27.11.1934
Efri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

77. mál, áfengislög

Páll Hermannsson:

Mér finnst ekki laust við að hv. ræðumenn hafi teygt nokkuð lopann um þetta mál. Ég undrast það ekki, þótt hér hafi farið fram um málið nokkrar umr. og vil ég ekki beinlínis bregða hv. þdm. um málþóf í þessu máli ennþá. En langar þykir mér ræður manna gerast.

Í þessari hv. d. var á aukaþinginu síðast borið fram frv., sem gekk í sömu átt og þetta, sem hér liggur nú fyrir. Ég var með í að hjálpa því til 2. umr. Lengra ætla ég, að það hafi ekki komizt. Menn voru þá í nokkrum vafa um það, hvaða afstöðu ég mundi hafa til frv. En af því að það komst ekki nema til 2. umr., þurfti ég ekki frekar en aðrir að sýna lit í því máli, þannig að ég þyrfti að gera grein fyrir, hvernig ég hygðist að snúast við málinu.

Mér hefir skilizt, að ástandið í þessum málum undanfarið hafi verið þetta í aðalatriðum: Árið 1908 fór fram atkvgr. meðal þjóðarinnar um það, hvort banna skyldi innflutning á vínum hingað til landsins, og féll sú atkvgr. þannig, að þetta skyldi gert. Í samræmi við þá atkvgr. voru svo sett bannlög árið 1909. Ég lít svo á, að setning bannlaganna hafi í byrjun slegið töluvert niður drykkjuskap hér á landi. En nokkru eftir 1920, mig minnir árið 1923, var Spánarundanþágan veitt, og þegar búið var að veita hana, þá ætla ég, að vonlaust hefi verið orðið, eða a. m. k. vonlítið um árangur af bannl. hér á landi. Hvernig þessi Spánarundanþága verkar, geta menn fengið töluverða hugmynd um af því, að í síðasta landsreikningi, sem hér liggur fyrir, frá árinu 1933, eru tekjurnar af víninu fjórði hæsti tekjuliður ríkissjóðs og sem gefur 1¼ millj. kr. í ríkissjóð á ári. Þessar tekjur eru vitanlega aðeins af leyfilega innfluttum vínum. Ef maður auk þessa athugar það, að eftir kunnugra manna sögn er hér í Reykjavík hægt að fá öll vín, sem menn girnast, þá er það líka vitanlegt, að öll vín, sem hægt er að fá hér á landi, eru óleyfileg, nema Spánarvín. Þegar því er svo bætt við, að víða á landinu eru brugguð vín, meira og minna óholl og háskaleg, ekki aðeins til neyzlu fyrir bruggarana og nágranna þeirra, heldur einnig til þess að flytja þau hingað til Reykjavíkur og í aðra kaupstaði í stórum stíl, eins og kunnugt er, þá verð ég að líta svo á, að þeirri blessun, sem ætla mátti í byrjun, að kynni að stafa af bannl., sé nú algerlega varpað fyrir borð. Svo endar þetta þannig, að á síðasta ári fór fram, að tilhlutun Alþ., atkvgr. hjá þjóðinni um það, hvort halda skyldi í þessar áfengisbannsleifar eða ekki, og atkvgr. féll þannig, að meiri hl. greiddra atkv. var með því að afnema bannlagaslitrin, sem enn eru til. Ég játa það, að e. t. v. er ekki að öllu leyti rétt að taka mikið mark á þessari atkvgr. Ekki nema röskur helmingur atkvæðisbærra manna í landinu greiddi atkv. um málið og ekki nema 30% atkvæðisbærra manna í landinu greiddu atkv. með afnámi bannlaganna. Mér skilst þó, að þá ályktun megi af þessu draga, að þar sem meiri hl. þeirra, sem atkv. greiddu, vildi afnema bannið, þá sé þar með fallin síðasta stoðin undan því, að bannlögunum verði haldið uppi, og þar sem þetta er orðið viðurkennt, að meiri hl. þeirra, sem greiddu atkv. um þau, vildi afnema þau, þá ættu þeir, sem vildu bera bannl. uppi, að gefast upp — (IngP: Það er misskilningur.) af því að þeir eru sigraðir. Það er ekki hægt að halda uppi l. eins og bannl., þegar hægt er að vitna í það, að þjóðin við atkvgr. hefir dæmt þau til dauða. Að þessu leyti læt ég þessa atkvgr. mér að kenningu verða. Ég álít, að hún sýni, að bannl. verður ekki haldið uppi lengur í landinu. Ég álít, að með þessari atkvgr. hafi fallið síðasta stoðin undan því, a. m. k. í bili, að mögulegt sé að halda uppi bannl. hér á landi, og virðist mér þetta eðlilegur gangur málsins. Það hefir smátt og smátt verið reynt að búa bannl. þannig úr garði, að lið yrði að þeim. En það hefir ekki lánazt.

Ég ætla, að templarar hafi verið kvaddir til ráða, þegar áfengisl. voru sett árið 1930, og að það hafi þá verið tekið inn í löggjöfina, sem þeir ætluðust til að í slíkri löggjöf stæði. Þó hefir ástandið alltaf versnað. Mun ég því greiða atkv. með frv. vera má, að einhverjar breyt. þurfi að gera á því. Ég hygg einnig, að erfitt verði að setja áfengisl. þannig, að ekki þurfi, og það kannske fljótt, að breyta þeim.

Vil ég benda á það — sem þýðir nú kannske ekkert að benda á —, að það verður sjálfsagt erfitt að halda í heiðri því ákvæði frv., að ekki megi selja vín yngra fólki en 21 árs. Ég geri ráð fyrir, að betra sé, að eitthvert slíkt ákvæði standi í l. En þessu ákvæði verður samt ekki hægt að halda uppi bókstaflega.

Ég vil einnig benda á, að í 27. gr. frv. eru fyrirmæli, sem ég hygg, að ekki eigi fullkomlega við þá gr. l., sem í frvgr. getur, 6. gr. Geri ég ráð fyrir, að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, vilji íhuga þetta.

Skal ég svo að lokum benda á, að af þeim, sem hér hafa haldið uppi einna harðvítugustum vörnum fyrir bannl., eru tveir í n. þeirri, sem ætla má jafnvel, að fengi þetta mál til meðferðar, samskonar n. og hafði málið til meðferðar í Nd. Ég tel alveg víst, að menn úr þeirri n., sem málið fær til meðferðar, telji sér leyfilegt að tala fyrir sinni skoðun á hvaða stigi málsins sem er. Fremur virðist mér það óviðkunnanlegt, að þeim, sem í byrjun meðferðar málsins hér í hv. þd. hafa sýnt svona harðsnúna og einhliða andstöðu gagnvart frv., verði falið að vinna að því í n. Ef fram kæmi till. um að vísa þessu máli til annarskonar n. en þeirrar, sem málið hafði til meðferðar í Nd., þá væri athugandi, hvort það væri ekki rétt. Ég álít, að þetta atriði geti heyrt undir þau ákvæði þingskapa, sem tiltaka, að að jafnaði skuli málum vísað til samskonar n. í báðum þd., en gera þó ráð fyrir því, að út af því megi breyta, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.