25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (3381)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er á sama hátt komið fyrir deildina og næsta mál á undan. Er það flutt af meiri hl. allshn., en minni hl. hefir ekki tekið sérstaka afstöðu til þess. — Á undanförnum árum hefir ýmiskonar ríkisstofnunum og ríkisrekstri fjölgað mjög ört, og mun svo halda áfram. Yfir flestar þessar stofnanir eru settir forstjórar, sem hafa alla stjórn þeirra og allt ráð í hendi sér. Þó yfirumsjón heyri að vísu undir stjórnarráðið, segir það sig sjálft, að slíkt getur aldrei orðið nákvæmt. Hér er því farið fram á að skipa 3 manna ráð með hlutfallskosningu á Alþ. til að hafa þetta yfirlit á hendi. Það virðist sjálfsagt að hafa sömu skipun á þessu við fyrirtæki þau, sem ríkið lætur reka, eins og tíðkast við margskonar atvinnufyrirtæki, sem félög standa að, að sérstök stjórn sé skipuð við hlið forstjóra, án þess þó að skerða hans vald.

Í stærri málum og þar, sem um mikilsverðar ákvarðanir væri að ræða, mundu verða haldnir fundir, og forstjórarnir leggja þar málin undir eftirlitsráðin. Þessar fundargerðir yrðu svo fskj. með skýrslum forstjóranna til þingsins. Einnig ættu þessi ráð að koma saman á fundi með ráðherrunum, þegar samræma þarf ýmsan rekstur ríkisins og taka tillit til hans á margan hátt við samning fjárl.

Annars býst ég ekki við, að um þetta mál þurfi að verða neinn ágreiningur, því allir munu sjá, að hér er um að ræða gott mál og þarft.