10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. þm. hefir nú sýnt mér þann sérstaka sóma að minnast á mínar brtt. hér, jafnframt því sem hann lætur ekkert uppi um brtt. annara hv. þm.

Um þær röksemdir fyrir afstöðu n. til þessarar brtt. viðvíkjandi línunni frá Saurbæ að Þyrli, er það að segja, að hún hefir fyrir nokkrum árum verið tekin inn í ritsímal., og lína þessi var alveg byggð á kostnað ríkisins. Það hefir aldrei verið nein samþykkt gerð um það, að þetta skuli vera einkalína. Til þess þyrfti sýslunefndarsamþykkt um skiptingu kostnaðar við símalínurnar, hvernig þessum kostnaði, sem héraðið legði fram, yrði skipt niður á einstaka aðila. En engin slík samþykkt hefir verið gerð. Það eina, sem skeð hefir hér, er það, að tveir bæir á línunni hafa komizt að samningum við landssímastjóra um, að þeir settu upp stöðvar og borguðu 200 kr. hvor til þess að komast inn á landssímalínuna. Það er þess vegna á fyllstu rökum byggt, að þessi símalína verði framlengd á sama grundvelli. Ég vil biðja hv. frsm. að benda mér á, hvar sú samþykkt er, sem það byggist á, að hér sé um einkasímalínu að ræða. Ég ætla, að hv. frsm. yrði að leita nokkuð lengi að þeirri samþykkt, ef hann ætlaði að finna hana, því að hún er alls ekki til.

Ef þær eru yfirleitt svona röksemdirnar, sem n. leggur til grundvallar fyrir mótmælum sínum gegn brtt. einstakra þm. við ritsímal., þá held ég, að hv. n. hafi ekki grafið niður á traustan grundvöll til þess að byggja á sínar ástæður fyrir afgreiðslu þessara brtt.

Um hinar línurnar, sem hv. frsm. nefndi og ég flyt brtt. um, — að þær ættu að vera einkalínur, það hefir ekkert verið um talað. Engin samþ. hefir verið gerð í héraðinu þar að lútandi. Þess vegna eru líka þær brtt. gersamlega í fullu samræmi við þær brtt., sem yfirleitt eru fluttar hér um að taka inn í símal. nýjar línur.

Lengra þarf ég ekki að fara út í þetta mál nú. En að því leyti, sem hv. frsm. talaði hér um glundroða og þvælu, þá hnekkir það ekki mínum brtt., því að þær voru rétt stílaðar inn í frv. eins og það var flutt. Glundroði og þvæla hlýtur því í þessu tilfelli að vera eitthvað, sem komið hefir frá hv. n., ef á að fara að setja slíkt í samband við mínar brtt. Það getur vel verið, að n. hafi að þessu leyti reynt að setja snöru á mínar brtt. og búið til erfiðleika á að samþ. þær, því að þær voru í svo góðu lagi frá minni hendi sem mest gat verið að þessu leyti.

En til þess að þessi sök n., ef um sök er að ræða, og til að ekki verði hér neitt fótakefli fyrir mönnum, raunverulegt eða ímyndað, þá get ég tekið aftur brtt. mínar til 3. umr., til þess að n. gefist kostur á að kynna sér, á hvaða grundvelli hún byggir um brtt. mínar, því að ég held, að hv. n. væri sérlega þarft að lesa upp og læra betur um þessi mál.