minnast á brtt. um, að fjárhæðin, sem ætluð er til þess að koma upp rafveitu við Eiðaskólann, verði felld niður. Eins og sumir hv. alþm. muna eflaust eftir, þá var á síðasta þingi lagður grundvöllur að því, að rafmagnsveitu yrði komið upp á Eiðum. Á ég þar við þál., sem samþ. var í Sþ. Í framhaldi af þessu var svo lögð áherzla á, að sem fyrst yrði byrjað á verkinu, og því er það, að stj. hefir tekið upp í frv. sitt fjárveitingu í þessu skyni, sem hv. minni hl. fjvn. leggur nú til, að verði felld niður. Frsm. minni hl. hélt því fram, að það væri eðlilegt að fella þetta niður, því að það þyrfti að kaupa svo mikið erlent efni til þess að koma rafveitunni upp. Nú er það svo, að mér er ekki kunnugt um, að Alþingi hafi gengið inn á þá stefnu, að koma í veg fyrir, að keypt verði inn erlent efni, og má því til sönnunar minna á Sogsvirkjunina, sem þó er fullt útlit fyrir, að Alþingi vilji styðja. Ég skal játa, að Sogsvirkjunin er stærra og þýðingarmeira fyrirtæki en rafveita á Eiðum, en ég er ekki viss um, að hún sé nauðsynlegri og þýðingarmeiri fyrir þá, sem hennar eiga að njóta, en rafmagnsveita er fyrir Eiðaskóla. Það hefir verið bent á, að hér vantaði allar áætlanir snertandi þetta verk. Þetta er rétt að nokkru leyti, en síðastl. sumar rannsökuðu þó tveir sérfróðir menn möguleika fyrir rafmagnsveitu þarna, þeir Sigurður Thoroddsen verkfr. og Jakob Gíslason raforkufræðingur, en útreikningar þeirra liggja ekki fyrir ennþá. Ég skal játa, að slíkt mannvirki sem þetta á að byggja á fyrirfram gerðum áætlunum, þó að reynslan hafi hinsvegar sýnt, að varlegra sé að treysta þeim ekki algerlega, og minnist ég í því sambandi 60 þús. kr. ábyrgðar, sem samþ. var á aukaþinginu í fyrra fyrir Austur-Húnavatnssýslu vegna rafmagnsveitu á Blönduósi. Þá lágu fyrir margra álna langar áætlanir og útreikningar um fyrirtækið. Þótti svo mjög til þeirra koma, að hver þm. af öðrum fann ástæðu til að rísa úr sæti sínu og lýsa velþóknun sinni yfir. Hv. núv. 1. þm. Reykv., sem í því máli var frsm. fjvn. Ed., sagði t. d., að ábyrgð þessi væri aðeins formsatriði o. s. frv., svo vel væri málið undirbúið. En nú virðist svo sem eitthvað hafi feilað við þetta, annaðhvort útreikningarnir eða framkvæmdirnar, því að nú er beðið um ábyrgð fyrir jafnhárri upphæð aftur. Ég er nú alls ekki að segja þetta af því ég telji ekki, að fyrir eigi að liggja áætlanir og útreikningar um slík verk sem þetta, heldur til þess að sýna fram á, að jafnvel þó að hvorttveggja liggi fyrir, útreikningar og áætlanir, þá geti þó munað miklu, þegar öll kurl koma til grafar. Annars er það svo með skólann á Eiðum, að hann vantar öll hin ytri nýtízku skilyrði, sem slíkar stofnanir þurfa helzt að hafa. Jarðhiti er þar enginn, og rafmagn ekki heldur, sem þó helzt gæti komið í stað jarðhitans. Sundlaug er þar engin og leikfimihús ekki heldur. Leikfimin hefir því verið kennd í kjallaraholu undir öðrum enda hússins. Allt ytra ástand skólans er þannig í lakasta lagi. Hér er því ekki beinlínis um það eitt að ræða, að láta skólann fá rafmagn, heldur miklu frekar um það, hvort leggja eigi skólann niður eða ekki, því að það er margsannað, að skólar, sem vantar svona öll hin ytri skilyrði, geta ekki þrifizt. Þeir verða að standast samkeppnina við aðra hliðstæða skóla, ef þeir eiga að geta starfað og dafnað. Ég veit vel, að Eiðaskóli er ekki stór stofnun á mælikvarða landsmanna í heild, en fyrir Austurland er hann þýðingarmikill. Austfirðingar mega því ekki hugsa til þess, að hann verði lagður niður, og ég fyrir mitt leyti er viss um, að það væri þjóðhagslegt tjón.

Ég kom nýlega austur að Laugarvatni, og leizt að sjálfsögðu mjög vel á mig þar. Meðal annara, sem ég hitti þar, voru 6 eða 8 nemendur úr einni og sömu sveit á Austurlandi. Ég er alls ekki að lasta það, þó að fólk fari eitthvað úr átthögum sínum til þess að afla sér menntunar, en streymi fólk burt án þess að annað komi í staðinn, getur það leitt til auðnar fyrir byggðarlögin og orðið þeim til niðurdreps. Með því, sem ég nú hefi sagt, geri ég ekki ráð fyrir að breyta sannfæringu hv. þm., en með því hefi ég viljað gera þeim ljóst, hvílík nauðsyn það er fyrir Austurland að fá að halda Eiðaskólanum, og hversu mikið áhugamál það er öllum Austfirðingum.

Þá er og lagt til að fella niður liðinn, sem heimilar fé til rafmagnsveitu á Hallormsstað. Ég geri ráð fyrir, að rafmagnsveita sé eins nauðsynleg fyrir þennan skóla eins og Eiðaskólann. Þar hagar svo til, að það er þægilegra að virkja þar en á Eiðum, því að vatnsafl er þar við húsvegginn með nægilegu falli. Þessi skóli er nýr og er að vaxa, og hefir vaxið örara en menn bjuggust við í fyrstu. Ég held jafnvel, að þó aldrei nema hv. minni hl. fjvn. takist að tefja þetta mál nú, þá myndi honum samt ekki lánast að drepa skólann með því, eins og hann myndi gera með Eiðaskóla, ef fjárveitingin til hans yrði felld niður. Liggur það í því alþekkta lögmáli, að sá, sem er ungur og í þroska, er lífseigari en hinn, sem eldri er orðinn og jafnvel lengi búinn að berjast við dauðann.

Um brtt., sem snertir sjúkrahúsið á Reyðarfirði, mun ég ekki fjölyrða; þar er enn vegið í hinn sama knérunn.

Við fyrri hluta þessarar umr., sem fram fór í gær, var minnzt allmjög á það fé, sem ætlað væri til vega á Austurlandi, og skildist mér helzt, að hv. frsm. minni hl. nefna þær upphæðir sem dæmi um hlutdrægni og ranglæti um úthlutun opinbers fjár. Ég mun ekki fara mikið út í þetta nú, þar sem það er ekki til umr., enda fannst mér hv. frsm. meiri hl. svara þar svo greinilega, að hv. frsm. minni hl. hafi hlotið að átta sig á því, að það var ekki rétt, sem hann sjálfur hélt þar fram. Hv. frsm. minni hl. sagði, að Austfirðingar mættu ekki heimta bættar samgöngur bæði á sjó og landi. Hvað strandferðirnar snertir, þá verða þær nú tæpast taldar fyrir Austurland eitt. Þar njóta fleiri landshlutar góðs af. Annars er það nú svo, að hv. minni hl. vill líka draga úr þeim. Eins og samgöngurnar á sjó hafa að undanförnu verið við Austurland, þá eru þær fyrir neðan allar hellur. Það hefir aðeins verið tilviljun ein, ef hægt hefir verið að komast þaðan á sjó, án þess að stela varðskipi. Má því til sönnunar nefna dæmið frá síðastl. hausti, þegar hrúgað var saman í eitt varðskipið yfir 120 farþegum, sem þó varð til þess, að skip var sent eftir þeim, sem eftir urðu, sem voru um 100. Annars er ég dálítið hissa á, að sjálfstæðismenn skuli koma svona fram gagnvart Austurlandi nú, að telja allt eftir, sem þangað fer af opinberu fé. Það er af sú tíð, þegar þeir gerðu það að flokksmáli, að veittar skyldu í einu 50 þús. kr. til vegarins á Fjarðarheiði.

Ég vil svo að endingu undirstrika það, að ég sé enga skynsamlega ástæðu fyrir því, að ráðizt sé svona freklega á hagsmunamál Austurlands, eins og hv. minni hl. fjvn. gerir nú. Vænti ég því, að hv. 1. þm. Skagf., frsm. minni hl., sjái, að þessi herferð hans á þennan landshluta er ekki réttmæt.