27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

130. mál, vátryggingar opinna vélbáta

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég varð fyrir því óhappi við 2. umr. að flytja hér brtt., sem hneykslaði svo málfræðiskennd menntamanna þessarar hv. d., að þeir sáu sér ekki annað fært en að fella hana. Ég ætla ekki að ræða um það frekar, en ég hefi verið að hugsa um það stundum síðan, að oft er þetta orðalag notað í almennu máli, og hygg, að ef orðteknar væru daglegar ræður þeirra heldri manna, sem ekki sáu sér annað fært en fella brtt. mína, þá mætti finna þar hliðstæða meðferð á máli. En hvað um það, af þessu leiðir, að fyrirsögn frv. verður að breyta, hún getur ekki staðizt eins og hún er. Og til þess að fara varlega legg ég aðeins til, að aftan við fyrirsögnina verði bætt „og fleira“. Má e. t. v. eitthvað að þeirri till. finna, en ég hygg nú samt, að hún geti staðizt.

Ég flyt aðra smábrtt. við 4. gr., og er hún frá mínu sjónarmiði þýðingarmeiri, því mér er ljóst, að reglugerðin, sem þar um ræðir, þarf staðfestingu stjórnarráðsins, en í gr. er svo komizt að orði, að stjórnarráðið skuli samþ. hana. Því fer brtt. fram á, að fyrir orðið „samþykki“ komi „staðfesting“. Ég vona, að allir hv. þdm. geti áttað sig á því, að þó þetta sé í raun og veru aðeins orðabreyt., þá hefir hún mikla raunverulega þýðingu.